Næsta sumar erum við Atli að fara að gifta okkur og er undirbúningurinn fyrir brúðkaupið kominn ágætlega af stað. Það er svo margt sem þarf að huga að og skipuleggja, miklu meira en ég hafði ímyndað mér.
Þegar við vorum í Malasíu 2017 fór Atli á skeljarnar og bað mig að giftast sér. Mig var farið að gruna að það færi að koma að þessu og vissi alveg hvaða svar hann fengi. Þegar við trúlofuðum okkur ákváðum við að þetta færi á 5 ára plan þar sem við vorum ennþá fátækir námsmenn. Í sumar fórum við svo virkilega að pæla í þessu og ákváðum dagsetninguna og fórum að spá í þessum stóru hlutum sem þarf að plana.
Þar sem við búum í litlum bæ úti á landi er ekki mikið úrval af sölum og þess háttar svo valið var ekkert rosalega erfitt. Okkur datt reyndar í hug hvort við ættum að gifta okkur einhversstaðar annarsstaðar en vorum bæði sammála um að vilja frekar gifta okkur heima.
Við erum búin að panta þessa stóru fídusa í kringum brúðkaupið, prest, kirkju, sal, veislustjóra, tónlist og setja niður gestalista. Um helgina fór ég síðan í brúðarkjólamátun og gerði smá dag úr því. Fékk mömmu, systur mína og tvær vinkonur til að koma með og áttum við ótrúlega skemmtilegan tíma saman. Segi ykkur betur frá því seinna.
Ég hef verið að skoða á pinterest til að fá hugmyndir að skreytingum en ég held að mér finnist erfiðast að ákveða hvað við eigum að hafa í matinn og hvernig ég vil skreyta salinn. Mér finnst samt gott að vera tímanlega í þessu öllu til að minnka stressið þegar nær dregur stóra deginum. To do listinn er ansi langur en næsta verk er að klára boðskortin.
Ég set með nokkrar myndir sem ég hef fundið á pinterest af skreytingum sem mér finnst fallegar.
Hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með undirbúningnum bæði hér og á instagram!