Um síðustu helgi átti Atli afmæli svo ég ákvað að skipuleggja smá dekurdag fyrir okkur í afmælisgjöf. Á meðan var Tristan í pössun hjá ömmu sinni og frænku. Við fórum suður á laugardegi og byrjuðum á að snúast aðeins í Kringlunni, fínt að klára þetta leiðinlega strax. Næst fórum við í paranudd á Mimos sem var alveg geggjað! Við höfum farið mjög sjaldan í nudd og aldrei í paranudd svo þetta var mjög skemmtileg upplifun. Við vorum í klukkutíma í nuddinu og fannst okkur báðum þessi tími líða alltof hratt.
Við gistum á Grandi by center hotels í eina nótt en það er staðsett út á Granda. Staðsetningin á hótelinu er mjög góð, stutt frá miðbænum svo við gátum rölt út að borða en ekki of nálægt svo maður yrði var við lífið í bænum um nóttina.
Kvöldið byrjuðum við á að fara á Jungle Cocktail bar í fordrykk áður en við mættum á Tapas barinn í kvöldmat. Maturinn var alveg geggjaður! Við fengum okkur 3 tapasrétti hvort en skiptum þeim svo á milli okkar svo við gátum smakkað fleiri rétti. Marineraðar lambalundir með lakkríssósu stóðu klárlega uppúr sem besti rétturinn af þessum 6 sem við smökkuðum!
Við enduðum svo þessa dekurferð á að fara í bröns á Kopar þar sem við borðuðum eins og við gátum í okkur látið af bröns matseðlinum þeirra.
Helgin var yndisleg og svo gott að komast aðeins úr hversdagsleikanum til að hlaða batteríin.