Eitt sem mér finnst alveg nauðsynlegt til að halda utan um skipulagið og geta skipulagt mig betur er góð dagbók. Ég hef átt margar mismunandi dagbækur en það er ein sem slær þær allar út af borðinu að mínu mati! Dagbækurnar frá Personal planner eru í miklu uppáhaldi hjá mér og hafa verið ansi lengi en ég hef átt sex bækur frá þeim og er alltaf jafn ánægð með þær. Til að byrja með keypti ég bækurnar í upphafi árs en er núna farin að kaupa þær á haustin þegar skólinn byrjar, þá dugar ein bók út skólaárið eða kennsluárið í mínu tilviki.
Það sem heillar mig mest við þessar bækur er að maður hannar þær alveg sjálfur. Velur útlit á bókina, hvernig vikan er sett upp og hvaða auka blaðsíður maður vill hafa. Með finnst ég því ekki vera með einhvern óþarfa í bókinni minni og nýti allt vel sem er í henni.
Bókin sem ég keypti mér er í stærð A5 en allar bækurnar sem ég hef átt hafa verið í þeirri stærð og hentar mér mjög vel. Ég valdi að hafa vikuskipulagið á vinstri síðunni og lista á hægri síðunni en ég elska lista! Finnst ótrúlega gott að geta punktað niður það sem ég þarf að gera og svo tikkað í boxin þegar ég er búin. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég set bókina mína svona upp svo ég er ekki komin með neina reynslu af þessu fyrirkomulagi en finnst það lofa góðu.
Neðst á síðunni valdi ég að hafa dálk fyrir líkamsrækt en ég sé fyrir mér að skrá þar niður ef ég fer í göngutúr eða hreyfi mig eitthvað. Næsti gluggi er síðan með jákvæðu tilvitnunum. Í síðasta dálknum sem hægt er að velja um ákvað ég að hafa matseðil fyrir alla vikuna en við erum búin að vera að taka matarinnkaupin vel í gegn hjá okkur og hjálpar mikið að búa til matseðil finnst mér. Það er margt annað í boði sem hægt er að velja að hafa neðst á síðunni og ættu allir að geta fundið eitthvað sem hentar þeim.
Aftast í bókinni eru nokkrar auka síður sem hver og einn velur hvernig hann/hún vill ráðstafa. Ég valdi nokkra hluti sem ég vildi hafa í minni bók en hafði fáar síður af hverri gerð. Fyrst er ég með opnu þar sem hægt er að búa til nokkra matseðla. Getur verið gott að eiga þá tilbúna ef maður er alveg hugmyndalaus.
Næst er ég með nokkrar opnur þar sem ég get haldið utan um þær bækur sem ég les og þætti eða myndir sem ég horfi á. Ég hlutsa mikið á hljóðbækur og er spennt að geta haldið utan um hvaða bækur ég hlusta á á árinu.
Þar sem ég nota þessa bók líka fyrir vinnuna er ég með nokkrar blaðsíður sem ég hugsaði að væri gott að nýta til að skipuleggja kennsluna. Þar á meðal er þessi opna en hér hafði ég hugsað mér að skrifa niður þær hugmyndir af verkefnum sem ég fæ.
Ég er með þrjár svona opnur, eina fyrir hvern námshóp sem ég kenni. Hér ætla ég að skipuleggja hvenær ég legg fyrir hvaða verkefni og skrá hjá mér hvað þau taka langan tíma.
Afþví ég elska lista þá er ég með tvær opnur með auka listum!
Í lokin er ég með nokkrar blaðsíður með Sudoku og myndir til að lita. Ég á mjög erfitt með að halda einbeitingu á löngum fundum ef ég hef ekkert að gera. Mér finnst þetta því mjög sniðugt og hjálpar þetta mér að halda einbeitingu.
Mér finnst mjög gaman að sjá hvernig aðrir setja upp dagbækurnar sínar svo mig langaði að deila minni bók með ykkur!
Færslan er hvorki kostuð né unnin í samstarfi.