Brúðkaupið okkar Óla verður 16. júní á næsta ári. Við bókuðum gullfallegan garð fyrir stóra daginn þegar við vorum hérna í Barcelona síðastliðinn maí. Garðurinn er draumi líkast! Í honum er hús sem var byggt árið 1779 en húsið er að mestu leiti upprunalegt. Brúðkaupið mun vera þannig að athöfnin verður í garðinum, að henni lokinni verður fordrykkur fyrir framan húsið og maturinn verður líklegast úti líka. Við höfum möguleika á að hafa matinn úti eða inni. Við erum miklu spenntari fyrir því að hafa matinn úti og stefnum við á það. Ef það vill svo til að það verður rigning þennan dag er ekkert mál að breyta og hafa matinn inni. En það rignir að meðaltali þrjá daga í júní í Barcelona og er meðalhitinn um 24 gráður. Við vonum bara það besta.
Brúðkaupsundirbúningurinn er aðeins öðruvísi en á Íslandi. Hérna úti þá bókar maður veisluþjónustu sem sér um matinn og í okkar tilfelli þá kemur hún líka með borð, stóla, leirtau og allt sem tengist borðhaldinu. Það fylgir ekki staðnum sem við bókuðum og því mun veisluþjónustan sjá um allt það. Allar skreytingar sér „florist“ um eða blómaskreytingaþjónusta, semsagt skreytingar á borðum, stólum, húsi eða það sem þú vilt. Við ætlum ekki að hafa mikið af skreytingum en við ætlum að hafa mjög hlutlausar og auðveldar skreytingar á borðunum.
Ég var pínu stressuð að fara plana brúðkaup hérna úti. Það er ekki sjálfsagt að fólkið hérna tali ensku og fyrir utan það að ég þekki ekkert til hérna úti, ég myndi ekki vita hvar ég ætti að byrja. En sem betur fer fáum við alla þá hjálp á staðnum. Við erum búin að vera í sambandi við viðburðastjórann á staðnum og hún ætlar að hjálpa okkur með þetta allt. Þau eru með langan lista af veisluþjónustum, blómaskreytingaþjónustum, tónlistarfólki og allt sem þarf til að plana góða veislu. Við förum bráðum á fund með henni og ætlum að skoða þetta allt saman.
Ég ætla sýna ykkur nokkrar myndir sem ég fann á Pinterest af því hvernig ég sé þetta allt fyrir mér.
Eins og ég sagði þá stefnum við á að hafa matinn úti. Garðurinn er ekkert ósvipaður og á vinstri myndinni hér að ofan. Staðurinn sjálfur býður uppá útiseríur og munum við klárlega hafa nóg af þeim. Við ætlum að hafa hringborð fyrir gestina en háborðið verður langborð.
Við ætlum að hafa hvíta dúka á borðunum og einhverja einfalda borðskreytingu. Mikið af kertum og annaðhvort látlaus blóm eða einhverskonar greinar eða lauf með eins og á myndunum hérna að ofan. Við ræðum þetta allt við blómaskreytingaþjónustuna og finnum eitthvað flott saman.
Ég er búin að vera hugsa mikið út í litaþemað og hef komist að þeirri niðurstöðu að ég vil ekki hafa neinn lit. Þemað er sjálfgefið „rustic“ þema útaf staðnum og finnst mér mjög fallegt að hafa bara hvít blóm og grænar plöntur og greinar. Óli er alveg sammála mér með það og ætlum við að hafa þetta mjög einfalt allt saman.
Ég held þetta sé nóg í bili – en ég mun klárlega koma með meira update síðar meir af undirbúningnum. Er ekki alveg áhugi fyrir því?
xo
Guðrún Birna
Instagram: gudrunbirnagisla