Ég rakst á grein inná Bleikt.is þar sem að ung mamma talar um tengdamömmu sína, og hvað hún saknar hennar mikið, þrátt fyrir að hafa aldrei hitt hana.
Jii hvað mér þótti gott að lesa þessa færslu því ég tengi svo svakalega mikið við þessa tilfinningu.
Hvernig getur þér þótt vænt um einhverja manneskju sem þú hefur aldrei hitt ? hvað þá fundið fyrir söknuði ?
Þetta er mjög sérkennileg tilfinning, ég hef grátið því ég sakna hennar svo og vildi óska þess að geta fengið að hitta hana, knúsa og þakkað henni fyrir drenginn hennar.
Þessi færsla er varla byrjuð og ég er strax farin að væla, ansans hormónar!
Móðir Daníel lést fyrir 10 árum síðan aðeins 51 árs, Daníel þá 21 árs gamall. Hún barðist gegn krabbameini í 5 ár, en tapaði því miður þeirri baráttu á endanum.
Elsku Anna Björk,
Það sem ég hef heyrt um þig er að við erum mjög líkar í fari, svo augljóslega varstu mjög skemmtileg.
Þú varst farfugl mikill, eins og ég.
Þú varst með stórt hjarta, ég sé það bara á börnunum þínum og hvernig þau eru.
Þú varst mjög góð móðir, ég sé það hvernig Daníel er með son okkar.
Bleikur október hefur aldrei þýtt eins mikið fyrir mér eins og núna.
Og þótti mér #fyrirmömmu virkilega mikið við hæfi í þetta sinn, því jú mömmur okkar hafa gert og munu alltaf gera allt fyrir okkur.
Og get ég alls ekki sett mig í spor þeirra sem hafa misst sína.
Elsku Anna Björk,
Þín er sárt saknað hér hinum megin.
Ég skal gera mitt besta að hugsa vel um drenginn þinn, og vertu viss um að hann er og verður elskaður og dáður.
Ég skal sjá til þess að sonur okkar og komandi barn muni fá að heyra sögur af þér.
Kveðja,
Þín tengdadóttir.