„Ég var viðstödd fæðingu litlu frænku minnar“

Ég er svo heppin ég fékk að vera viðstödd þegar Ágústa systir mín átti stelpuna sína þann 10. maí. Við systur erum ótrúlega nánar og var hún líka viðstödd þegar ég átti Ágústu Erlu í ágúst 2015. Ágústa var sett 28. apríl þannig að alltaf þegar síminn hringdi eftir settan dag þá hugsaði maður „aaaah ætli sé komið að þessu!“. En litla dúllan lét aðeins bíða eftir sér. Systir mín var sett af stað morguninn 9. maí og var lögð inn um miðnætti, aðfaranótt 10. maí. Ég kom upp á spítala til hennar og kærasta rétt eftir hádegi en þá var hún komin með 9 í útvíkkun. Hún var svo falleg, með roða í kinnum og svo yfirveguð. Ég knúsaði hana heillengi, var svo stolt af henni og svo spennt og ánægð fyrir hennar hönd og jú auðvitað Tomma kærasta hennar líka. En hún var búin að vera mjög verkjuð um nóttina og endaði á því að hún fékk mænudeyfingu og gat loksins slakað aðeins á og sofnað aðeins.

Það var smá tími í að hún gat farið að rembast en höfuðið á stelpunni var of ofarlega. Þegar kom að því að rembast var höfuðið mjög lengi að koma niður. Tommi stóð við hliðiná henni allan tímann og hélt í hendina á henni og stóð ég við hliðiná honum við fæturnar á henni.

Mig langaði nú bara að hoppa uppí rúmið til hennar og hjálpa henni að remba barninu út en því miður gat ég ekki gert betur en að halda í hana og hvetja hana áfram.

Hún var í rúman klukkutíma að rembast bara til að ná höfðinu almennilega niður. Þegar farið var að sjást í kollinn var ég farin að fá kökk í hálsinn, ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunni, þetta var bara allt svo fallegt og þó að ég hafi átt barn áður þá var þetta bara ekki eins. Ég endaði í keisara og fékk ekki að upplifa þetta augnablik eins og hún. Maður fann á andrúmsloftinu að það væri eitthvað stórkostlegt að gerast. Já ég er að nota öll mín bestu lýsingarorð hérna, en ef þau eiga einhverntímann við þá er það á svona degi.
Litla daman kom svo í heiminn klukkan 16:22. Eitt það magnaðasta og fallegasta sem ég hef upplifað, að fá að sjá þetta yndi koma í heiminn. Ég fór að hágráta.

Það sem er lagt á konur, við erum magnaðar!

Ég tók myndavélina mína með og tók myndir á hana og á símann hennar Ágústu. Það er svo gaman að eiga mikið af góðum myndum frá þessum yndislega degi.

Litla mús á heimleið.

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við