Tue Sep 04 2018

Fæðingarsagan mín

Aníta Rún

Ég sagði ykkur frá því að ég yrði gangsett aðeins fyrir settan dag vegna <a href='http://lady.is/articles/anita/article/Axlarklemma' target='_blank'>axlarklemmu</a> í fæðingu hjá Benjamín. Ég fór í vaxtarsónar 7. ágúst, gengin 37 vikur til að athuga stærðina á stelpunni, hún reynist þá vera 3780 gr. sem þýðir að við fulla meðgöngu yrði hún um 18-19 merkur, sem þá augljóslega yrði töluvert yfir 4 kílóin. Sama dag hitti ég ljósuna mína í mæðravernd og fæðingarlækni til að fara yfir stöðuna. Hún pantar fyrir mig tíma í gangsetningu sem yrði í síðasta lagi þann 15. ágúst, þá gengin 38 vikur slétt. Við biðum spennt eftir símtalinu frá Landspítalanum til að gefa okkur nákvæman tíma, og fáum við símtalið á sunnudeginum (12. ágúst) og gefinn tími kl 08:15 þann 15. ágúst. "Hjúkket! 13. ágúst slapp!" En Baltasar, þessi eldri á afmæli þá og vildi ég svo mikið að þau fengu sitt hvoran daginn. Miðvikudagurinn 15. ágúst rennur upp og erum við mætt á slaginu 08:15 og hinkrum í smá stund þar til við erum kölluð inn. Við förum í mónitor, þar er athugað hjartslátturinn hjá stelpunni, samdrættir mældir og blóðþrýstingurinn hjá mér mældur. Eftir mónitor er farið með okkur í aðra stofu og athugað hversu hagstæð ég er. Það eru gefin stig frá 1-8 og ef það er fyrir neðan 5 stig þá eru gefnar gangsetningar töflur, en ef konan er yfir þá er reynt að sprengja belginn. Ég fékk 3 stig.

<em>Mynd eftir <a href='https://www.facebook.com/steinthorssonphotography/?fb_dtsg_ag=AdxU_-KZ330ZS19WX_qzf_ljD6lmLhs-jcB5ZmTS047cmw%3AAdyPvMzFEuR_9yBLzIJVrU-WKDwwPkRvE7t8KoIt4LHeoA' target='_blank'>Steinthorsson photography</a></em> Fyrsta taflan er tekin upp á Landspítala og í kjölfarið er farið heim með 7 töflur sem á að taka 2ja tíma fresti þar til hríðar byrja. Ef hríðar byrja ekki eftir þessar töflur þá er reynt aftur daginn eftir. Ég sýndi frá þessu ferli inn á Snappinu mínu og fylgdist fólk spennt með þessu og fékk ég ófá skilaboð þess efnis að fólk væri endalaust að endurræsa snappið til að athuga hvort það væri eitthvað að gerast. Ég fékk alveg pínu móral yfir því að það gerðist ekkert og væri að láta fólk bíða bara. En að öllu gríni slepptu þá var ótrúlega gaman að fá skilaboð frá fólki yfir gangsetninguna og fá stuðning og hríðarstraumana. Kunni verulega að meta það! Dagurinn líður og klukkan er orðin 11 um kvöld. Ég er búin með 7 töflur og á 1 eftir. Samdrættirnir eru farnir að vera töluvert harðari, og hringi ég upp á spítala og sögðu þær mér bara að sleppa að taka þessa síðustu og ef þetta dettur niður að byrja þá bara aftur daginn eftir, úthvíld. Sem ég gerði. Ég var vakandi til sirka 2 um nótt vegna verkja, síðan hef ég náð að sofna örlítið og vaknað um 4 útaf svengd. Fæ mér eitthvað að borða og held áfram að sofa. Ætli ég hafi ekki náð sirka 3-4 tíma svefn þessa nótt. Var langt frá því að vera úthvíld þegar kom að gangsetningardegi númer 2. Ég mæti 8:30 þann 16. ágúst upp á spítala aftur í skoðun. Orðin töluvert hagstæðari, mér er gefin tafla og send heim með 7 töflur til viðbótar. Heim er komið og ég fer á jógaboltann og labba um húsið til skiptis. Samdrættir verða ansi harðir strax. Tek töflu 2 og held áfram á boltanum og labba um. Klukkan er að verða 4 og ég tek 4 töfluna. Strax eftir það eru hríðar farnar að byrja. Maður finnur vel muninn. Ég er farin að þurfa anda mig í gegnum verkina, tilbúin í næsta verk og þannig er það í sirka hálftíma áður en ég hringi upp á fæðingardeild.

