Tilheyrir þú þessum tíu prósentum?

Þeir sem hafa lesið fyrsta bloggið mitt ,,Á ekki að fara að koma með eitt lítið kríli?“ vita að ég er með sjúkdóm sem kallast endómetríósa og hef ég þurft að ganga í gegnum ýmislegt til að reyna að verða ófrísk (sjá færsluna mína Kraftaverkin gerast! ).
Það eru margir sem vita ekki almennilega hvað endómetríósa felur í sér og hvaða einkenni fylgja þessum sjúkdómi enda er þetta mjög falinn sjúkdómur.

Mars er alþjóðlegur mánuður endómetríósu og því langaði mig að fræða ykkur betur um þennan sjúkdóm og opna umræðuna enn meira um hann.

Hvað er endómetríósa?

Hjá Samtökunum um endómetríósu er hægt að finna mjög góða lýsingu á sjúkdómnum en hér fyrir neðan er smá útráttur á textanum sem hægt er að finna á síðunni þeirra

Endómetríósa er krónískur og fjölkerfa sjúkdómur. Sjúkdómurinn getur verið mjög sársaukafullur en það er mjög misjafnt milli kvenna hversu miklir verkirnir eru.

Endómetríósufrumur setjast á hin ýmsu líffæri í líkamanum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum. Konur sem eru með sjúkdóminn geta því verið með innvortis blæðingar í hverjum mánuði á stöðunum sem frumurnar eru á. Þar sem þetta blóð kemst ekki í burtu, eins og venjulega blæðingar eiga að gera, myndast blöðrur á þessum stöðum. Einnig geta myndast samgróningar milli líffæra innan kviðarholsins eða annarsstaðar í líkamanum sem getur valdið mjög miklum sársauka.

Endómetríósa er algengust í kviðarholi en hún hefur fundist í öllum helstu líffærum líkamans og í öllum 11 líffærakerfum líkamans. Algengast er að frumurnar finnist á æxlunarfærunum eins og legi, eggjaleiðurum, legböndum, lífhimnu. Endómetríósa finnst einnig stundum á þvagblöðru eða meltingarfærum og getur haft áhrif á starfsemi þeirra.

Hverjir fá helst endómetríósu?

Sjúkdómurinn getur gert vart við sig frá fyrstu blæðingum. Talið er að allt að 10% kvenna séu með endómetríósu en það eru margar sem fá aldrei greiningu á sjúkdómnum. Ekki er vitað hvað orsakar sjúkdóminn en kona er fimm til sjö sinnum líklegri til að fá sjúkdóminn ef náinn ættingi er með hann.

Helstu einkenni endómetríósu

Einkenni endómetríósu geta verið mismunandi milli kvenna og þær fundið mismikið fyrir sjúkdómnum, sumar konur finna jafnvel engin einkenni. Það er þó algengast að konur finni mikinn sársauka við blæðingar.

Það geta mörg einkenni fylgt sjúkdómnum en algengustu einkennin eru eftirfarandi.

 • Margar konur finna sársauka í kviðarholi og krampa
 • Blæðingar eru oft mjög langar, miklar og óreglulegar og þeim fylgir oft mikill sársauki
 • Egglos getur verið sársaukafullt og konur finna oft verk í mjóbaki við egglos/blæðingar. Milliblæðingar eru mjög algengar
 • Verkir við samfarir
 • Verkir við hægðir og þvaglát. Oft finna konur mikið fyrir þarmahreyfingum
 • Upplásinn magi (e. endo belly)
 • Niðurgangur
 • Ógleði og/eða uppköst
 • Erfiðleikar við að verða barnshafandi/ófrjósemi
 • Síþreyta, hausverkur/mígreni
 • Verkir í fótum

Þessi einkenni geta oft verið verri rétt fyrir blæðingar og meðan á þeim stendur en sumar konur geta fundið stanslaust fyrir þessum einkennum.

Greining á endómetríósu

Til þess að fá greiningu á sjúkdómnum þarf að framkvæma kviðarholsspeglun. Þá eru gerð göt á kviðinn, oftast í gegnum naflann og svo tvö til þrjú fyrir neðan nafla.
Ef læknar finna samgróninga í aðgerðinni eru þeir oftast skornir eða brenndir í burtu. Ef kona hefur verið í vandræðum með að verða ófrísk vegna endómetríósu þá getur þessi aðgerð leitt til þess að hún geti orðið ófrísk.
Þessi aðgerð getur einnig hjálpað til við að draga úr verkjum sem tengjast sjúkdómnum. Þar sem sjúkdómurinn er ólæknandi getur þó þurft að framkvæma aðgerðina aftur seinna, það er þó misjafnt milli kvenna hvort þurfi að framkvæma hana aftur.

Ef þú kannast við eitthvað að einkennunum hér að ofan, ekki hika við að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni og ræða við hann!
Því miður getur tekið langan tíma að fá greiningu á sjúkdómnum og því er best að bíða ekki með að leita til læknis.

Vonandi hjálpar þessi grein einhverjum sem eru í sömu sporum og ég <3
Ykkur er velkomið að fylgja mér á Instagram en ég hef verið mjög opin með að deila ferlinu mínu þar.
Ég er búin að setja ferlið mitt í highlights á Instagram þar sem þið getið skoðað mína sögu <3

Þér gæti einnig líkað við