Fæðingarsaga tvö

Ég var sett laugardaginn 4. júlí. Það var hreyft við belgnum á föstudeginum 3. júlí, þá komin 39+6. Kom í ljós þá að ég var með 1-2 í útvíkkun og legháls aðeins farinn að mýkjast og styttast. Seinna sama dag var ég með mjög mikla “túrverki”. Á laugardagskvöldinu fékk ég frekar vonda samdrætti sem duttu svo bara niður eftir smá tíma, þessir klassísku fyrirvaraverkir. Ég átti tíma á mánudeginum 6. júlí 11:30 og var hreyft aftur við belgnum. Ljósmóðirin mín náði ekki alveg að klára vegna mikilla verkja hjá mér við þetta. Þetta var miklu verra en á föstudeginum og viðkvæmara. Þá var ég komin sirka 2-3 í útvíkkun. Var með túrverki af og til allan daginn eftir þetta. Slímtappinn fór um kl.16 þann dag. Um kvöldið fékk ég meiri verki og nóttin einkenndist af sárum samdráttum. Um kl. 4 um nóttina gafst ég upp á að reyna sofa. Var með of mikla verki. Samdrættirnir urðu sterkari eftir því sem leið á morgun. Var líka með verki á milli samdrátta og átti erfitt með að labba. Ég segi við Óla að nú hlyti þetta að fara gerast. Samdrættirnir eru óreglulegir en ég hringi upp á deild og þær vilja kíkja á mig.

Við mætum uppá Landspítala um 12 á hádegi (þriðjudag 7. júlí) og það var tekið rit og kíkt á mig. Var þá með sirka 2 samdrætti á 10 mínútum. Legháls ekki búinn að styttast nóg, en er farinn að mýkjast. Er allt að malla en malla hægt. Var ekki búin að sofa neitt þannig að mér er boðið rúm inná deild og morfín sprauta í vöðva eða að fara heim með verkjalyf og svefntöflur til að reyna ná að sofa smá. Ég þigg morfín sprautuna og rúmið, var ekki að treysta mér aftur í bílinn og heim. Klukkan 13 fæ ég sprautuna og leggst uppí rúm en Óli fer heim og bíður eftir að ég hringi í hann og segi honum hvenær hann megi koma.

Um kl.16 eru samdrættirnir hrikalega vondir og erfitt að anda í gegnum þá. Morfínið er hætt að virka og ég bið um einhverja verkjastillingu sem ljósmóðirin segist ætla athuga með. Hún kemur aftur og setur mig í rit. Það voru aðeins 2-3 mínútur milli samdrátta en bara 3-4 í útvíkkun. Smá stund líður og segir hún að ég ætti bara að koma inná fæðingastofu og prófa glaðloft. Ég hringi þá í Óla og segi honum að ég sé að fara inná fæðingarstofu og að hann megi koma núna. Eftir smá stund þar fer vatnið með látum og samdrættirnir verða verri, miklu harðari og dýpri. Óli mætir á svæðið uppúr kl.18 og ég þá að deyja úr verkjum. Ég var í algjöru móki með glaðloftið, mér leið svo illa og var mikið að einbeita mér að önduninni. Ég man að ég heyri ljósuna segja við Óla að þetta gengi rosa vel hjá mér og það styttist í að ég fari að rembast.

Ég var ekki að trúa því sem hún sagði…. var ég alveg að fara rembast??

Miðað við síðustu fæðingu þá var ég búin að búa mig undir að vera þarna í allt kvöld og jafnvel alla nótt!
Allt gerðist frekar hratt eftir það. Hríðarnar voru skelfilega vondar eftir að vatnið fór og ætlaði ég að biðja um mænudeyfingu en það var eiginlega enginn tími fyrir það. Það getur tekið alveg 30 mínútur að fá einhvern frá svæfingu og svo tekur tíma að setja hana upp og maður þarf að vera alveg kyrr á meðan hún er sett. Ég ýtti því þeirri pælingu frá mér en var samt pínu stressuð að gera þetta án deyfingar.

Ég var í 1 og hálfan tíma að fara frá 3-4 í útvíkkun uppí rembingsþörf. Ljósurnar sögðu að þær kalla það “hríðar storm”. Eins og ég sagði var enginn tími fyrir mænudeyfingu en gasið hjálpaði slatta. Ég rembdist í rétt rúmar tuttugu mínútur (leið samt eins og tveir tímar) og stúlka mætti kl.20:07. 3965gr (tæp 16 merkur) og 53,5 cm🤍

Átökin voru samt ekki búin þar sem að fylgjan var föst inní mér, föst við gamla keisaraskurðinn.

Það tók tæpan klukkutíma að koma henni út, endalaust að þrýsta á magann, toga í hana og reyna rembast. Hélt það myndi líða yfir mig af sársauka þegar þær þrýstu niður og pumpuðu magann, hryllilega vont. Fannst þetta verra en fæðingin sjálf og hún var mjög sár. Á endanum voru komnir tveir læknar og tvær ljósmæður, allir að reyna ná fylgjunni út en tókst ekki. Planið var að svæfa mig og senda mig í aðgerð. Ég var farin að öskra á þær og biðja þær um að hætta. Undir lokin spurði læknirinn mig hvort ég gæti þraukað eitt “juð” í viðbót eða hvort ég vildi fara í aðgerðina. Var ekki að meika það þannig að ég sagði þeim að þær mættu reyna einu sinni enn. Þá voru tvær að þrýsta á magann, ein fór inn með hendina að reyna losa og ein að tosa hana út oog hún kom loksins!
Það sem ég var fegin. Ég var svo glöð að ná að fæða sjálf og sleppa við keisarann en þarna var ég næstum búin að fara samt í aðgerð eftir allt saman. En sem betur fer kom fylgjan út.

Ég missti um 1,3 lítra af blóði þannig að ég þurfti að liggja inni þangað til ég væri búin að ná mér og treysti mér til að fara heim. Lillan kom í heiminn á þriðjudagskvöldi og við fórum heim á miðvikudagskvöldinu.

Var ekki að búast við því að þetta gengi svona hratt miðað við að fyrri fæðing tók endalausan tíma sem endaði svo í keisara vegna hægs framgangs. Svona er líkaminn ótrúlegur.

Hér er fyrri fæðingarsagan.

Ég var pínu stressuð fyrir fæðinguna, aðallega útaf því að ég vildi ná að fæða sjálf. Ég skrifaði um meðgönguna hér. Ef ég hefði farið aftur í keisara hefði það að sjálfsögðu verið í lagi, maður þarf að taka því sem koma skal, en af því að ég tók ákvörðun um að reyna fæða sjálf hefði það verið pínu svekkjandi ef það hefði ekki tekist. Fæðingin gekk vonum framar og gaman að hafa upplifað báðar fæðingar.

Takk fyrir að lesa,

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við