Áramótaheit

Ég er ekki mikið fyrir það að strengja öfga áramótaheit. Aðalega af því ég veit að ég mun ekki standa við það.
,,Hætta að borða nammi‘‘
,,Byrja á fullu í ræktinni‘‘
Og svo framvegis.

Ef ég banna mér eitthvað, þá vil ég það meira eða meiri líkur á að ég svíki það. Tengi mikið við Joey í Friends þegar Ross sagði við hann að barnapían þeirra væri ,,off limits‘‘ og Joey mætti ekki reyna við hana. Þá vildi Joey hana ennþá meira.

Í staðin vil ég setja mér raunsæ áramótaheit, eða markmið. Og þetta eru sömu markmið og ég hef gert undafarin ár.
Markmið sem gerir mig að betri manneskju, maka, vinkonu, dóttir og vinnufélaga.
Í stuttu máli: Halda áfram minni sjálfsvinnu, lifa heilbrigðum lífstíl og verða betri útgáfa af sjálfri mér. En umfram allt að vera hamingjusöm.

Að rækta sambandið. Þið sem hafið lesið færsluna mína um barneignir vitið eflaust hvað ég á við, ef ekki þá getið þið lesið hana HÉR. En þar talaði ég um hversu mikil áhrif ófrjósemi getur haft á samband tveggja aðila. Markmið mitt er einfaldlega að rækta okkar samband og huga betur að því. Fara reglulega á stefnumót, aðalega að koma okkur út úr húsi og gera eitthvað saman, sérstaklega þar sem við erum rosalega heimakær.

Að rækta vináttusamböndin. Hver kannast ekki við að reyna að finna tíma sem báðir aðilar eru lausir til að gera eitthvað? Það eru allir í vinnu í dag, námi eða jafnvel bæði vinnu og námi, eru að sinna heimili og fjölskyldu. En við gefum okkur tíma í það sem skiptir okkur raunverulega máli. Ef báðir aðilarnir vilja leggja sig fram í að rækta vináttuna þá finnst tíma.

Að hrósa. Ég ætla að reyna að vera duglegri í að hrósa öðrum. Maður nefnilega hugsar oft fallega til einhvers sem maður ætti að segja upphátt. Það gerir svo mikið fyrir hinn aðilann. En munum að hafa það einlægt, ekki hrósa einhverjum um bara eitthvað, aðeins til þess að hrósa.

Tala fallega um/við mig sjálfa. Og ekki gleyma að hrósa ykkur sjálfum líka. Ef þú ferð að rakka þig niður og setja út á þig, þá ferðu að trúa því á endanum. Í stað þess, ætla ég að einblína á mína kosti og hífa mig þannig upp. Vera stolt af því sem ég afreka í stað þess að einblína á það sem fór úrskeiðis eða hefði getað farið betur.

Verða umhverfisvænni. Ég kíkti á heimasíðuna hjá Vistveru um daginn og eftir að hafa skoðað hvað er í boði hjá þeim þá varð ég meðvitaðri um að það er plast í nánast öllum nauðsynjavörum sem við notum dagsdaglega.
Förðunarvörur, hárvörur, bómullarpinnar, plástrar, tannþræðir og nestisbox. Þetta er aðeins brot af því sem er í boði hjá þeim og ég stefni á það að skipta öllu út smátt og smátt. Við getum alltaf gert betur og verðum einhversstaðar að byrja, ekki satt?

Eyða minni pening í vitleysu. Kaupa frekar færri og veglegri flíkur og hluti í staðin fyrir ódýrari sem eru nánast ,,einnota“. Forðast ,,fast-fashion“ verslanir.

Skora á sjálfa mig. Hvort sem það er í vinnu eða námi. Fara oftar út fyrir þægingarrammann og prufa að gera hluti sem mig hefur lengi langað að gera en ekki þorað.

Færast nær vegan lífstílnum. Ég hef verið grænmetisæta í nokkur ár núna (eða pescatarian víst, þar sem ég borða fisk). Mig langar að enda á því að vera vegan, eða borða plöntufæði.

Inga

 

Þér gæti einnig líkað við