"Ég hugsa að nú sé komið að þessu." Við Daníel förum upp á fæðingardeild og fáum herbergi 8. Fer í mónitor og er athugað hvernig stelpan hefur það og athugað blóðþrýstinginn hjá mér og fleira. Ég læt strax renna í baðið. Ég hreinlega elska að vera í baðinu! Auðvelt að hreyfa sig og það er ákveðin verkjastilling líka. Það og gasið = Fullkomið kombó! Þess á milli fór ég á jógaboltann og hlustaði á fæðingar playlistann sem ég var búin að búa til á Spotify með slakandi tónlist, mæli með! Klukkan er um 18:00 þegar ég fer í baðið, með 4 í útvíkkun. Um klukkan 20 missi ég vatnið í baðinu. "Frábært! Nú fer þetta að gerast!" Í kjölfarið aukast verkirnir og í kringum 21/22 vil ég fá deyfingu. Ljósan mín, hún hélt að nú væri sennilega að fara koma að þessu og ég væri líklega of sein að fá mænudeyfinguna og vildi fá mig upp úr til að athuga hvernig staðan væri. -NOPE! 6 í útvíkkun og belgurinn ennþá heill! "Hvernig má það vera!??" En þá komst ég að því að það eru 2 belgir sem eru utan um barnið og var það sennilega þessi ytri sem hefur komið gat á og vatnið þaðan farið. Svo þá var fengin mænudeyfing, það gekk nú eitthvað brösulega og þurfti að stinga 3 sinnum til að ná þessu rétt, en ég var þá áberandi meira deyfð í hægri löppina og náði nánst ekkert að hreyfa hana. Fljótlega náði ég að vera verkjalaus og fór þá tíminn í spjall við ljósuna og áttum við góða stund saman, ég, Daníel og ljósan. Klukkan 02:09 segir hún við mig: "Jæja,eigum við að prufa að rembast?" þar sem ég var komin með næstum fulla útvíkkun hálftíma áður. "Ég er til í það."Segi ég og tökum við okkur stöðu. Ég finn að ég næ vel stjórninni á rembingnum og segir hún mér allt í einu að stoppa. "Stopp! Daníel, hringdu bjöllunni!" þá hafði ég náð henni vel út og var hausinn næstum allur kominn út og þurfti ég að bíða eftir að önnur ljósa kæmi að aðstoða og eftir næsta rembing. 02:12: Næsti rembingur kemur og segir hún mér að reyna að gera þetta rólega, og í þeim töluðum kemur þessi litla dama út, með fullt af hári, 4002 grömm og 51 cm. Það má því segja að þessi fæðing var drauma fæðing og þótt mér yndislegt að klára þriðju fæðinguna svona léttilega. Engin rifa og labbaði fylgjan nánst sjálf út. - Hefði ekki getað beðið um betri upplifun!

Þar sem ekki var til herbergi fyrir okkur í sængurlegunni þurftum við að leggja okkur á fæðingarstofunni og vorum við farin heim 8 tímum eftir að hún fæddist. Þetta var því frekar stutt stopp, en það er nú bara ágætt þar sem það er best að hvílast heima. Svo áttum við yndislega stund með strákunum okkar og litla nýja fjölskyldumeðliminum þegar við komum heim. Hann Daníel tók þetta ferli nánast allt upp og setti inn á <a href='https://www.youtube.com/watch?v=iSB_EtLOy-Q' target='_blank'>YouTube</a> síðuna sína fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá meira. Annars er ykkur velkomið að fylgja mér á SnapChat: Anitarung Þangað til næst, Aníta Rún

<em>Mynd eftir <a href='https://www.facebook.com/krissyljosmyndari/?fb_dtsg_ag=AdxU_-KZ330ZS19WX_qzf_ljD6lmLhs-jcB5ZmTS047cmw%3AAdyPvMzFEuR_9yBLzIJVrU-WKDwwPkRvE7t8KoIt4LHeoA' target='_blank'>Krissy.</a></em>