Ég elska að fá pakka. En þar sem ég á bara afmæli einu sinni á ári, jólin eru líka bara einu sinni á ári og ég á engan kærasta sem gefur mér gjafir, þá ákvað ég að skrá mig í svona áskriftar-pakka. Ég skráði mig í tvo áskriftarpakka til að byrja með, svo ætla ég að vega og meta eftir 3 mánuði hvort ég ætli að halda báðum áfram, engum eða bara öðrum þeirra. Þetta er bæði snyrti- og förðunarvöru pakkar. Ég er búin að fá annan pakkann í hendurnar og langar mig að segja ykkur aðeins frá honum núna. Svo mun ég segja ykkur frá hinum pakkanum líka þegar ég fæ hann í hendurnar.
Áskriftarpakkinn sem ég ætla að segja ykkur frá núna heitir BABE BOX
Hann er dýrari pakkinn af þeim tveimur sem ég skráði mig í, en á móti kemur að það eru einungis full size vörur í þessum pakka. Allar vörurnar eru cruelty free og koma frá ýmsum vörumerkjum. Flestar eru þetta vörur sem koma í takmörkuðu upplagi og hvert box er að andvirði a.m.k. 80 pund, eða sirka 12.700 kr.
Það er einungis hægt að panta nóvember boxið í viku í viðbót, eftir það verður það ekki fáanlegt lengur, því þá verður byrjað að selja desember boxið. Í nóvember boxinu var að finna gervi-augnhár, augn-háralím, varalit, handáburð og krem kinnalit.
ÞETTA eru áskriftarleiðirnar sem eru í boði á Babe boxinu:
- 1 mánuður í einu, fyrsti mánuðurinn frír, 29 pund á mánuði
- 3 mánuðir, 27 pund á mánuði
- 6 mánuðir, 26 pund á mánuði
- 1 ár, 24 pund á mánuði
Það er alltaf frí sending á boxunum, nema þegar þú velur að fá fyrsta mánuðinn frían, þá þarftu að borga sendingu fyrir ókeypis boxið, og kostar sendingin 7,95 pund.
Ég keypti mér einn mánuð í einu til að geta fengið fyrsta mánuðinn frítt. Þá get ég líka séð hvort ég fíli þetta. Mér finnst ótrúlega gaman að fá svona pakka, svo það kæmi mér ekkert á óvart ef ég myndi halda áfram báðum áskriftunum. Núna bíð ég bara spennt eftir næsta pakka!
Ég lagði inn pöntunina 3.nóv, sendingin var send af stað 5.nóv og hún var komin á pósthúsið hér á Akranesi þann 18.nóv. Ég þurfti svo að greiða á pósthúsinu 1.201 kr. Þannig að maður getur gert ráð fyrir því að þurfa að borga sirka 4.500 kr fyrir boxið sjálft og svo 1.200 kr þegar boxið kemur til landsins, sem gera þá samtals 5.700 kr. Sem er nú ekki mikið fyrir box með vörum að andvirði rúmlega 12.000 kr.