Aftur í háskóla! – Hvað er gott að hafa í huga?

Árið 2016 útskrifaðist ég með BS gráðu í Viðskiptafræði og hef ég starfað hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) frá því ári sem sérfræðingur í lánamálum. Þegar ég var í BS náminu mínu þá sá ég að öll þau fög sem fólu í sér einhvers konar reikningshald, ársreikningagerð og aðra útreikninga tengda því heilluðu mig mjög mikið og áttaði ég mig fljótt á því að mig langaði að fara í framhaldsnám og leggja áherslu á nám tengt þessu.

Í ársbyrjun 2019 tók ég þá ákvörðun að nú væri kominn tími á að fara aftur í skóla og skrá mig í það nám sem ég var fyrir löngu búin að ákveða, M.Acc nám í reikningsskil og endurskoðun. Tilhugsunin stressaði mig en um leið var ég mjög spennt fyrir þessari ákvörðun. Þar sem námið er kennt í lotum og kennslustundirnar eru frá 16:30-20:00 á kvöldin, þrisvar sinnum í viku, tók ég þá ákvörðun að skrá mig í fullt nám með fullri vinnu hjá LSR.

Þar sem ég er bæði í fullu starfi og fullu námi getur verið erfitt að finna tíma fyrir annað á meðan og því er skipulagning rosalega mikilvæg! Þegar maður verður svona upptekinn vill það oft gerast að æfingar og hreyfing situr á hakanum. Þar sem heilsa er mér mjög mikilvæg og ég veit að hreyfing skiptir rosalega miklu máli þá tók ég þá ákvörðun að skipuleggja mig þannig að ég kæmi alltaf æfingu fyrir með náminu.

Hvað er gott að hafa í huga þegar maður fer aftur í skóla?

1. Skipulagning númer 1, 2 og 3: Ef þú ert dugleg/duglegur að skipuleggja þig þá getur þú nýtt tímann þinn svo miklu betur.
Ég keypti mér dagbók í byrjun árs hjá Personal planner þar sem ég skrifa niður hvenær ég mæti í tíma, hvenær ég á að skila verkefnum, hvenær ég á að mæta í próf og hvenær ég er búin að ákveða að fara á æfingar. Ég skrifa líka niður aðra viðburði í lífinu mínu, þá er svo auðvelt að sjá hvort það verði einhverjir árekstrar þar á milli (í skóla, vinnu og einkalífi).

2. Útbúðu nesti fyrir daginn: Þegar ég er í vinnu frá 8-16 og fer síðan beint í skólann til 20 finnst mér mjög mikilvægt að vera búin að undirbúa nesti fyrir daginn. Ég tek þá með mér nóg af millimálum, hádegismat og kvöldmat og skiptir miklu máli að hafa holla og góða næringu. Ef maður er ekki með nesti er svo auðvelt að detta í óhollustuna.

3. Brúsi: Hafðu með þér brúsa sem þú getur fyllt af vatni! Maður á það til að gleyma að drekka vatn yfir daginn og finnst mér mjög mikilvægt að hafa brúsann minn alltaf með mér. Ég keypti mér brúsa fyrr á þessu ári sem heldur vatninu köldu í 48 tíma og ég mæli hiklaust með þannig brúsa (linkur hér)

4. Taktu frá tíma til að fara yfir námsefnið: Oft erum við með mikið af plönum og eigum það stundum til að setja heimalærdóminn til hliðar fyrir annað. Taktu frá ákveðinn tíma í viku sem þú notar til að sinna verkefnum og öðru sem tengist skólanum. Það er svo vont þegar maður áttar sig á því í lokinn að maður á eftir að lesa alla bókina og man ekkert!

5. Búðu til þínar eigin glósur: Ég hef vanið mig á það þegar ég les skólabækurnar að glósa í leiðinni. Mér finnst best að lesa það námsefni sem sett er fyrir hvern tíma og glósa hjá mér í leiðinni, það auðveldar mér svo mikið í lokin þegar ég er að læra undir próf. Þá þarf ég ekki að fara að lesa alla bókina og glósa rétt fyrir prófið.

6. Taktu þér tíma fyrir æfingar: Eins og við vitum flest þá er það ekki gott fyrir líkamann að sitja mikið, eins og fylgir bæði skólagöngu og vinnu. Vertu búinn að ákveða fyrirfram hvenær þú ætlar á æfingu og stattu við það! Það getur hjálpað svo mikið að taka frá 40 mín til klukkutíma á dag í æfingu þar sem maður kemur endurnærður til baka. Ef þú ert rosalega upptekinn á daginn, vaknaðu þá klukkutíma fyrr og æfðu þá (ég lofa að það venst!)

7. Fáðu nægan svefn: Svefn er mjög mikilvægur og má ekki láta hann mæta afgangi. Reynum að ná að lágmarki átta tíma svefn.

8. Mættu í tímana og skrifaðu glósur: Eftir að ég byrjaði í háskóla sá ég að það er nauðsynlegt að hafa með sér fartölvu þar sem hægt er að hlaða niður glærunum sem kennarinn er með. Svo skrifa ég niður því sem kennarinn bætir við glæruna svo ég hafi meira samhengi þegar ég skoða efnið síðar.

Njóttu þess að vera í skóla og læra nýja hluti, ekki missa þig of mikið í stressinu. Það er krefjandi að vera í námi en ef maður skipuleggur sig vel og sinnir náminu þá gengur allt betur!

Ef þig langar að fylgjast með hvernig ég tækla skipulag fyrir skóla og vinnu þá getur þú fylgst með mér á Instagram
-Ása Hulda

Þér gæti einnig líkað við