Flest eigum við það sameiginlegt að ferðast annað hvort innanlands eða erlendis. Margir sem hafa vanið sig á heilbrigðan lífsstíl hérna heima eiga oft erfitt með að fara út úr þessari rútínu sem þeir hafa komið sér í og aðlaga hana að nýju staðsetningunni.
Persónulega finnst mér rosalega gaman að hreyfa mig og ég á erfitt með að taka mér margra vikna frí frá hreyfingu. Einnig á ég erfitt með að hvíla hreyfingu of lengi þar sem ég er bakveik og fer þá að finna meiri verki í bakinu. Varðandi mataræði þá líður mér alltaf best þegar ég borða hollt en ég vil þó geta notið líka.
Það eru nokkur ráð sem ég er með ef þú ert að fara að ferðast!
Ferðalög innanlands og hreyfing
Ef þú ert að fara að ferðast innanlands þá eru oft margir valkostir í boði varðandi hreyfingu eins og til dæmis
- Taka hjólið með og hjóla úti á landi: Ég og Hörður höfum verið dugleg að taka hjólin okkar með og hjóla út um allt. Við gerðum þetta t.d. þegar við fórum í sumarbústað í Þjórsárdal síðustu helgi og notaði ég hjólið mitt mjög mikið
- Fara í sund: Það er nánast alltaf hægt að finna sundlaug nálægt þar sem hægt er að skella sér í smá sund
- Ganga á fjöll: Við búum á Íslandi þar sem við erum með nóg af fjöllum til að velja úr! Það er hægt að taka með góða skó og fatnað og ganga upp á næsta fjall.
- Fara út að hlaupa: Eina sem þú þarft eru hlaupaskórnir og þægileg föt til að hlaupa í! Þú getur reynt að hlaupa á göngustígum eða í náttúrunni, það er nánast alltaf hægt að finna einhvern stað sem hentar í hlaup!
- Finna rækt sem er nálægt þér: Þegar maður er staðsettur nálægt bæ þar sem er að finna rækt er hægt að taka stutta æfingu þar ef maður er farinn að sakna þess mjög mikið
- Gera æfingar með teygjum og nýta aðstæðurnar sem þú ert í: Þetta er hægt að gera hvar sem er! Það er hægt að gera endalaust margar æfingar með teygjum sem hægt er að finna t.d. á Youtube. Þessar æfingar er hægt að gera í bústaðnum, útilegunni eða hvar sem er.
- Frisbí golf: Það eru komnir mjög margir Frisbí golf vellir á Íslandi sem hægt er að kíkja á
- Göngutúr: Það getur verið mjög hressandi að taka smá göngutúr í nágrenninu
Ferðalög innanlands og mataræði
Þegar ég er að ferðast innanlands þá finnst mér oftast mjög auðvelt að halda mataræðinu góðu. Þar sem við erum með allar þær búðir sem við erum vön að versla í þá reyni ég að halda mig við það sem ég er vön að kaupa og kaupa sem minnst af snakki, nammi og óhollustu. Ég kaupi þá frekar til dæmis kjöt til að grilla, ávexti, grænmeti, skyr, flatkökur og gróft brauð.
Þar sem ég er í fríi meðan ég ferðast innanlands þá leyfi ég mér þó meira en ég er vön ef mig langar en reyni þó að hafa það í hófi. Ég fæ mér t.d. súkkulaði eða popp ef mig langar í en ég reyni að detta ekki í nammipokann alla daga meðan ég er í fríi.
Ferðalög erlendis og hreyfing
Þegar ég ferðast erlendis þá er ég oft að fara til að slaka á og vera í fríi. Það er misjafnt hversu mikið ég hreyfi mig en oftast hreyfi ég mig eitthvað. Það sem mér finnst oftast auðveldast að gera meðan ég er erlendis er
- Fara út að hlaupa: ef ég er í sólarlandi þá reyni ég að vakna snemma, áður en það verður of heitt
- Gera æfingar úti: ég hef stundum tekið með mér teygjur og sippuband og geri nokkra æfingahringi sem ég set saman. Það er hægt að finna fullt af sniðugum æfingum til að gera á netinu
- Fara í göngutúr: þegar ég er erlendis þá enda ég oftar en ekki á að labba rosalega mikið! Oft læt ég það bara nægja sem hreyfingu þar sem það tekur oft vel í að vera að labba mikið.
- Leigja hjól: það er oftast mjög auðvelt að leigja hjól erlendis, hvort sem það eru venjuleg hjól eða racer.
- Nota ræktina á hótelinu: ef þú ert á hóteli eru einhverjar líkur á að það sé rækt á hótelinu. Það er líka oft hægt að finna rækt nálægt sem hægt er að kíkja í.
Ferðalög erlendis og mataræði
Þegar ég er erlendis þá á ég oft í smá vandræðum með mataræðið mitt, þá aðallega af því ég er með laktósa óþol og það er oft erfitt að fá upplýsingar frá starfsfólki hvort það sé mjólk í matnum. Oftast finnst mér það auðveldara ef ég elda sjálf en það er ekki alltaf í boði.
Eins og með ferðalög innanlands þá reyni ég að halda mataræðinu ágætu meðan ég er erlendis. Ég leyfi mér þó meira en ég er vön þegar ég er ekki í fríi og ég fæ mér það sem mig langar í þegar ég fer út að borða. Ég reyni þó að velja ekki alltaf pizzu, hamborgara eða eitthvað djúpsteikt í hvert skipti sem ég fer að út að borða, ég reyni að hafa það smá spari. Mér finnst best að hafa engar öfgar meðan ég ferðast, ég vil hvorki missa mig alveg og borða bara eitthvað óhollt né borða bara eftir einhverju ströngu mataræði og leyfa mér aldrei neitt. Ég veit mér líður alltaf best ef ég borða hollt og því reyni ég að halda smá jafnvægi á þessu meðan ég er úti
Smá að lokum
Leyfðu þér að njóta meðan þú ert í fríi! Ef þig langar að fá þér aðeins óhollari mat í fríinu leyfðu þér það þá bara!
Ef þú ert ekki í stuði til að hreyfa þig þá er það líka allt í lagi, þú heldur bara áfram í þeirri rútínu sem þér líður vel í þegar þú kemur heim aftur.
Nokkrir dagar eða vikur í fríi þar sem þú slakar á og nýtur lífsins eru ekki að fara að skemma fyrir þér margra mánaða vinnu.
Segjum þetta gott í bili,
Ása Hulda