Fæðingarorlof í miðri Covid bylgju

Fæðingarorlofið sem beðið var eftir

Fyrir fjórum árum síðan voru barneignir einungis fjarlægur draumur hjá mér og Hödda. Við vorum byrjuð að reyna að eignast barn en sáum það fljótt að það yrði erfiðara en við vonuðumst eftir. Það reyndist vera satt en Hugrún kom í heiminn núna fjórum árum eftir að við byrjuðum að reyna að eignast barn.  Á þessum tíma var ég með ákveðna sýn í huganum á hvernig meðgangan, fæðingin og fæðingarorlofið myndi vera. Ég var virkilega spennt fyrir þessu tímabili þegar okkar tími kæmi. Ég sá fæðingarorlofið fyrir mér umkringd ættingjum og vinum. Einnig var ég búin að sjá fyrir mér að ég færi í mömmutíma í ræktinni, allskonar mömmuhittinga og færi með barnið mitt í ungbarnasund og var virkilega spennt fyrir því.

Hugrún Lea fæðist 22. júlí 2020 og á þeim tíma er fyrri bylgjan nánast búin. Maður var farinn að búast við að þessu væri líklega bara að fara að ljúka. Það að eignast barn á þessum tíma var hins vegar smá skrítið þar sem Hörður mátti ekki koma með mér inn á fæðingardeild fyrr en virk fæðing væri hafin. Við vorum þó mjög heppin þrátt fyrir að við fórum nokkrum sinnum upp á deild og vorum send ófáum sinnum aftur heim. Hann endaði á að fá að vera með uppá deild frá því að við mættum þangað 21. júlí og þangað til við fórum heim með Hugrúnu 23. júlí þar sem við fengum sér herbergi á sængurdeildinni. Heppin segi ég af því við höfðum fengið þær upplýsingar frá starfsfólki spítalans að það gæti mögulega verið að það myndi önnur kona deila með mér herbergi.Ef svo væri þá fengi Hörður ekki að vera hjá mér fyrstu nóttina eftir að Hugrún fæddist. Þið getið lesið nánar um fæðingarsöguna mína hér.

Mikil einangrun

Frá því að Hugrún fæddist höfum við bæði haldið okkur mikið heima til að draga úr líkum á smiti. Fyrstu vikurnar voru aðeins þægilegri þar sem smitum hafði fækkað og allir voru orðnir rólegri yfir þessu öllu saman. Ég fór að mæta með Hugrúnu í mömmu Worldfit í World Class og fannst það virkilega gaman! Það var svo gott að komast aðeins út úr húsi, brjóta upp daginn og hitta aðrar mömmur með litlu krílin sín. Þegar ég hafði verið í nokkrar vikur í tímunum skall seinni bylgjan á og fór ég þá aftur að æfa heima. Ég er heppin að hafa mjög góða aðstöðu hérna heima og geta æft eins og ég vil hérna heima meðan Hugrún sefur en ég viðurkenni að ég sakna þess mjög mikið að breyta aðeins um umhverfi og æfa með fleirum.

Ég hafði séð þetta fyrir mér svo allt öðruvísi. Mig langaði að vera dugleg að fara á mömmuhittinga og geta kíkt með vinkonum á kaffihús og leyft þeim að kynnast Hugrúnu. Einnig vorum við bæði spennt fyrir því að fara með Hugrúnu í ungbarnasund og skráðum við hana á biðlista fljótlega eftir að hún fæddist. Nú er Hugrún að verða fjögurra mánaða og virðist þessi draumur ekki ætla að rætast hjá okkur.

Hugrún orðin heimakær

Þar sem við erum mjög mikið heima og ekki mikið um heimsóknir vegna Covid þá var Hugrún orðin mjög vön því að vera heima hjá sér með okkur foreldrunum. Ég sé að Covid er að hafa gríðarleg áhrif á hana. Hún var orðin þannig að við gátum ekki farið með hana í heimsóknir til ömmu og afa því hún varð svo óörugg þegar hún fór úr sínu umhverfi og grét bara. Á sama tíma var hún orðin svo mikil mannafæla því hún var ekki vön því að umgangast mikið af fólki. Hún vildi á tímabili einungis vera í fanginu hjá okkur foreldrunum og grét ef aðrir reyndu að taka hana en þetta er allt að koma núna og við erum loksins farin að geta farið með hana í heimsóknir til ömmu og afa og leyft þeim að halda á henni!

