Babyshower

Það var heldur betur komið mér á óvart á föstudaginn með babyshower.

Við erum bæði í fríi en förum lítið sem ekkert. Erum með kettling heima svo við erum ekki að fara í löng ferðalög og síðan er grindargliðnunin orðin svo slæm að við erum ekki einu sinni að fara í stuttar dagsferðir. Svo ég er búin að vera með mjög svo eirðarlausan mann heima sem er búinn að vera duglegur að draga mig út í stúss ferðir, sem hann er yfirleitt ekki til í. En hann þurfti að skreppa örsnöggt í Elko og ég ætlaði að nýta tækifærið og skjótast aðeins í Smáralind á meðan, en hann vildi endilega koma með mér í Smáralind sem er mjög ólíkt honum. Og hann var ekki einu sinni að reka á eftir mér, bara ósköp rólegur, sem hann er alls ekki í verslunarmiðstöðvum.

Nú á ég ekki mikið eftir af meðgöngunni og er því einkennisfatnaður minn mest megnis föt af manninum mínum ef við skreppum út í búð eða í stússferðir. En fyrst að ég ætlaði í Smáralind þá ákvað ég nú að skella mér í sokkabuxur og kjól svo ég liti nú ekki út fyrir að vera alveg búin að gefast upp á öllu. Sem var ágætt af því á meðan við vorum úti þá voru vinkonur mínar og fjölskylda heima hjá okkur að undirbúa óvænta veislu þegar ég kæmi til baka.

En ég var heldur betur hissa þegar ég labba inn og sé allt eldhúsborðið fullt af veitingum og skreytingar út um allt og svo koma allir framm. Ég var alls ekki að reikna með babyshower-i og vissi ekki alveg hvað ég átti að gera við sjálfan mig, þetta var allt voða óvænt.

Veitingarnar voru meiriháttar og skreytingarnar einnig. Elska hvað vinkonur mínar og fjölskylda eru alveg með á hreinu hvað mér þykir best að borða í veislum.
Kaka með hvítsúkkulaðimús, heitan brauðrétt, ostar, ávextir, eplapæ og frönsk súkkulaðikaka. Allt svo ótrúlega gott.

Hluti af gjöfunum sem við fengum. Prjónuð teppi, föt og nauðsynjar fyrir barnið. Ásamt heimferðarsetti sem ég deili þegar litla klæðist því. Við erum komin með flest allt sem þarf, allavega þessi stærri hluti svo viið fengum pening til að kaupa það sem vantar uppá.

Alveg yndislegur dagur og erum við ótrúlega þakklát fyrir fólkið í kringum okkur og sú litla ansi heppin.

Instagram -> ingajons

Þér gæti einnig líkað við