„Ertu orðin ólétt aftur?“

Ég fékk smá áfall og varð eiginlega kjaftstopp núna í síðustu viku þegar kona sem ég þekki smá horfði á mig og spurði hvort ég væri orðin ólétt aftur. Má bara spyrja svona??? Halló, ég eignaðist barn fyrir tíu mánuðum, kannski er ég bara ennþá að reyna ná af mér smá auka kílóum. Ég var reyndar á túr og maginn á mér er alltaf aðeins bólginn þegar það er, en það skiptir engu máli. Maður spyr ekki svona.

Ég var tekin með keisara í ágúst í fyrra og maginn á mér var bólginn innan frá í um 5 mánuði. Ég var lengi að jafna mig og gat ekki farið í ræktina fyrstu mánuðina. Ef ég tók aðeins á því í ræktinni fékk ég svakalegan sársauka í skurðinn. Ég gat ekki farið all in í ræktina fyrr en í febrúar á þessu ári, án þess að finna fyrir neinu. Ég er búin að vera mjög dugleg í mataræðinu og ræktinni síðustu þrjá mánuði og er aftur komin í þyngdina sem ég var áður en ég var ólétt sem er 58 kíló. Ég veit alveg að ég er samt ekki í sama formi og áður en ég á ekki það langt í land. Maginn er bara síðastur að fara. En samkvæmt þessari konu er ég greinilega með óléttu bumbu.

Það er ekkert smá særandi að fá svona spurningu.

Þetta er oft viðkvæmur punktur hjá konum, líkaminn. Hann breytist mikið á meðgöngunni og mjög margar konur þyngjast, sem er bara alveg eðlilegt. Fyrir mér var þetta mjög erfitt. Ég hef alltaf verið í ágætu formi og mikið í ræktinni, mér finnst ótrúlega gaman að hreyfa mig og sjá árangur. Líkaminn minn breyttist eftir meðgönguna. Mjaðmirnar mínar eru breiðari og brjóstin eru ekki eins stinn og þau voru (og já ég er núna í stærð 39 í skóm en ekki 38!).


Ég fyrir tveim vikum og „óléttu“ maginn minn.

Ég þekki eina konu sem á mjög erfitt með að eignast börn og er hún búin að missa fóstur nokkrum sinnum. Hún hefur lent í því að vera spurð nokkrum sinnum hvort hún væri ólétt, þegar hún var það ekki. Í eitt skiptið var það nýlega eftir að hún var búin að missa fóstur í þriðja sinn. Það var ekki farið að sjást nein óléttukúla á henni. Hún sagði við mig „mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann, það var svo sárt að fá þessa spurningu“.

EKKI spyrja konu hvort hún sé ólétt ef þú veist það ekki og ef hún er ekki með augljósa kúlu framaná sér. Þú veist ekkert hvað þessi kona er að ganga í gegnum eða hvernig henni líður.

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við