Draumaferðalagið

Ég og dóttur minni hefur lengi dreymt um að taka roadtrip ferð um Ítalíu á bílaleigubíl, og höfum við ákveðið að fara í þessa ferð sumarið 2019, sem sagt næsta sumar. Þar af leiðandi erum við aðeins byrjaðar að skipuleggja ferðina. Við ætlum að taka okkur 2 vikur í ferðina og það er svo ótal margt sem okkur langar til að skoða, svo við þurfum að skipuleggja vel og velja og hafna hvað okkur langar mest að sjá.

Við ætlum að fljúga til Mílan og taka svo góðan hring um landið og enda aftur í Mílan og fljúga þaðan heim. Það sem við erum alveg pottþéttar á að við ætlum að koma fyrir í 2ja vikna dagskránna okkar er: Mílan, Feneyjar, Flórens, Verona, Róm, Pisa, Amalfi strandlengjan, Cinque Terre og San Marino, en svo eru margir aðrir staðir komnir á listann sem við þurfum að meta hverja við náum að koma fyrir og hverja ekki. Okkur langar ekki til að taka of langar keyrslur í einu, þar sem ég verð sú eina sem keyri, og við viljum heldur ekki flýta okkur of mikið í gegn svo við náum ekki að njóta.

Við ætlum að byrja strax á næsta ári að bóka flugin, bílaleigubíl og hótelin, reyna að dreifa þessu soldið niður á mánuði svo að kostnaðurinn verði ekki eins mikill í einu. Við ætlum að reyna að bóka gistingarnar aðeins í ódýrari kantinum, svo við getum þá notað meiri pening í upplifanir. Skoða kannski frekar airbnb og gistiheimili, í stað hótela. Eins ætlum við að vera duglegar við að útbúa okkur nesti fyrir bílferðirnar svo við þurfum ekki að borða á veitingastöðum oft á dag.

Mér finnst ótrúlega gaman að skipuleggja ferðalög, og ég held að þessi ferð verða extra skemmtileg í skipulagningu, því þetta er svo mikið af ótrúlega fallegum stöðum sem við ætlum að sjá. Ef við þurfum að lengja ferðina um einhverja daga til að koma öllu fyrir, þá munum við klárlega gera það. Við viljum ekki fara í svona ferð og skilja eitthvað eftir sem okkur virkilega langar að gera, bara vegna nokkra daga. En við munum samt reyna að skipuleggja þetta í kringum það á hvaða dögum flugin eru hagstæðust, að sjálfsögðu. Það er ótrúlega margt sem maður þarf að huga að þegar kemur að svona skipulagningu, og ef einhver hefur reynslu af slíku, þá má endilega senda mér skilaboð á instagram @rosasoffia. Mér þætti vænt um allar ábendingar

Ég held ég láti þetta duga í bili, en læt hérna fylgja með nokkrar myndir af þeim stöðum sem við ætlum að skoða. Guð, hvað ég get ekki beðið!!

Þér gæti einnig líkað við