Fæðingarsagan mín

Ég var komin 40+4 þegar ég vakna um nóttina uppúr 04:00 við það að þurfa fara á klósettið. Ein af mínum hundruðustu ferðum. Ég leggst aftur uppí rúmið en þá fara hlutirnir að gerast. Ég byrja að fá samdrætti og þó óvenju oft og reglulega. Var vön að vera af og til með þá en þetta var allt öðrvísi og vissi að nú væri komið að þessu. Ég vek kallinn, fæ mér morgunmat og klára setja allt niður í tösku.

Ég hringi uppá deild um 06:00 og vildu þær að ég kæmi til þeirra. Við mætum og ég skoðuð og viti menn fimm í útvíkkun! Við fáum góða stofu með baði þar sem við vorum ekkert aftur á leiðinni heim. Þetta var allt svo óraunverulegt fyrir mér en það var komið að þessu!

Við slökum aðeins á og komum okkur vel fyrir inní herberginu og ljósan lét renna í bað á meðan. Ég fer síðan í baðið verð þar í tvo tíma með glaðloftið í annarri. Um hádegi var ég komin með sjö í útvíkkun. Ég notaði gasið og haföndina sem ég hefði lært svo vel í jóga hjá Maggý. Glaðloftið fór vel í mig og varð mér ekkert flökurt. Ég varð nú samt alveg hálf rugluð af því og sagði því ýmislegt skrautlegt.

Um 16:00 var útvíkkunin komin uppí níu. Ég var alveg búin á því á þessum tíma. Illa sofin og virkilega þreytt. Þremum tímum síðar missti ég tökin á önduninni vegna þreytu og “gafst upp” Ég var búin að vera föst í níu í fjóra tíma. Þetta var allt búið að ganga svo rosalega vel og fór ég inní fæðingu með því hugafari að fæða á „eðlilegan“ máta og fá enga deyfingu en ég hafði auðvitað allar dyr opnar.

Á þessum tíma bað ég um mænudeyfingu og var gefið grænt ljós á það. Svæfingarlæknir mætir skömmu síðar og ætlar að setja upp deyfinguna. Það gekk hálf erfiðlega að setja hana upp. Hann stakk mig tvisvar og meiddi mig alveg gífurlega mikið. Þurfti því að kalla á annan lækni til þess að setja hana upp. Það gekk eins og í sögu og fékk ég deyfinguna og leið miklu betur. Ég var pínu svekkt að hafa ekki þraukað án þess að fæ deyfingu en ég komst heldur betur nálægt því og var ánægð með mig.

Ég þurfti því næst að fá æðarlegg og fá vökva fyrst ég fékk deyfingu og það gekk hálf brussulega líka. Æðin sprakk hjá mér þannig það þurfti að stinga aftur. Þegar deyfingin byrjaði að virka náði ég að hvíla mig og borða aðeins þar sem ég hafði ekki borðað síðan um fimm um morguninn.

Um 19:00 var útvíkkunin loksins komin uppí tíu. Belgurinn hjá mér var sprengdur og korteri síðar byrja ég að rembast. Þetta voru nokkrir rembingar og mætir Klara Dís í heiminn kl 19:31 alveg fullkomin.

Þér gæti einnig líkað við