Ekki flækja hlutina

Mér finnst alltof margir flækja hlutina of mikið þegar kemur að því að vilja taka sig á í mataræðinu eða æfingum. Mitt ráð til allra sem eru í þessum hugleiðingum er einfaldlega þetta: „Ekki vera að flækja þetta svona mikið“. Þú þarft ekki að hætta að borða sykur, mjólkurvörur né hveiti. Þú þarft ekki að mæta í ræktina 6 daga vikunnar og lyfta lóðum eða hlaupa. Þú þarft ekki að gera neitt sem þú vilt ekki gera. Ég heyri svo marga þjálfara predika yfir fólki að þetta EIGI að vera erfitt, að þú bara VERÐIR samt að gera þetta, sixpakkinn eða kúlurassinn kemur jú ekki að sjálfu sér!

EN (stórt EN), er það allt sem lífið snýst um? Að nýta allan sinn frítíma í æfingar sem þér finnst kannski ekki einu sinni skemmtilegar? Að neita sér um góðan mat í matarboðum og veislum í góðra vina hópi? Við megum ekki gleyma að lifa lífinu af því að við erum of upptekin af útlitinu eða að ná einhverri ákveðinni tölu á vigtinni. Hamingjan er ekki þar. Hamingjuna finnur þú þegar þú ert að gera hluti sem þú hefur gaman af, oft með fjölskyldu og vinum!

Ef þér líður illa því þú ert of þung/ur eða borðar of óhollt og vilt taka þig á, þá er svarið bara ofur einfalt. Þú þarft að borða minna. Þú þarft ekki endilega að sleppa þessu, eða taka þetta fæðubótaefni eða fara á eitthvað sérfæði. Þú þarft bara að borða minna! Það er ekki hægt að fitna nema þú sért að borða of mikið, vísindin sanna það (nema þú sért haldin einhverjum sjúkdómum að sjálfsögðu). Það kannast flestir við það að fara í „megrun“ í kannski 3 mánuði og léttast heilan helling. En svo um leið og megruninni lýkur eða þegar maður gefst upp þá koma öll kílóin aftur og oft fleiri til. Svo situr maður eftir með sárt ennið og jafnvel óheilbrigt samband við mat.

Það sem ég vil segja við ÞIG er að finna þitt jafnvægi. Borðaðu mat sem ÞÉR finnst góður. Gerðu það bara í hófi. Stundaðu þá hreyfingu sem ÞÉR finnst skemmtilegust. Ef þér finnst engin hreyfing skemmtileg, hjólaðu þá eða gakktu til og frá vinnu til að koma hreyfingu inn í daginn þinn. Það ÞURFA ekki allir að mæta í lyftingasalinn. Þú kannski léttist ekki ógeðslega hratt með þessari aðferð, en hins vegar þá gætiru kvatt auka kílóin fyrir fullt og allt, í staðinn fyrir að kveðja þau rétt svo á meðan þú prófar enn einn megrunarkúrinn.

En hvað sem þú gerir, í guðanna bænum, ekki eyða lífinu þínu í að eltast við ákveðið útlit eða ákveðna tölu á vigtinni. Það mun ALDREI færa þér hamingju.

Þér gæti einnig líkað við