Það fer ekki framhjá neinum sem fylgir mér á instagram að ég er harður Eurovison aðdáandi (nörd ef þið viljið). Um leið og Ísland er búið að velja sitt framlag til keppninnar þá fer ég að skoða hvað önnur lönd eru að senda inn líka. Núna er um mánuður í keppnina og ég er búin að kynna mér öll lögin mjög vel og löngu búin að mynda mér skoðun um hvaða lög ég vil sjá ná langt í keppninni. Mig langaði til að deila með ykkur uppáhaldslögunum mínum í keppninni í ár og setti því saman smá topp 10 lista. Ef þú ýtir á nafnið á laginu þá opnast nýr gluggi þar sem þú getur hlustað á lagið á Youtube.
- Holland – Arcade. Ég vona (og held) að þetta lagi muni vinna Eurovision í ár. Þetta er frekar rólegt lag, sem er yfirleitt alls ekki minn tebolli, en samt er bara eitthvað við þetta lag og söngvarinn er frábær. Allar live útgáfurnar hans hljóma næstum alveg eins og stúdíó útgáfan. Ég fékk gæsahúð þegar ég hlustaði á það í fyrsta skiptið og vissi strax að nú væri Ísland komið með keppinaut.
2. Ísland – Hatrið mun sigra. Já, ég held að Hatari eigi virkilega góða möguleika í keppninni í ár og spái þeim hvorki meira né minna en öðru sæti. Eða það er kannski meira mín von, heldur en spá. En engu að síður þá er ég búin að hlusta á þetta lag óteljandi sinnum og er mjög stolt af þessu framlagi okkar.
3. Ítalía – Soldi. Mér finnst ótrúlega flott lagið frá Ítalíu í ár. Ég hef yfirleitt ekki verið mikill aðdáandi ítölsku laganna, en þetta lag er mun nútímalegra en það sem þeir hafa verið að senda frá sér í gegnum árin. Flottur taktur og flottur söngvari.
4. Sviss – She got me. Sviss er klárlega með sumarsmellinn í ár og er þetta mjög hresst danslag með latino-ívafi. Þó eru kaflar í laginu sem mér finnst alveg crinch-worthy og þess vegna set ég það ekki hærra en í 4.sætið hjá mér.
5. Kýpur – Replay. Ég held að þetta sé bara of líkt laginu þeirra Fuego sem þau sendu í fyrra og lenti í 2.sæti til þess að fara svo hátt aftur. Mjög gott lag og allt það, en ég set það ekki ofar á mínum lista af því að mér finnst soldið asnalegt að senda næstum eins lag og í fyrra.
6. Frakkland – Roi. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég man eftir að hafa fílað lag frá Frakklandi í keppninni. Það er ungur strákur sem syngur lagið og í stúdíó útgáfunni er söngurinn mjög góður, en þegar maður hlustar á live útgáfuna þá heyrir maður að honum vantar aðeins uppá kraftinn í röddinni. En lagið og boðskapurinn er samt það flott svo ég varð að setja það á listann minn. Ég vona bara að hann æfi sig vel fyrir stóra sviðið í maí.
7. Malta – Chameleon. Þetta lag verður betra með hverri hlustuninni. Finnst viðlagið þó kannski sísti parturinn í laginu, sem er frekar skrítið. Bridge-ið er eiginlega besti parturinn, en í heildina þá er ég að fíla þetta lag alveg ágætlega.
8. Noregur – Spirit in the sky. Þetta lag er algjört heilalím! Mjög catchy og skemmtilegt. Vikirlega góð söngkona og allt í lagi söngvari, en svo kemur inn einhver þriðji aðili, sem er að syngja einhverskonar forn-norsku eða eitthvað og hann er með mjög sérstaka rödd. Sá hluti í laginu finnst mér draga það niður. Myndi hafa það ofar ef þetta væri dúett!
9. Azerbaijan – Truth. Þetta lag er mjög ólíkt Azerbaijan framlögunum hingað til. Frekar normalt popplag og eiginlega bara ekkert Júróvisjon-legt þannig séð. Ég byrja alltaf að syngja með í viðlaginu svo ég varð að hafa það með á listanum.
10. Grikkland – Better love. Þetta er kannski ekki lag sem ég myndi hlusta mikið á svona venjulega, en þetta er samt rosalega flott lag. Mjög sterk og sérstök rödd sem fangar mann alveg um leið. Verður gaman að sjá hvernig þessi rödd hljómar live.
Þetta er bara upptalning á mínum uppáhaldslögum í keppninni. Ég er með nokkur lög ofarlega á mínum lista sem er ekki endilega spáð góðu gengi í veðbönkunum og öfugt. Til dæmis eru Rússland og Svíþjóð bæði í topp 5 í veðbönkunum, en ég fíla hvorugt þeirra laga neitt sérstaklega svo ég hef þau ekki á þessum lista. Svo getur allt breyst þegar maður sér öll atriðin live, þar sem sviðsmyndin og framkoman getur skipt svo gríðarlega miklu máli. Ég er allavega mjög spennt fyrir keppninni í ár, sérstaklega í ljósi þess hvað Ísland er með gott framlag og við fáum líklegast að vera með á útslitakvöldinu sjálfu, sem er að sjálfsögðu skemmtilegra.
Takk fyrir að lesa