Fanndís Embla 5 ára

Fanndís Embla varð 5 ára í júlí og valdi hún að hafa LOL Suprise þema í afmælinu. Þar sem hún var frekar óákveðin með þemað fram á síðustu stundu, þá pantaði ég engar afmælistengdar vörur að utan í þetta skiptið en í staðin var gripið til þess ráðs að föndra til þess að fylla upp í það sem okkur fannst vanta.

Ákveðið var í ár að halda afmælið í Skátaskálanum við Hvaleyrarvatn og hafa hoppukastala ásamt náttúrunni í kring fyrir krakkana að leika sér í, svo undirbúningurinn var með aðeins breyttu sniði en áður.

Ákvað ég til að mynda að sleppa því að kaupa gasblöðru með tölustafnum fimm en frekar búa til standandi pappa fimmu. Það endaði sem ekkert mál, þegar við vorum búin að finna út hvernig best væri að gera hana.


Afmæliskakan og Oreo sleikjóarnir voru þeir tveir hlutir sem einna mest slógu í gegn, en var það einna helst kremið á kökunni sjálfri. Kakan var klassísk 4 hæða súkkulaðikaka sem hafði á milli dýrindis súkkulaðikrem og smjörkrem í kringum að utan en var toppuð með bleiku candy melts og sykurskrauti.

Oreo sleikjóar eru bara oreo sem eru festir á prik með hvítu súkkulaði, látið kólna í ísskáp í 10 mínútur, þá næst hjúpaðir svo með súkkulaði að utan og látið standa þangað til það hefur harðnað. – Mjög einfalt að gera.

Fyrir neðan er svo uppskriftin af súkkulaðikreminu fræga.

Súkkulaðikrem
500 gFlórsykur
60 g Kakó
1 stkEgg
80 g Smjör, bráðið
1,5 msk Sterkt kaffi
1 mskMjólk
0,5 tskSalt
Vanilludropar

Aðferð: Setjið flórsykur og kakó í skál og hrærið eggi og bræddu smjöri saman við ásamt vanilludropum, kaffi, mjólk og salti. Setjið í sprautupoka og skreytið.

Þetta krem hef ég bæði notað á milli laga í köku en einnig á bollakökur. Þetta krem er búið að vera í uppáhaldi í mörg ár en það er að finna í einni af matreiðslubókunum sem Hagkaup hefur gefið út.

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna

Þar til næst ♡
-Sandra Birna

Þér gæti einnig líkað við