Ég hef alltaf haft rosa gaman af því að lesa fæðingarsögur annarra. Hvort sem það er meðan ég var ólétt eða í dag. Finnst svo gaman hvað allar fæðingar eru ólíkar og magnaðar á sinn hátt. Þrátt fyrir að það sé að verða um ár síðan Hlynur Atlas fæddist þá ætla ég samt að deila minni hérna með ykkur.
Þegar ég var komin 40 vikur óskaði ljósmóðirin í mæðraverndinni minni eftir því að ég yrði gangsett viku seinna ef ég myndi ekki fara af stað, sérstaklega þar sem ég var með meðgöngusykursýki og var komin með smá háþrýsting. Við vorum samt heppin að hún hafði engin áhrif á okkur og voru allar mælingar alltaf innan réttra marka. Ég átti þá pantaðan tíma í gangsetningu 18.05.2021.
Þann dag mæti ég klukkan 8 um morguninn upp á Landspítalann í rit og skoðun. Þá kom í ljós prótein í þvagi ásamt háþrýstingi, sem bendir allt í áttina að meðgöngueitrun. Því þurfti að leggja mig inn í gangsetningu. Vegna plássleysis var ég send heim að bíða og átti að mæta aftur 18 sama dag, sem ég gerði. Þá var ég enn aftur send heim og átti að bíða til morguns og sjá hvað yrði þá gert.
19.05.2021 mætum við, eða ég því það voru covid takmarkanir, upp á Landspítala í enn eina skoðunina. Enn háþrýstingur og prótein í þvagi og stefndi allt að gangsetningu, en enn var ekkert pláss. Ljósmæðurnar ákváðu að hafa samband við þær á Akranesi og athuga með pláss þar, og viti menn þau voru til í að taka mig inn í gangsetningu. Ég tók því þá um 9 leitið fyrstu gangsetningartöfluna, við fórum heim og sóttum meira dót (tölvur og fleiri föt) og brunuðum upp á Akranes.
Við tóku tveir dagar þar sem ég tók inn lyf til að vera sett af stað. Ekki mikið gerðist, ég fékk smá samdrætti, en að öðru leiti var ekkert að gerast. Við vorum rosalega heppin með veður og var sól allan tímann og vorum við því bara úti í göngutúrum og njóta að vera saman. Það var svo notarlegt á Akranesi og fengum við að vera saman í herbergi og fékk Þorfinnur rúm, sem hefði ekki verið sjálfsagt ef ég hefði átt á Landspítalanum.
Um morguninn 21.05.2022 vöknum við og borðum morgunmat svona milli 7-8. Ekkert hafði breyst, litlir samdrættir en varla eitthvað til að tala um. Þá kom ljósmóðirin og vildi bara fá mig inn á fæðingarstofu í skoðun. Klukkan 8:40 gerir hún belgrof komin með aðeins 2-3 cm í útvíkkun, því lyfin höfðu ekki verið að hjálpa og vildi barnið ekkert fara að koma af stað. Það varð til þess að innan við klukkutíma seinna var ég komin með harðar og reglulegar hríðir og komin í glaðloftið. Var víst í einhverjum mók í svona 2-3 tíma með glaðloftinu og vegna verkja. Um 12 var sett upp mænudeyfing, bæði vegna verkja og háþrýstings, og þá gat ég aftur opnað augun, talað við fólk, borðað og hvílt mig aðeins.
Þetta gekk svo bara rólega og ágætlega áfram. Við tók bara rit og skoðanir og varð útvíkkun aðeins meiri, en ekki næg. Á einum tímapunkti bað ljósmóðirin um leyfi að reyna að hjálpa útvíkunninni með því að toga, já toga, leghálsinn í sundur. Það hjálpaði aðeins, en í minningunni er það nánast versti verkurinn sem ég upplifði við fæðinguna. Um klukkan 19 var ég aðeins með um 8 í útvíkkun og hafði verið með í nokkra klukkutíma. Hún fór þá að ræða möguleikann á keisara, en það sem ég vissi ekki á þessum tímapunkti er að háþrýstingur hjá mér og hjartsláttur hjá barninu voru farin að valda henni miklum áhyggjum. Ljósmóðirin ákvað að fá fæðingarlækni eftir klukkutíma til að meta stöðuna og fékk ég dripp á meðan. Um 20:20 kom fæðingarlæknirinn, hann skoðaði mig og vildi láta reyna í klukkustund í viðbót. Eftir fæðinguna viðurkenndi ljósmóðirin að hún hefði verið svolítið hrædd með þessa ákvörðun hjá lækninum en um 10-20 mínútur eftir þessa skoðun byrjaði ég að fá rembingstilfinningu og við tók fæðingin sjálf. Eftir um 40 mínútur í rembing, eða klukkan 21:15 kom Hlynur Atlas í heiminn.
Við vorum um sólahring í viðbót á Akranesi. Það þurfti að fylgjast með blóðsykrinum hans Hlyns, útaf meðgöngusykursýkinni, en hann rauk bara í rétt horf fljótt svo um kvöldmatarleitið daginn eftir fórum við heim. Komum heim sem þriggja manna fjölskylda.
Ég er enn í dag rosalega glöð með hvernig allt fór. Eins skrítið og það er að segja, þá er ég rosa þakklát fyrir að það hafi allt verið fullt á Landspítalanum, því dvölin okkar á Akranesi var svo dásamleg. Svo dásamleg að þegar ég keyrði þangað yfir í gær í fyrsta skipti eftir fæðinguna, til að hitta vinkonu og strákinn hennar, að ég felldi nokkur tár. Ég er óendanlega þakklát fyrir starfsfólkið á sjúkrahúsinu á Akranesi.
Vona innilega að þið hafið haft gaman af því að lesa fæðingarsöguna mína.
Takk fyrir lesturinn!