Þegar ég var lítil var alltaf rosa mikil spenna í kringum allskonar bóka áskriftir sem við vorum með. Fyrst voru það Disney bækurnar, Andrés blöðin, Syrpurnar og síðast en ekki síst Galdrastelpurnar sem ég las endalaust mikið. Það var ekki bara það að ég hafði gaman af bókunum/blöðunum, heldur var svo gaman að fá pakka í hverjum mánuði, jafnvel í hverri viku.
Það er einmitt það sem Hlyni finnst skemmtilegast við bókaáskriftina sína, það er að fá pakka og opna hann. Ég taldi það ólíklegt að hann myndi móttaka og skilja bækurnar alveg strax, en barnið er farið að segja „Neil Armstrong“ í hvert skipti sem hann sér geimflaug, og „Michael Jordan“ ef hann sér körfubolta. Hann er að læra ótrúlega margt á þessum bókum og ég vildi að þær hefðu verið til þegar ég var yngri.
Bækurnar sem ég er að tala um eru auðvitað bækurnar Litla fólkið og stóru draumarnir, en þessar bækur eru ótrúlega fallegar og skemmtilegar. Þetta eru bækur um allskonar fólk, allstaðar úr heiminum frá allskonar tímum sem átti sér draum og lét hann rætast. Mér finnst algjör forréttindi að Hlynur Atlas fái strax, svona snemma, einhvern drifkraft í að leyfa sér að dreyma ásamt því að fá að kynnast mörgu sem ég sem foreldri hefði jafnvel ekki haft hug í að kenna honum, eða að ég þyrfti að kenna honum.
Hlynur er ekki einn um að læra af þessum bókum, en við foreldrarnir höfum lært heilan helling á þessum bókum. Vissu þið til dæmis að Neil Armstrong fékk flugréttindi áður en hann fékk bílpróf, eða það að Michael Jordan hætti á tíma að spila körfubolta? Vissu þið að Rosa Parks þurfti að flytja úr heimabæ sínum, eða að Megan Rapinoe þurfti að keyra í tvo tíma á æfingu með úrvalsliði kvenna í fótbolta? Allt þetta hafði áhrif á þeirra drauma og er alveg magnað að lesa þessar bækur.
Bókaáskriftin sjálf er ekki nema 2500 kr á mánuði, sem er gjöf en ekki gjald fyrir þessar fallegu og vel gerðu bækur. Þið fáið þá senda heim til ykkar nýja bók einu sinni í mánuði. Þetta eru skemmtilegar, fallegar og ótrúlega lærdómsríkar bækur, bæði fyrir börn og fullorðna. Ég gæti ekki mælt meira með þessum bókum, en þið getið skoðað og skráð ykkur í bókaáskrift hér.
Takk fyrir lesninguna!