En að flytja bara útá land ?

Sælir kæru lesendur ! Mig langaði að deila með ykkur okkar ákvörðun og upplifun á því að flytja útá land. Vorið 2020 vorum við Gunni komin á þann stað að vera tilbúin bæði fjárhagslega og fjölskyldulega séð að kaupa okkar fyrstu fasteign. Þegar við tókum þessa ákvörðun vorum við auðvitað orðin 4 manna vísitölufjölskylda, bara 25 & 27 ára gömul á leið útá fasteignamarkaðinn í fyrsta sinn. Við byrjuðum að skoða eignir sem myndu henta okkar fjölskyldu og vera nógu stór fyrir okkur næstu 5 árin allavegana, á þessum tíma vorum við að leigja 90 fermetra íbúð á 3 hæð í blokk með pínulitlar svalir. Við vildum með þessum fasteignakaupum bæta lífsgæðin okkar og vorum alls ekki til í að flytja aftur á 3-4 hæð í blokk með engri lyftu ! Ég held að ég hafi ekki gert neitt annað en að skoða fasteignavefina allan sólarhringinn þegar við byrjuðum að leita. En við vorum bara ekki að finna neitt nógu stórt fyrir okkur sem uppfyllti líka okkar kröfur. Þar sem við vorum að leigja var baðherbergið til dæmis það lítið að við vorum með þvottavélina og þurrkarann inní eldhúsi svo okkur fannst þvottahús algjört must og vildum helst vera á jarðhæð. Verandi orðin 4 manna fjölskylda vildum við líka að krakkarnir væru með sérherbergi og þurftum því 4 herbergja íbúð. Í gamni mínu fór ég að skoða fasteignir í ca 30 mínútna radíus í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég var bara í algjöru sjokki að sjá verðmuninn á fasteignunum þar og í bænum. Við skoðuðum mikið Njarðvík, Grindavík, Akranes, Hveragerði og Þorlákshöfn. Ég fann svo mörg parhús og einbýlishús á sama verði og 90 fermetra íbúð á 5 hæð á höfuðborgarsvæðinu. Þá var ég eiginlega orðin mjög skotin í þeirri tilhugsun að fara aðeins út fyrir bæjarmörkin. Ég er rosalega skipulögð og geri lista yfir allt sem ég geri, ég ákvað að fara yfir kosti og galla og hvað myndi breytast ef við myndum flytja úr bænum. Kostirnir voru alltaf miklu fleiri en gallarnir og þá fór ég að skoða hvaða bæjarfélag myndi henta okkur, en það eru ekki allir sem vita það að í minni bæjum stutt frá Reykjavík er alveg ótrúlega mikið gert fyrir fólk sem býr þar og þá sérstaklega barnafólk. Ég byrjaði strax að skoða hvaða bæjarfélag bauð uppá mest fyrir barnafólk og hvar það væri sem hentugast fyrir Gunna að keyra á milli yfir vetrartímann.

                                     

Hér kemur svo smá listi yfir það sem ég tók saman

Þorlákshöfn :
~ Bær í mikilli uppbyggingu
~ Mikið úrval af tómstundum og íþróttum
~ Frábær leikskóli og grunnskóli
~ Einstaklingsmiðað nám og skólinn leggur áherslu á listgreinar
~ Öll þjónusta sem maður þarf á að halda til staðar
~ Þægilegt að keyra bara þrengslin
~ Besta sundlaugin á öllu landinu
~ Börnin eru sótt í leikskóla/skóla og fylgt í íþróttastarf (mikill plús að þurfa ekki að skutla og sækja!)
~ Lítill en samheldur bær
~ Gott verð á fasteignum (mikið af nýbyggingum)
~ Skólasund og íþróttir í leikskólanum
~ Geggjuð fjara
~ Náttúran allstaðar í kring & göngustígar í gegnum og meðfram öllum bænum

Eins og sést vorum við mest spennt fyrir Þorlákshöfn, og ákváðum við að fara skoða nokkur hús þar. Eftir það var svo ekki aftur snúið. Við urðum alveg ástfangin af húsinu sem við buðum í og enduðum á að kaupa. Við keyptum semsagt raðhús ca 5 mín frá leikskólanum, grunnskólanum og íþróttahúsinu. Húsið var á byggingarstigi 5 þegar við fórum að skoða en við keyptum það á byggingarstigi 7 en gátum valið allt inní það. Allt gólfefni, innréttingar ofl. Við fluttum svo inn 15. ágúst 2020 og krakkarnir byrjuðu strax í leikskólanum hér. Ég get eiginlega ekki lýst því hvað krakkarnir blómstruðu mikið strax, við fundum það bara um leið hvað við værum loksins „komin heim“, umhverfið hérna og bara allt er svo dásamlegt og ég gæti ekki hugsað mér að búa annarsstaðar. Gunni ólst upp að hluta til á Laugavatni og á Selfossi sem honum fannst svo æðislegt sem barn og var það eithvað sem við vildum leyfa okkar börnum að upplifa líka, þá sérstaklega frelsið sem fylgir því að búa útá landi. Mér finnst að allir ættu að prófa það að flytja útá land, ég hef heyrt um svo marga sem ætluðu bara að prófa að búa útá landi í 1 ár og fóru svo aldrei aftur í bæinn svo það er algjörlega þess virði að prófa !

 

Takk fyrir að lesa, þangað til næst xx

Þér gæti einnig líkað við