Ég sagði já!!

Ég, Óli og Ágústa Erla vorum að koma heim frá Florida en við vorum í fríi með fjölskyldunni minni. Við vorum í tvær vikur í Siesta Key og áttum dásamlegt frí saman.
Ég og Óli fórum ein til Savannah seinni laugardaginn. Við leigðum okkur bíl og keyrðum þangað. Það er alveg 6 klukkustunda akstur frá húsinu sem við erum í en Óla langaði mikið að sýna mér Savannah. Hann bjó þar í 2 ár þegar hann var í háskóla og hefur hann sagt mér svo margar sögur frá dvöl sinni þar. Ég var alveg til í smá ævintýri þannig að við hentum okkur af stað. Óli bókaði rosalega flott hótel handa okkur á besta stað. Eftir aksturinn fórum við úr kósýfötunum og fórum í fínni föt fyrir kvöldið.

Svo ótrúlega fallegt í Savannah

Óli labbaði með mig í rosa fallegan garð. Þar var mikið líf og hluti af garðinum var lokaður útaf brúðkaupi. Við settumst á bekk og fylgdumst aðeins með brúðkaupinu. Nokkrar brúðarmeyjur allar í eins kjólum, voða amerískt og skemmtilegt. Þegar brúðurin labbaði “ganginn” þá var spilað Sigurrós, Hoppa í polla. Ekkert smá gaman að heyra það og óvænt! En Óli sagði mér að þegar hann var þarna í skóla fyrir 11 árum var Sigurrós nr.1 á útvarpsstöðinni í skólanum. Kannski kynntust þau í skólanum þegar Sigurrós var svona vinsælt.. kannski. Þetta var mjög rómantískt, garðurinn ekkert smá fallegur með fallegum gosbrunn og risa tré útum allt. Við höldum áfram að labba og eftir nokkrar mínútur erum við að labba á mjög stórum göngustíg með túnum sitthvorum megin við. Mikið af fólki þarna með pikknikk og unglingar í boltaleikjum. Við löbbum á túnið vinstra megin en Óli spilaði nokkra leiki þar þegar verið var að byggja nýja fótboltavöllinn. Hann var semsagt á fótboltastyrk þarna úti. Við löbbum áfram og hann bendir áfram og segist hafa slitið krossbandið nákvæmlega þarna. Og vissi hann strax þá að fótboltaferli hans væri lokið, slæm minning af þessum velli sem átti eftir að gjörbreyta öllu hjá honum. Svo snýr hann sér að mér og segist vilja búa til nýja góða minningu með mér á þessum stað og fer niður á hné! Ég fór strax að gráta og stökk í fangið á honum. Heldur betur rómantískt allt saman og stefnum við á brúðkaup í lok sumars.

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við