Ég eignaðist mitt fyrsta barn í september síðastliðinn eftir glasafrjóvgun sem ég hef deilt með ykkur hér á blogginu.
Getið lesið nánar hér:
Draumurinn um barneignir
Glasafrjóvgun og fyrsti þriðjungur
Í stuttu máli þá biðum við í rúm 7 ár eftir þessu barni. Eftir 6 ár þá fórum við í glasa sem heppnaðist í annarri tilraun.
Við hjúin vissum að fæðingarþunglyndi væri algengt og vorum við vel vakandi yfir hættumerkjum en innst inni ,,vissi ég‘‘ að þetta myndi ég ekki upplifa. Ég vissi að þetta yrði erfitt en ég óskaði mér ekkert heitar en að eignast barn og því erfitt að hugsa til þess að ég myndi upplifa einhversskonar þunglyndi og vanlíðan þegar ég fengi barnið í hendurnar.
Á meðgöngunni þá vildi ég sífellt að Freyr myndi setja hendina á bumbuna þegar ég fann fyrir hreyfingum, svo hann myndi ná að tengjast henni á einhvern hátt. Ég var hrædd um að þegar hún kæmi í heiminn, að hann myndi ekki ná að tengjast henni eins og ég. En það sem gerðist var að hann fann fyrir þessari tilfinningu gagnvart stelpunni, sem ég hélt að ég myndi finna fyrir. Þau feðginin áttu svo ótrúlega fallegt samband frá fyrsta degi og henni leið langbest hjá honum.
Fyrsti sólarhringurinn er í smá móðu, ég man í raun bara eftir þessum degi þegar ég renn yfir myndirnar sem við tókum. En dagarnir liðu og mér leið eins og þetta væri ekki mitt barn, fannst þetta það óraunverulegt að þessi litla manneskja væri okkar og við ættum að hugsa um hana.
Leið eins og ég hafi tekið eitthvað barn af spítalanum og tekið það með heim. Ég tengdist henni alls ekki og mér fannst ég engan vegin vera mamma hennar. Ég elskaði hana og allt það, en hún var samt hálf ókunnug fyrir mér. Ekki hjálpaði til að fyrstu vikurnar voru virkilega erfiðar, hún svaf lítið sem ekkert, drakk lítið og brjóstagjöfin gekk ekki. Mikill grátur og mikið öskrað.
Þegar Freyr skrapp aðeins út þá var hún yfirleitt öskrandi allan tímann á meðan við vorum tvær saman en hætti um leið og Freyr mætir og tekur hana í fangið. Það var vissulega erfitt að upplifa að ég gæti ekki huggað mitt eigið barn.
Þarna var ég alvarlega að skoða það hvort hann gæti tekið við orlofinu og ég farið að vinna, ég vildi ekki vera lengur heima.
Ósjálfrátt þá stökk ég til ef það þurfti að elda, ganga frá, sjá um þvott og annað slíkt, svo ég þyrfti ekki að sjá of mikið um hana. Hafði litla löngun í að gefa henni að drekka, skipta á henni, svæfa og þess háttar. Ómeðvitað flúði ég þau verk og lét þau öll í hendurnar á Frey af því ég upplifði svo mikla höfnun frá dóttur minni því hún var yfirleitt mun værari hjá honum. Það var ekki fyrr en Freyr fór að taka eftir þessu hjá mér og benti mér á þetta. Oftast tekur maður sjálfur ekki eftir því að eitthvað sé að og því gott að geta talað saman, enda vorum við bæði mjög meðvituð um að annað okkar, eða bæði, gæti upplifað fæðingarþunglyndi.
Í dag finnst mér mjög leiðinlegt að ég hafði engan áhuga á þessu og mér finnst ég hafa misst af fyrstu vikunum hennar. En á sama tíma vörðu þau feðginin miklum tíma saman og hún varð algjör pabbastelpa, sem mér þykir svo fallegt.
Á þessum tímapunkti fannst mér ég vera frekar misheppnaður kvenmaður.
Að geta ekki búið til barn eðlilega, að eiga erfiða meðgöngu, að geta ekki nært barnið mitt eða séð um það og huggað.
Margir litir hlutir sem ýttu undir fæðingarþunglyndið.
Freyr framlengdi sínu orlofi um þrjár vikur. Þessar þrjár vikur höfðu svo mikið að segja, ég byrjaði í HAM meðferð í gegnum heilsugæsluna til að undirbúa mig andlega áður en ég yrði ein með henni. Það var einnig mikill munur á Arndísi á þessum tíma, hún var farin að hjala mikið, brosa og hlæja sem hjálpaði mikið til. Ég fór að finna fyrir mun meiri gleði að sjá hana svona hamingjusama og fór loksins að tengjast henni.
Núna er hún 5 mánaða og mig langar alls ekki að fara aftur í vinnuna. Mér fannst fæðingarorlofið loksins byrjað þegar hún var í kringum 4 mánaða. Auðvitað krefjandi tímar inn á milli en líka góðir tímar, sem var mjög lítið af í byrjun.
Um 10-15% kvenna upplifa fæðingarþunglyndi og getur það komið fram hvenær sem er fyrsta árið, ekki eingöngu fljótlega eftir fæðingu. Verið dugleg að ræða saman og fylgjast með hvort öðru. Það eru nefnilega ekki bara mæður, eða sá aðili sem gekk með barnið, sem upplifa fæðingarþunglyndi. Einnig ræða við heilsugæsluna, ljósmóður þar eða ungbarnaverndina. Mæður með ungabörn heima eru í forgangi þegar kemur að sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslunni.
Tengdar færslur:
Draumurinn um barneignir
Lífið
Glasafrjóvgun og fyrsti þriðjungur
Meðganga eftir ófrjósemi
Halló heimur
Fæðingarsagan
Instagram -> ingajons