Dagurinn fyrir stóra daginn

Við Óli vorum svo heppin að við fengum ekki bara brúðkaupsdag heldur brúðkaupshelgi! Brúðkaupið var sunnudaginn 16. júní. Við áttum bókað hótel á föstudeginum 14. júní til þriðjudags, en hótelið var í um sex mínútna akstri frá brúðkaupsstaðnum. Við vorum á hótelinu AC Hotel Marriot Gava Mar og gæti ég ekki mælt nógu mikið með þessu hóteli, mjög flott og snyrtilegt og með topp þjónustu, við eigum pottþétt eftir að fara aftur á það einhvern daginn. Það voru mjög margir brúðkaupsgestir sem gistu á sama hóteli og komu margir á föstudeginum og ennþá fleiri á laugardeginum. Á föstudeginum fórum við út að borða með stórum hóp af fólki og eftir matinn fórum við á strandbarinn sem er bakvið hótelið okkar. Það var ekkert smá gaman hjá okkur og fórum við ekki aftur upp á hótel fyrr en um fjögur um morguninn.

Á laugardeginum, deginum fyrir stóra daginn, vorum við í afslöppun á hótelinu. Við vorum í sólbaði, drukkum kokteila og nutum þess að vera í fríi. Við vorum búin að senda boð á alla brúðkaupsgestina að við ætluðum að hittast á strandbarnum bakvið hótelið kl. 17. Okkur langaði að hitta alla og leyfa fólkinu aðeins að kynnast. Við vorum með svo marga vinahópa og margir sem hafa aldrei hist. Fólkið talaði einmitt um það í brúðkaupinu hvað það hafði verið sniðugt að hitta alla deginum áður, sérstaklega þeir sem voru saman á borði, svo þau væru ekki að hittast í fyrsta sinn og kynnast þá.

Barinn bakvið hótelið heitir Chiringuito Coco Beach og er alveg á ströndinni. Við vorum búin að vera í sambandi við staðinn áður og láta þau vita að við værum að koma en við vorum um 40-50 manns á einum tímapunkti. Þau voru búin að undirbúa smá lounge svæði bara fyrir okkur.

Ég var ekki alveg nógu dugleg í myndunum, enda bara að reyna njóta dagsins í botn, en náðust þó nokkrar. Við áttum alveg æðislegan dag og æðislega helgi! Gaman hvað það varð mikið úr brúðkaupshelginni og hvað margir gátu komið og fagnað með okkur.

Ég er að bíða eftir myndunum frá ljósmyndaranum – ég skelli í brúðkaupsblogg þegar þær koma ♡

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við