Barn númer tvö – Það sem enginn segir þér

Þegar ég var ólétt af Ísabellu var ég með allskonar vangaveltur og áhyggjur. Að mörgu leyti er maður rólegri á meðgöngu tvö af því maður veit soldið hvað maður er að fara útí. Þú veist að þú munt upplifa svefnlausar nætur, þú veist hvernig það er að fæða barn þó svo að engin fæðing sé eins og að mörgu leyti er maður alveg með þetta. Ég til dæmis var nokkuð viss um að annað barn myndi bara smellast inní okkar rútínu og breytingin yrði í raun mjög lítil. Í okkar tilfelli var það alls ekki raunveruleikinn haha.. en meðgangan með Ísabellu gekk alls ekki vel og ég þurfti að fara í gangsetningu við rétt rúmlega 37 vikur. Þegar við komum svo loksins heim eftir viku fjarveru frá Mikael þurfti Ísabella að fara í ljós í sólarhring uppá LSH og það var alveg gríðarlega erfitt að vera svona í burtu frá Mikael. En svo þegar við komum heim og lifið fór að ganga sinn vanagang og við lærðum inná nýja einstaklinginn okkar var margt sem kom mér á óvart og margt sem enginn hafði sagt mér frá varðandi það að koma með annað barn. Auðvitað eru allar mæður mismunandi og með mismunandi skoðanir og upplifanir en mig langaði að deila því sem ég hefði viljað vita og því sem kom mér á óvart við að bæta öðru barni.

Hversu mikið hjartað stækkar

Ég held að allar mæður fái einhvern tímann hugsanir á borð við “mun ég geta elskað þetta barn jafn heitt og ég elska hitt barnið mitt” en það er alveg magnað hversu miklu hjartað getur tekið við og hvað plássið stækkar með hverju barni.

Eldra barnið er allt í einu svo stórt

Það sagði mér enginn hversu stór mér myndi Mikael finnast, hann var bara 3 ára þegar Ísabella fæddist en mér fannst hann hafa fullorðnast og stækkað svo rosalega bara á meðan ég var á fæðingardeildinni. Núna er Ísabella 3 ára og mér finnst hún ennþá svo lítil og á erfitt með að ímynda mér hana sem stóru systur !

Bless svefn 

Mér fannst frekar erfitt að aðlagast því að vera með tvö börn með mismunandi svefntíma, þegar annað leggur sig þá vaknar hitt, yngra barnið vekur eldra á nóttunni o.s.frv

Brjóstagjöfin

Að vera með lítinn 3 ára orkubolta sem vildi að mamma myndi leika, koma og sjá þetta og vera lika í fangi gat verið mjög krefjandi þegar maður var að reyna koma brjóstagjöfinni í gang og samviskubitið sem fylgdi var ekki síður erfitt.

Magapokar & burðarsjöl

þetta er nýji besti vinur þinn ! að hafa lausar hendur til að sinna eldra barninu, elda og sjá um heimilið fannst mér vera algjör lifesaver.

Frítíminn

Þeir dagar sem maður gat háttað barnið og átt tíma fyrir sjálfan sig á kvöldin eru farnir í bili þar sem ungabarnið sofnar yfirleitt ekki snemma á kvöldin fyrstu vikurnar. En þeir dagar koma aftur og verða bara extra kósí þá !

“Eitt sem eitt og tvö sem tíu,,

Þetta orðatiltæki hef ég oft heyrt og fannst bara ekkert til í því fyrr en ég eignaðist annað barn haha. Það að þurfa bara að hugsa um eitt barn ef annað er til dæmis hjá ömmu og afa líður manni eins og maður sé bara kominn í frí.

Afbrýðissemi

Mig hefði aldrei grunað hvað afbrýðissemi hjá eldra barninu gæti brotist út á ólíkan hátt. Ég las mig mikið til um það á meðgöngunni og það kom mér á óvart. Við vorum samt heppin með það að Mikael tók litlu systur sinni mjög vel.

Gæðastundir

Allar litlu gæðastundirnar sem þú átt með eldra barninu verða svo extra dýrmætar, bara það að labba saman í leikskólann eins og við gerðum svo oft áður urðu alveg sérstaklega mikilvægar þegar litla systkinið var mætt.

Systkinaástin

Mikilvægast af öllu að nefna finnst mér hvað þú munt aldrei sjá neitt fallegra en þessar tvær litlu manneskjur sem þú bjóst til faðmast og vernda hvort annað. Það gjörsamlega sprengir mömmuhjartað !

Takk fyrir að lesa, þangað til næst xx

Instagram -> anastasiaisey

Þér gæti einnig líkað við