Brúðkaupið mitt… okkar!

Jæja, mig langaði örlítið að segja frá brúðkaupinu mínu og vonandi gefa öðrum einhverjar hugmyndir.
En við höfðum nægan tíma til að skipuleggja allt, og byrjaði ég í desember að panta hluti frá Ali Express fyrir stóra daginn.

En mér finnst skipta miklu máli að vera ekki að spá í hvernig aðrir gera hlutina, þetta er dagur sem þú átt eftir að upplifa einu sinni og því skal allt vera eins og maður vill hafa það. Við fengum alveg spurningar á við „afhverju hafiði ekki brúðkaupið hér á höfuðborgarsvæðinu ?“, „afhverju geriði ekki svona?“, „afhverju? afhverju? afhverju ?“
– Jú svarið er einfalt, því við viljum það ekki.
Margir reyndu að skipta sér af hinu og þessu, en það er mikilvægt að standa fast á sínu og hafa daginn nákvæmlega eins og maður vill hafa hann.

En við sendum jólakort í desember í fyrra og þar settum við í endann „Endilega takið daginn frá“ og fóru þau kort bara til þeirra allra nánustu.
Síðan í mars/apríl sendum við út boðskortin.

Brúðarkjólinn – úff… það var nú meira vesenið!
Ég panta mér kjól af netinu í desember og var sá kjóll í mjög litlu númeri og ætlaði ég að reyna að passa bara í hann. Þegar á leið, passaði ég í rauninni í kjólinn nema yfir brjóstin, enda hef ég alltaf verið mjög brjóstgóð kona.
Ég hef samband við Klæðskerahöllina og bið þær um að aðstoða mig. Þær segja mér að auðveldast væri að panta nýjan kjól sem myndi ná yfir brjóstin og þær myndu síðan laga það sem laga þyrfti.
Ég panta mánuði fyrir brúðkaup nýjan kjól, sem kemur svo aldrei ( sem minnir mig á það, að ég á enn eftir að fá hann endurgreiddan.)
En það ferli hefur tekið endalausan tíma, þrátt fyrir að hafa hætt við pöntunina viku fyrir brúðkaup, þá sendu þeir samt kjólinn og var hann kominn til landsins mánudaginn eftir brúðkaupið. – En það vesen er eitthvað sem ég nenni ekki að tjá mig meira um og mæli ég ekki með www.lightinthebox.com fyrir kjólakaup.

En hinsvegar, þá mæli ég hiklaust með þeim dömum í Klæðskerahöllinni, þær náðu að sauma nýtt stykki yfir brjóstin og púsla saman kjólnum einhvernvegin á innan við viku. Þvílíkir snillingar og mjög sanngjarnar í verði!

Dagurinn okkar var 16.07.16 og var athöfnin kl 16:16.
Að vísu var pínu seinkun því að ég, já ég ein, ákvað klukkutíma fyrir athöfn að hafa hana utandyra, lét fara með nokkra stóla fyrir eldra fólkið og hringdi í þann sem sá um tónlistina og lét vita og engann annan, ekki einu sinni manninn minn.
Við vorum reyndar búin að ræða það að hafa úti ef veður myndi leyfa, og það gerði það svo sannarlega. Fengum ótrúlega fallegt sumar veður.

Þetta var lítið fallegt úti sveita brúðkaup með fjöllin og jökulinn í bakgrunn, og get ég ekki ímyndað mér fallegri dag.

Inngöngulagið var I wanna grow old with you með Adam sandler

Við vildum hafa frekar létt andrúmsloft yfir þessu öllu saman, og þótti okkur þetta lag vel við hæfi.

Eftir athöfnina fórum við í myndatöku hjá Gassa. Hann myndaði fyrir athöfn, athöfn, myndatöku og 2 tíma í veislunni og fær hann öll mín bestu meðmæli. Fengum um 900 fallegar unnar myndir og svo er hann líka svo hress og skemmtilegur sjálfur.

Eftir myndatökuna var farið í samkomuhúsið þar sem veislan var haldin og var tekið vel á móti manni þar.
Vorum við með freyðivín í fordrykk, einnig var léttvín í boði, bjór sem var geymdur í stóru kari með klaka í úti og smá mojito bolla sem ég skrifaði um hér.

Einnig skrifaði ég um gestabókina hér. Og enn og aftur langar mig að mæla með að gera svona sem gestabók, finnst þetta algjör snilld og gaman að lesa eftir á, maður fær mjög mikið af fallegum kveðjum.

Stólarnir sem fylgdu salnum voru alls ekki í stíl við þemað sem var í gangi og leigði ég því áklæði á stólana sem gerðu allt fyrir salinn. Ég setti líka færslu um þau áklæði hér.

Maturinn var frá Grillvagninum, sem var algjör snilld. Allir fengu nóg ( vel rúmlega það) og fengum við líka að fá afganga til að eiga daginn eftir.
Grillvagninn fær mín meðmæli, enda maturinn ótrúlega góður!

Brúðarkakan var frá Önnu Margréti hjá kökurnar mínar, en ég setti líka inn smá færslu um hana hér.

Síðar um kvöldið kom Bjössi greifi trúbador og stóð hann svo sannarlega fyrir sínu, hann spilaði til næstum 2 um nóttina.

Mikið var um fjör þetta kvöld og fórum við upp í bústað um 3 leitið, en frétti ég að fólk var að til 6 um morgun.

Daginn eftir var komið að frágang og voru margir sem gistu þarna yfir helgina sem hjálpuðu til.
Við grilluðum pylsur og buðum upp á áður en fólk annaðhvort aðstoðaði við frágang eða fór að keyra heim.

En mikið svakalega var þetta skemmtilegur dagur, og vil ég þakka enn og aftur fyrir okkur.
Okkur þykir svo ótrúlega vænt um að fólk hafi gert sér ferð út á land og haldið uppá þennan dag með okkur.

Knús til ykkar allra

Kveðja

Aníta Rún…. og Daníel

Þér gæti einnig líkað við