Ég vildi óska þess að aðstæður væru aðrar og við gætum kíkt til vina og ættingja í heimsókn eins og maður hafði séð fyrir sér á þessum tímum. Ég var einnig búin að sjá fyrir mér að geta kíkt með öðrum mömmum með krílin á kaffihús og gert hluti saman en það þarf að bíða betri tíma.

Fæðingarorlofið

Nú er Hugrún Lea orðin þriggja mánaða og við foreldrarnir erum bæði mjög mikið heima. Hörður byrjaði að vinna heima fyrir um sjö vikum. Ég viðurkenni að það er alveg yndislegt að hafa hann hér heima að vinna því þá er ég ekki eins mikið ein. Á tímabili þegar hann var uppi í vinnu var ég rosalega mikið ein og mikið heima. Ég var þó heppin að mamma var mikið í fríi og systir mín er einnig í fæðingarorlofi þannig ég gat hitt þær reglulega.

Skírn

Við héldum nafnaveislu 15. ágúst en ákváðum að bíða aðeins með skírnina því á þessum tíma var smitum aðeins að fjölga. Við buðum aðeins nánustu fjölskyldu því við vildum tilkynna nafnið sem fyrst. Hugsunin var að halda seinna sameiginlega skírn með systur minni. Eins og þið vitið hafa aðstæður ekki boðið upp á það að halda skírn. Það hafa verið miklar fjöldatakmarkanir í veislur og annað. Ég vona að þessu fari nú að ljúka svo við getum haldið skírn sem fyrst fyrir litlu stelpurnar okkar.

Háskólanám

Ég hóf meistaranám í Reikningsskil og endurskoðun haustið 2019 og lauk fyrsta árinu meðan ég var ófrísk af Hugrúnu. Ég tók þá ákvörðun í vor að ég ætlaði að skrá mig í fullt nám núna í haust. Planið var að sjá svo til hvernig gengi. Á þessum tíma vissi maður ekkert hvernig kennslu yrði háttað en ég ákvað að prófa að skrá mig. Alveg frá því í vor hefur kennslan verið rafræn. Ég viðurkenni að það er búið að koma sér virkilega vel. Ég hef getað hugsað um Hugrúnu á meðan ég er í skólanum, gefið henni brjóst og eytt meiri tíma með henni en ég hefði annars getað. Það er því eitthvað jákvætt sem þetta ástand hefur haft í för með sér þar sem skólinn hefur gengið mjög vel hjá mér í fæðingarorlofinu.

Fæðingarorlof og meðganga í Covid

Á sama tíma eru þetta búnir að vera bestu þrír mánuðir sem ég hef upplifað. Það að vakna á hverjum morgni með litla kraftaverkið við hliðina á mér og geta eytt deginum með henni er bara yndislegt! Ég vona að aðstæður fari fljótlega að breytast svo Hugrún fái að upplifa lífið eins og það á að vera. Ég viðurkenni að ég er mjög spennt fyrir jólum og áramótum þar sem ég er mjög mikið jólabarn! Ég hef lengi beðið spennt eftir því að fá að upplifa hátíðirnar með barninu mínu og ég vona að aðstæður verði betri þá.

Ég finn til með öllum þeim konum sem eru nú óléttar sem fá ekki að hafa makann sinn viðstaddan ómskoðanir, læknisheimsóknir og uppi á fæðingardeild. Þetta eru allt augnablik sem mörgum langar að deila með maka sínum. Auðvitað ætti makinn að eiga rétt á því að fá að upplifa það að vera viðstaddur öll þessi augnablik með móður. Þetta er virkilega erfiður tími til að vera óléttur og eignast barn. Það er þó skiljanlegt að það þurfi að bregðast svona við á spítölunum vegna ástandsins. En það góða í þessu öllu saman er að maður er verðlaunaður með dýrmætustu gjöfinni um leið og barnið kemur í heiminn.

Ef þið viljið fylgjast með okkur fjölskyldunni þá er ég mjög dugleg að deila inn á Instagram síðuna mína <3

Þér gæti einnig líkað við