Tue May 24 2016

Ófrjósemi | Ertu ólétt?

Snædís Bergmann

Það getur verið ótrúlega erfitt að takast á við ófrjósemi. Þegar ákvörðun er tekin um að eignast barn myndast mikil eftirvænting og spenna. Þú býst ekki við því að þetta verði eitthvað vandamál, en sársaukinn og vonbrigðin eru mikil þegar það gengur ekki eins og maður vill að það gangi. Það tók mig um 10 mánuði að verða ófrísk, það þykir kannski ekkert svo langur tími en biðin er samt sem áður löng og nokkur þungunarpróf í ruslinu. Vandamálið mitt er að ég hef ekki alltaf egglos og þurfti því að fara á lyf sem hjálpar líkamanum að framkvæma egglos, ég var heppinn að þetta tók ekki lengri tíma en raun ber vitni og er ég þakklát fyrir það því það er því miður ekki svoleiðis hjá öllum. Spurningu eins og <em>Hvaaa á ekkert að fara skella í eitt barn?</em> getur verið mjög erfitt að fá en ég fékk samt sem áður að heyra hana í ófá skipti. Ég og vinkona mín Ragnheiður, sem var í sömu sporum og ég, hjálpuðum hvor annarri mikið og var ómetanlegt að hafa svona góðan stuðning. Ragnheiður hefur eins og ég ekki talað mikið um þetta vandamál en birti stöðuuppfærslu nýlega og fékk ég leyfi til að deila með ykkur færslunni sem hafði virkilega mikil áhrif á mig.

<em>Í gær fór ég á árshátíð sem er ekki frásögu færandi nema ég fór edrú og á bíl einfaldlega því mig langaði ekki til þess að fá mér í glas eftir erfiða viku. Á svona viðburðum er yfirleitt spurt hvort þú sért að drekka og þér boðið áfengi. Ég sagði nei við hvorugu og þá kom spurningin ,,ertu ólétt"? Hefur fólk enn ekki lært að það á aldrei að spyrja konu þessarrar spurningar bara aldrei! Þessi umræða er svo þörf í okkar litla samfélag. Það er annað hvert par að glíma við ófrjósemi og öllu sem því fylgir. Ófrjósemi er ekkert grín og reynir mikið á andlega líðan fólks. Eilífa biðin, spenningurinn fram að næsta þungunarprófi, vonleysið sem heltekur eftir að prófið reynist neikvætt, erfiður (sprautu) undirbúningur fyrir meðferðir, allar læknisheimsóknirnar, kostnaðurinn, meðferðin sjálf, svo ég tala nú ekki um eftirvæntinguna eftir meðferðina, því auðvitað tekst þetta þegar þú færð aðstoð fagaðila.</em>

En gráturinn þegar konunni fer að blæða er óumflýjanlegur og enn og aftur fyllist vonleysið öll pláss í hjartanu.

<em>Næst þegar þú kæri lesandi spyrð konu/par hvort hún/þau séu ólétt hugsaðu þig tvisvar um. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Ófrjósemi er ekkert til að skammast sín fyrir og er hvorki mér né þér að kenna og það er löngu komin tími til að stíga út úr myrkrinu. Vonandi hjálpar þetta öllum sem þjást í hljóði og skömm.</em>

Ég og Ragnheiður <3

Ragnheiður endar pistilinn sinn með setningu sem við megum öll tileinka okkur. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Við vitum aldrei hvort par sé búið að ganga í gegnum erfiðar meðferðir eða nýlegan fósturmissi. Munum að passa okkur á því hvað við segjum og við hvern. Tökum börnin okkar aldrei sem sjálfsögðum hlut, því það er svo sannarlega ekki sjálfsagt að eignast barn. *Ef einhverjir eru í sömu sporum og Ragnheiður og vilja tala við hana er það sjálfsagt mál að hafa samband við hana <a href='https://www.facebook.com/ragnheidur.helgadottir' target='_blank'>hér</a>* Snædís Bergmann <3
Jóna Margrét Valgeirsdóttir

Tue May 24 2016 22:12:02 GMT+0000 (GMT)

Takk fyrir þessa flottu grein, mjög þarft umræðu efni, er sjálf búin að ganga í gegnum allt þetta, er núna svo sátt við að hafa ættleitt barn, en það er samt dýrt og langt og erfitt ferli. Gang þér og vinkonu þinni vel :)