Fataskáparnir filmaðir

Ég og Hörður fluttum inn í íbúðina okkar fyrir einu og hálfu ári síðan en frá því við keyptum íbúðina hefur okkur langað að fríska upp á fataskápinn sem er frammi í forstofu. Skápurinn hafði verið málaður með grárri málningu af fyrri eiganda og var farið að sjá svolítið á honum.

Skápurinn fyrir

Í vor gerðum við okkur ferð í Bauhaus og keyptum okkur háglans hvíta filmu og nýja hurðarhúna til að setja á skápinn. Við tókum okkur svo nokkra klukkutíma í að dundast í þessu saman.

Svona gerðum við þetta:

Skref 1: Allar hurðarnar voru teknar af skápnum og þrifnar vel með spreyi og fiber tusku

Skref 2:  Allar höldur voru teknar af og fylltum upp í göt með tréspartsli. Leyfðum því svo að þorna.

Skref 3: Pússuðum létt yfir hurðarnar með fínum sandpappír og pössuðum að pússa vel yfir spartslið

Skref 4: Mældum hversu mikið magn af filmu þurfti í hverja hurð og skárum hana til með dúkahníf svo hún yrði meðfærilegri.

Skref 5: Filman var lögð a borðið og hurðin á hvolf ofan á. Hjálpuðumst að við að losa filmuna frá og límdum efsta hlutann á henni við hurðina. Hurðinni var síðan snúið við þegar efsti hlutinn á hurðinni var límdur.

Skref 6: Notuðum sköfu til að þrýsta filmunni þétt að hurðinni. Pössuðum að allar krumpurnar færu úr og filman væri alveg slétt upp við

Skref 7: Hurðinni var aftur snúið á hvolf og skárum hliðarnar á filmunni svo þær næðu yfir brúnina og aðeins aftan á hurðina. Við skárum svo í 45° á öllum hornunum.

Skref 8: brutum upp hverja hlið fyrir sig og notuðum sköfu til að taka í burtu allar krumpurnar.
Fórum svo yfir hliðarnar með hárblásara (passa að hafa hann ekki of heitan) og fórum með sköfuna aftur yfir hliðarnar.

Þetta var mjög skemmtilegt dundur hjá okkur og alls ekki jafn erfitt og við vorum búin að gera ráð fyrir!
Ég viðurkenni að ég er töluvert sáttari með fataskápinn á ganginum eftir að við filmuðum og skiptum um höldur.

Ég er mjög virk á Instagram og deili allskonar þar inni, mæli með að fylgja ef þið hafið áhuga á að fylgjast með <3

 

 

Þér gæti einnig líkað við