Búið að kaupa parket, flísar og hurðir fyrir húsið

Þetta var langt ferli. En í mars pöntuðum við loksins parket, flísar og hurðar fyrir húsið sem við erum að byggja. Eftir að hafa legið yfir Pinterest og Hús og Híbýli í marga mánuði komumst við að niðurstöðu um allt innviði í húsinu. Ég tók mér langan og góðan undirbúningstíma og fór ég í flestar búðir á höfuðborgarsvæðinu sem selja flísar, parket, hurðar og öðru því tengdu. Það er svo margt sem þarf að kaupa og huga að og fann ég að til að einfalda mér lífið væri lang best að reyna kaupa allt á sama staðnum. Ég fékk alveg ónotatilfinningu að hugsa til þess að allt væri keypt í sitthvorri búðinni, mismunandi afhendingatímar, mismunandi tengiliðir, tölvupóstar, opnunartímar, þjónusta og svo lengi mætti telja. Guð má vita hvað ég og tengiliður minn í Parka erum búin að skrifast mikið á og hringja. Þetta er heilmikið mál að kaupa allt inn í nýbyggingu, allar mælingar þurfa að vera réttar og kaupa þarf efni sem henta. Þannig að já ég endaði á því að velja Parka. Þegar ég labbaði þar fyrst inn sá ég svo margt sem mér leist vel á og fyrst þá sá ég fyrir mér að ég gæti pantað allt á sama stað. Við erum semsagt búin að panta parket, flísar á baðherbergin, forstofuna og þvottahúsið og hurðar hjá þeim ásamt loftdúk.

Flísar

Flísarnar sem við völdum heita Lambarda og eru hágæða ítalskar flísar frá gæðaframleiðandanum Emilgroup. Þetta var ást við fyrstu sýn og var ekki aftur snúið. Þær koma í þremur litum og hægt að fá þær líka meðal annars í mósaík útliti. Til að fá ákveðið flæði í húsið þá ákváðum við að hafa þær á öllum baðherbergjunum, forstofunni og þvottahúsinu. En ekki sama litinn alls staðar. Við ætlum að hafa ljósa litinn, litinn Bianco í forstofunni, litla gestabaðinu uppi, aðal baðherberginu og á golfinu í þvottahúsinu. Dökka litinn, litinn Nero, ætlum við að hafa á litla baðherberginu innan af hjónasvítunni. Ég skal gera aðra færslu seinna þar sem ég segi og sýni ykkur hvernig við ætlum að hafa flísarnar og hvernig lit á blöndunartækjum við ætlum að hafa en það verður ekki eins allsstaðar.

Parket

Parketið sem við völdum heitir Cracked Terra Oak og er harðparket. Við vorum búin að ákveða það strax í byrjun að fá okkur harðparket en það passar best fyrir okkur. Við eigum börn og fáum okkur vonandi hund í framtíðinni þannig að okkur fannst harðparket því henta vel. Mér finnst þetta parket vera með ótrúlega fallegum brúnum lit. Við vildum alls ekki hafa það of ljóst, heldur vildum við ákveðinn brúnan viðarlit og heillaði þessi okkur strax. Parketið er með burstaðri áferð sem gefur gólfinu náttúrulegt útlit, það er með vatnsvörn og rispuvörn. Það er auðvelt að leggja parketið sem er einstaklega heppilegt fyrir okkur því við ætlum að parketleggja sjálf meirihlutann af húsinu. Við Óli höfum parketlagt áður, ef þið viljið aðeins reyna á sambandið ykkar þá mæli ég með því að parketleggja saman. Ef þið eruð enn saman eftirá þá getið þið tæklað allt!

Hurðir

Hurðarnar sem við pöntuðum heita Oak Astig CPL (hurðin vinstra megin á myndunum). Þær eru sérpantaðar hjá Parka og tekur um 6-8 vikur að fá þær eftir að pöntun er lögð inn. En þessar hurðar eru plasthúðaðar og gríðarlega slitsterkar. Við vorum með hvítar hurðar í síðustu eign sem við áttum og vorum við ekki að fíla það. Í þetta skipti völdum við fallegan viðarlit en hurðarnar tóna vel við parketið. Við tókum þær frekar stórar, stærri en gengur og gerist. En það er náttúrulega svakaleg lofthæð á efri hæðinni og á neðri hæðinni er lofthæðin líka mjög góð. Held það eigi eftir að koma mjög kúl út. Við tókum svarta hurðarhúna en við erum með svarta glugga og svart stál í stiganum þannig að það á eftir að passa vel saman.

Dúkaloft

Af því að það er svo hátt til lofts í stofunni þá höfðum við smá áhyggjur af bergmáli og óþægilegri hljóðvist. En í dag er til ráð við öllu og ákváðum við að fá okkur dúk í loftið. Fyrir ykkur sem vitið ekki hvernig það virkar þá er hér smá útskýring frá Parka: „Hljóðdúkur er lausn sem nýtur aukinna vinsælda þegar kemur að því að velja lofta- og veggefni. Dúkurinn er strekktur upp á lista og uppsetning er tiltölulega fljótleg og einföld. Um er að ræða sérstaklega umhverfisvæna lausn sem inniheldur ekki PVC efni. Auðvelt er að taka út fyrir lýsingu og samskeyti eru ekki áberandi ef að skeyta þarf dúkunum saman. Dúkurinn dregur ekki í sig ryk og auðvelt er að þrífa hann. Einnig eru miklir möguleikar varðandi hljóðvist en þá eru steinullarplötur festar upp í loft og dúkurinn svo strekktur yfir þær.“ Það eru menn búnir að koma að mæla fyrir dúknum. Þeir mæta svo með allar græjur og henda honum upp. Þetta mun bæta hljóðvistina á efri hæðinni til muna.

Það er ótrúlega margt búið að gerast í húsinu síðustu vikur. Það er búið að heilspartla efri hæðina og mála eina umferð, píparinn og rafvirkinn eru á síðustu metrunum, það er búið að grinda loftið á neðri hæðinni, búið að klæða stóran hluta af húsinu og svo margt fleira. Múrarinn er að fara koma og flota golfið á neðri hæðinni. Þegar hann er búinn er hægt að leggja hitamotturnar og þar ofaná sérstakar gólfplötur. Þá getum við farið að parketleggja. Ég er svo spennt og mun sýna ykkur allt ferlið inni á Instagram, eins og ég er dugleg að gera.

xo

Instagram–> gudrunbirnagisla

*Undirrituð er í samstarfi við Parki Interiors*

 

Tengdar færslur:
Byrjað að reisa húsið
Það er byrjað að steypa
Við ætlum að byggja hús!

 

Þér gæti einnig líkað við