Brjóstagjöfinni lokið

Þá er komið að tímamótum hjá okkur Júlíu Huldu, hún er hætt á brjósti. Brjóstagjöfin varði í sirka 9 mánuði og tvær vikur. Tveimur mánuðum lengur en ég náði með Ágústu Erlu. Í lok mars fann ég hvað var farið að minnka í brjóstunum en langaði mig að reyna þrauka þar til hún yrði 9 mánaða. Það gekk og þá fór ég að hugsa hvernig væri best að hætta. Ég og maðurinn minn ræddum málin og vorum við sammála um að það væri best að gera það þegar ég færi í bústaðarferðina mína, yfir heila helgi. Ég byrjaði hægt og rólega að trappa niður gjafirnar og gekk það mjög vel enda er Júlía Hulda farin að borða vel og mikið. Föstudaginn síðastliðinn var síðasta brjóstagjöfin. Ég hélt hún yrði erfiðari fyrir mig en ég fann bara að tíminn var kominn og var ég bara mjög sátt með þessa ákvörðun.

Ég fór í bústaðinn með æskuvinkonum mínum og á meðan sá maðurinn um börnin. Júlía Hulda hefur aldrei viljað pela (eða duddu…) en um helgina tók hún pela í fyrsta skipti með pabba sínum. Ótrúlega dugleg. Hann færði rúmið hennar einnig inn í hennar herbergi og svaf hún þar í fyrsta skipti. Við erum búin að vera draga það að færa rúmið í herbergið hennar en núna varð loks að því. Eins og ég sagði frá í þessari færslu að þá var svefninn hennar alveg hræðilegur í marga mánuði. Hann lagaðist eftir að við tókum út næturgjafirnar og fengum lyf fyrir hana. Svo fór þetta bara aftur versnandi hægt og rólega og var eiginlega komið aftur í sama gamla horfið. Til þess að ná svefninum aftur góðum þá held ég að þetta muni hjálpa. Hún er einnig rosalega svefnstygg þannig að með þessu móti erum við ekki heldur að vekja hana á nóttunni.

Ég klikkaði alveg á því að taka pumpuna mína með í bústaðinn (algjört klúður!) þannig að ég reyndi að handmjólka mig um helgina sem gekk misvel og var eiginlega bara drullu vont. Strax þegar ég kom heim á sunnudeginum þá pumpaði ég mig og finn ég í dag (daginn eftir) hvað brjóstin eru strax „lin“. Er ekki að safnast jafn mikið upp í þeim. Svo passa ég mig að vera í þröngu yfir brjóstin og láta heitan bakstur á þau. Einnig er gott að láta heitt vatn renna vel og lengi á þau í sturtunni.

Er ótrúlega þakklát fyrir þennan tíma sem við náðum, veit að það er ekki sjálfsagt að hafa barn á brjósti.

xo

 

 

 

 

 

Instagram–> gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við