Brúðarkjólamátun – mín reynsla

Ég keypti mér brúðarkjól í síðustu viku hérna í Barcelona. Ég byrjaði að skoða brúðarkjóla strax eftir að við trúlofuðum okkur fyrir sirka ári síðan. Ég skoðaði mikið á Pinterest en það er hægt að skoða endalaust þar af kjólum… og líka bara öllu sem viðkemur brúðkaupum. Þegar við fluttum hingað út þá fór ég að googla hvaða búðir væru í boði sem selja brúðarkjóla. Það er til slatti af búðum en getur verið mjög ólíkur stíll milli þeirra. Þess vegna er gott að vera búinn að hugsa sirka hvernig kjól maður vill vera í eða hvernig kjóla maður vill prófa. Ég sá strax hvaða búðir væru með kjóla sem hentuðu mér. Pronovias heillaði mig strax og fór ég í hana til að kanna aðstæður fyrir um mánuði síðan. Þau eru með mjög mikið úrval af kjólum og pantaði ég í mátun hjá þeim. Ég fór um miðjan mars í mína fyrstu mátun og tók ég mömmu og systir mína með en þær voru akkúrat í heimsókn þá. Þegar ég pantaði í mátunina vissi ég ekki að þessa helgi var verið að kynna 2020 línuna. Allt í lagi með það, ég hugsaði að ég myndi bara prófa kjólana og þá sjá hvaða kjóla mér fannst fara mér vel og hvaða snið hentaði. Ég fékk þó að prófa nokkra kjóla úr núverandi línunni sem ég var búin að sjá á netinu.

Mætt í mátunarklefann.

Ég prófaði örugglega yfir 15 kjóla, ég var þarna í tvo og hálfan tíma. Margir þeirra mjög fallegir á mér og komu til greina en það var eitthvað sem var ekki að passa. Konan sem hjálpaði mér ss. fann til kjólana og klæddi mig í þá var mjög indæl en var ekki beint mikið að „hjálpa“ mér. Ég prófaði bara endalaust af kjólum og var alveg orðin ringluð hvað passaði best og hvað ég ætti að vera leita eftir og skoða í fari kjólanna – Ég fattaði þetta ekki fyrr en ég fór í kjólamátun nokkrum dögum seinna hjá annarri verslun en konan þar var mjög hjálpleg. Ég keypti semsagt ekki kjól hjá Pronovias, kjólinn sem mig langaði mest í var úr 2020 línunni og kostaði 270.000. Af því að þetta var kjóll úr næstu línu og það var þessi kynning á henni þessa helgi þá hefði ég þurft að panta hann þarna á staðnum. Ég gat ekki fengið smá tíma til að hugsa mig um eða koma aftur seinna og máta hann aftur. Kjóllinn var mjöööög fallegur og smellpassaði við mig en ég var ekki að fara kaupa kjól á þessu verði undir svona mikilli pressu. Þetta var líka mín fyrsta mátun þannig að ég ákvað að segja pass. Ég mátti því miður ekki taka myndir því að kjólarnir eru ekki komnir í verslanir eða á netið.

Nokkrir punktar sem ég hefði viljað gera betur áður en ég fór í mátunina og sem ég passaði upp á í næstu mátun:

Hárið – Ég var búin að vera úti allan daginn fyrir mátunina að versla með mömmu og systir minni. Var búin að vera máta föt og sitja úti að borða. Þegar ég fór svo í mátunina var hárið á mér frekar svona „klesst“ eftir daginn og pínu úfið. Þegar ég fór í seinni mátunina nokkrum dögum seinna passaði ég að hárið væri frekar fínt. Ég blés hárið og mótaði það fyrir mátunina, þó ég hafi svo hent því upp í tagl þegar leið á þá var það allavega hreint og fínt.

Tanið – Ég hefði svo mikið átt að setja á mig brúnkukrem fyrir mátunina. Ég ætla að vera vel brún í brúðkaupinu mínu þannig að það er gott að prófa kjólana með þann „húðlit“ sem þú ætlar að vera með á stóra deginum. Þá sér maður heildarmyndina mikið betur og litina á kjólunum. Ég var skjanna hvít í fyrri mátuninni minni og fannst ég oft mjög dauf í kjólunum. Mæli með ef þið ætlið að vera með brúnku á brúðkaupsdeginum að máta kjólana með brúnkukremi, maður er líka bara miklu ferskari.

