Ferðasaga – Amalfi coast, Ítalía

Þar sem ekkert verður af ferðalögum hjá mér í ár þá ylja ég mér við ferðaminningar síðustu ára. Mig langar núna til að segja ykkur frá einum fallegasta stað sem ég hef heimsótt. Ef ég mun einhverntíma gifta mig, þá heimta ég að farið verði í brúðkaupsferðina þangað. En staðurinn sem ég er að tala um er Amalfi coast á Ítalíu, en við fórum þangað í Ítalíu roadtrip ferðinni okkar í fyrra sem ég hef fjallað um hér áður.

Amalfi coast samanstendur af þrettán bæjum/þorpum á suðurströnd Ítalíu, og má þar meðal annars nefna Praiano, Ravello, Atrani, Amalfi, Minori, Furore og sá allra frægasti er líklegast Positano. HÉR getið þið lesið meira um hvern bæ fyrir sig, horft á myndband og fræðst meira um Amalfi coast ef áhugi er fyrir hendi.

Við stoppuðum alltof stutt á Amalfi coast, ekki nema þrjár nætur. Við náðum því alls ekki að heimsækja alla bæina, sem okkur fannst mjög leiðinlegt og því erum við alveg harðákveðnar í að fara þangað aftur einn daginn og vera þá mikið lengur. Við gistum á hóteli í bænum Praiano sem heitir HOTEL TORRE SARACENA og var það eiginlega mest lúxus gistingin sem við leyfðum okkur í þessu ferðalagi. Hótelið stóð klárlega fyrir sínu og gott betur en það. Aðstaðan og útsýnið þarna var hreint út sagt stórkostlegt. Við eyddum einum degi í Praiano þar sem við létum fara vel um okkur í hótelgarðinum og gengum svo um bæinn og fórum á ströndina.

Hinum deginum eyddum við svo í Positano og þaðan sigldum við yfir til eyjarinnar Capri þar sem við eyddum nokkrum tímum. Eins og ég sagði hér að ofan þá er Positano frægasti bærinn á Amalfi coast og því vorum við alveg harðákveðnar í að fara þangað, og urðum við ekki fyrir vonbrigðum. Það er mikill munur á Praiano og Positano, en sá síðarnefndi er þakinn túristum á meðan hinn er mun rólegri. Allt verðlag er mjög hátt í Positano, erfitt að fá sæti á veitingastöðum, markaðstjöld út um allt og það kostaði 25 evrur að leigja sólbekk á ströndinni. En þegar maður kemur þangað, þá skilur maður þessar vinsældir.

Að fara til Capri var svo bara skyndiákvörðun, en við komumst að því að það tæki bara hálftíma að sigla með ferju þangað yfir frá Positano, svo við ákváðum að skella okkur. Capri er ótrúlega falleg eyja og það var mikið af skoðunarferðum í boði þar við höfnina og við ákváðum að fara að skoða helli sem heitir Blue Grotto. Mögnuð upplifun.

Á þriðja deginum þurftum við svo að fara á næsta áfangastað (sem var Róm), svo við náðum ekki að skoða fleiri bæi á Amalfi coast, en aðrir bæir sem við hefðum viljað skoða voru til dæmis Ravello, Amalfi og Atrani. Þeir eru allir á to do listanum hjá okkur núna.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við