Fri Sep 20 2019

Breyting á baðherbergi

Aníta Rún

Jæja! Framkvæmdahjónin erum mætt aftur til leiks! Að vísu er frekar langt síðan baðherbergið varð svona semí tilbúið, en það er ekki alveg fullklárað, en það kemur að því. Það sem er að stoppa okkur að klára er að fá píparann og rafvirkjann. En mig langaði að sýna ykkur fyrir og eftir myndir af baðherberginu og segja frá lauslega frá hvað var gert.

Þetta blessaða baðherbergi tók svo sannarlega mun lengri tíma en við höfðum áætlað, og þar af leiðandi töluvert dýrara. Það voru 5 mismunandi týpur af flísum inn á baðherbergi áður. Aðeins hluti af veggjunum var flísalagður, það var gat í veggnum, já GAT inn í hjónaherbergið. Til að útskýra það aðeins nánar fyrir ykkur, hillurnar sem voru í fataskápnum inn á baði voru í raun hillur úr "fataherbergi" inn í hjónaherbergi en það var búið að setja fataskáp inn í hjónaherbergi fyrir gatið í veggnum... já þetta var allt rosalega skrítið. Ég sýni þetta og meira til inn á Instagram TV hjá mér, <a href='https://www.instagram.com/tv/Bk7sAnqgxdk/' target='_blank'>hér er linkur</a> að því og öllu húsinu. Þegar allar flísarnar voru teknar af veggnum fór útveggurinn að molna niður. Við ræddum við múrarann okkar og hann sagði okkur að taka allan lausan múr sem hægt væri með "léttu banki" og síðan þurfti bara að múra útvegginn að hluta til upp á nýtt. Við þurftum að fá múrara í vinnu til okkar sem svo heppilega vildi til að er frændi minn og var kominn í verkið strax. Hann hjálpaði okkur (þegar ég segi okkur, þá meina ég Daníel) að laga vegginn, í kringum gluggann og að flota gólfið uppá nýtt. Þessa grunnvinnu þorðum við ekki að taka sénsin á að gera sjálf því ef eitthvað klikkar þá er það mjög dýr biti að kyngja. Því fengum við mann í að gera þetta svo þetta væri allt upp á 10. Gatið í veggnum var lokað með tilbúnum steypukubbum frá <a href='http://www.murbudin.is' target='_blank'>Múrbúðinni</a> og skiptum við út einum timburvegg sem var á milli baðherbergisins og þvottahússins og settum alveg eins kubba þar líka. Það var þessi stærðarinnar Sturta.is sturtuklefi þegar við fluttum og fór hann strax út, við ætluðum að setja hornbaðkar sem við fengum gefins inn í staðin en þá voru engin blöndunar tæki til staðar og þyrfum við þá alltaf að fara í stórtækar breytingar til að setja það inn svo við gáfum það áfram. Daníel þurfti þá að fræsa fyrir öllum niðurföllum, blöndunartækjum og rafmagni sem þurfti. Þetta var þvílík ryk og brot vinna og varð heimilið í kjölfarið allt út í ryki. Ég er ennþá að finna staði sem eru fullir af ryki og við vorum búin að þessu í apríl! Nánar tiltekið 16. apríl. En eins og ég skrifaði áðan, að þá er það ekki alveg tilbúið en það er ekki í okkar höndum að klára.

Það að finna allt inn á nýja baðherbergið tók líka sinn tíma. Við fórum fram og til baka hvernig við ætluðum að raða því og hversu stórt baðkarið ætti að vera, innréttingin, sturtuhornið og fleira og fleira. Við fórum í marga langa leiðangra með börnin í leit að því rétta fyrir okkur. Lengi vildum við fá frístandandi baðkar en vorum fljót seld af þeirri hugmynd, síðan vorum við að íhuga að fá okkur venjulegt baðkar en síðan var okkur seld hugmyndin að vera með sturtubað, þau eru hærri upp og dýpri í leiðinni, sem er hentugt fyrir börn sem sulla vatni út um allt og þægilegra fyrir fullorðna að liggja í. Síðan var það innréttingin. Við keyptum hana í mjög miklu flýti, en hún var á rýmingarsölu og var verslunin að hætta. Við fengum hana á 50 þúsund með 2 vöskum og blöndunartækjum. Ekkert smá góður díll sem við duttum inná þar. Fyrirtækið auglýsti þetta á Facebook og Daníel var mættur þangað eftir hálftíma að sækja hana. Við ákváðum þó að hafa bara 1 vask, ég fékk að ráða þar. Ég vildi frekar meira borðpláss heldur en hafa 2 vaska til að þrífa. Þegar það var komið að því að velja flísar vildum við hafa þær gráar og sama lit á gólfi og veggjum. Meira spáðum við ekki í. Ekki fyrr en við fórum í Múrbúðina að versla flísarnar og þar var sölumaður sem við töluðum við nefndi eitthvað sem kallast "hálkuvörn" eða eitthvað álíka. Flísar eru auðvitað mis sleipar og ekki sniðugt að hafa þær sleipar inn á baði með blautar litlar tásur. Svo þar kom góður punktur varðandi flísaval. Við enduðum á að versla flísarnar í Múrbúðinni þar sem þær voru áberandi ódýrastar þar.

Við versluðum stærsta hluta baðherbergisins í <a href='http://www.murbudin.is' target='_blank'>Múrbúðinni</a>, enn og aftur. Við unnum gott og skemmtileg samstarf eins og áður og fundum allt sem við þurftum þar. Klósettið sem við enduðum á er ekki með rauf niður úr þar sem vatnið sturtast niður heldur kemur vatnið bara frá einum stað. Hliðarnar á skálinni eru heldur ekki með neinar línur og auðveldar það öll þrif. Sturtuglerið keyptum við í <a href='http://www.murbudin.is' target='_blank'>Múrbúðinni</a>, það er 120cmx2m og var þetta lang ódýrasta sturtuglerið sem ég fann. Blöndunartækin í sturtuna og baðkarið keyptum við líka í Múrbúðinni og það var sama sagan að segja þar, lang ódýrast sem ég gat fundið, miðað við gæði og stærð á sturtuhaus til dæmis. Við erum búin að kaupa handklæðaofn hjá þeim líka en hann er ekki kominn upp ennþá, en við þurfum að fá pípara í það verk. Spegillinn sem ég hef þráð allt mitt líf er úr Glerborg, hann er 160cmx110cm með dimmer led lýsingu bakvið. Við fengum örlítið betra verð hjá þeim heldur en Íspan. Hann tók um 3 vikur að fá afhentann. Við erum svo með Philips Hue ljós sem hægt er að breyta lýsingu, blá, gul, hvít lýsing og með dimmer og mæli ég hiklaust með. Það sem er eftir er að fá nýja hurð (við munum skipta út öllum hurðum í húsinu einn daginn), tengja dimmerinn í spegilinn og fá handklæða ofninn upp, annars er allt orðið tilbúið og er ég ótrúlega ánægð með útkomuna, en hann Daníel var 2 mánuði að græja þetta, en eins og ég sagði í byrjun að þá tók þetta aðeins meiri tíma en við héldum.

Þangað til næst! Aníta Rún Instagram: <a href='http://www.instagram.com/anitarg' target='_blank'>Anitarg</a> *Þessi færsla er unnin að hluta til í samstarfi í formi afsláttar.*