Brjóstarhaldari – Nánast allir þeir kjólar sem ég mátaði voru með opið bak eða að bakið var með einhverskonar blúndum og hálf gegnsætt. Ég tók með mér hlýralausann brjóstarhaldara en notaði hann ekki því hann sást svo mikið í bakið og oft að framan líka. Til að sjá kjólana alveg sleppti ég að vera í brjóstarhaldara í fyrri mátuninni. Ég er ekki með stærstu brjóstin í bransanum og ætla ég að vera í free bra á brúðkaupsdaginn. Til að sjá heildarmyndina sem best myndi ég mæla með að vera með þannig haldara í mátuninni. Ég keypti þannig í H&M á 15 evrur til að nota í mátuninni í seinna skiptið. Munar miklu þegar brjóstin eru „á sýnum stað“ 😉

Seinni mátunin mín var hjá Wedding Land. Það sem heillaði mig við þau var að þau eru með svo mörg merki, marga hönnuði. Þau bjóða upp á allskonar þjónustu, fyrir utan að selja kjóla, skó og skartgripi þá eru þau með brúðkaups ráðgjöf, þau plana brúðkaupsferðir, eru með wedding planner’s, eru með jakkaföt og fleira.
Þegar ég mætti á svæðið tók á móti mér yndælis ung kona, við settumst niður og hún ræddi við mig um hvað ég hafði í huga fyrir brúðarkjól. Ég sýndi henni kjóla sem ég hafði tekið skjáskot af á heimasíðunni þeirra. Hún skipti kjólunum niður eftir sniðum og stílum. Eftir gott spjall tók hún til fimm kjóla sem við myndum byrja á. Ég mátaði kjólana og eftir hvern kjól spurði hún mig hvað mér líkaði við kjólinn, hvað ég myndi vilja breyta og hvort ég vildi prófa aðra svipaða eða prófa eitthvað nýtt. Hún var mjög hjálpsöm og vissi alveg hvað hún var að gera. Svona gekk þetta og eftir nokkra kjóla var ég komin niður á tvo sem mér leist mjög vel á. Ég prófaði þá aftur í lokin og sá þá að annar kjóllinn var minn kjóll. Mér leið mjög vel í honum, hann er klassískur, rómantískur, einfaldur en samt með detail-um – góð útskýring? haha

Ég fann það að ég þyrfti ekki að leita meira. Kjóllinn er nákvæmlega eins og ég hafði ímyndað mér strax í upphafi. Á þessum nokkrum mánuðum var ég búin að fara fram og til baka með hvernig kjól ég vildi vera í og var ég orðin mjög stressuð í byrjun árs að ég myndi aldrei finna kjól. En með góðri hjálp frá starfsstúlkunni og systir minni sem kom með og henni Kristjönu minni, fann ég minn drauma kjól.

Pallurinn sem ég stóð á þegar ég kom fram í kjólunum. Sitthvoru megin voru stórir speglar og á móti pallinum var stór sófi þar sem að Ágústa systir og Kristjana sátu, andlegu stuðningarnir mínir.

Stund milli stríða.

Einn af mörgum kjólum sem ég mátaði.

Ég mæli með smá rannsóknarvinnu áður en þið farið í mátunina, hvernig snið eru þið að hugsa um, hvernig „tilfinningu“ á kjóllinn að bera, er hann rómantískur, klassískur, prinsessulegur, boho o.sfrv. Svo er gott að skoða á netinu kjólana sem eru á heimasíðu fyrirtækisins til að sýna starfsfólkinu hvað þið eruð með í huga, eða aðra kjóla sem þið hafið séð. Það er nauðsynlegt að taka einhvern með sér eða mér fannst það mjög nauðsynlegt, þetta getur verið smá yfirþyrmandi þannig að það er gott að hafa auka álit og stuðning.

Ég hlakka mikið til að sýna ykkur kjólinn 16. júní <3

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við