Jæja, þá er komið að frekari uppfærslu á Ítalíferðinni okkar mæðgna.
Staðan er þannig núna að við erum búnar að kaupa flugið og erum byrjaðar að bóka hótelin! Við fljúgum til Mílanó þann 3. júní og komum heim aftur þann 24. júní. Við lendum heima rétt eftir miðnætti þann 24. júní svo í raun erum við að fara heim þann 23. júní. Við erum því að tala um næstum því þriggja vikna ferð, eða 20 daga (19 nætur). þegar flugið var orðið klappað og klárt gátum við loksins farið að skipuleggja ferðina að alvöru!
Við byrjuðum á því að setja niður ferðaáætlun, hvaða staði við ætlum pottþétt á og létum nokkra staði víkja. Okkur langar svo að geta notið ferðarinnar. Við viljum ekki sitja í lest á hverjum einasta degi til að komast á sem flesta áfangastaði, frekar viljum við gista 1-4 nætur á hverjum stað og njóta þannig betur þeirra staða sem við förum á. Ég held að planið sem við erum komnar með núna sé nokkuð skothelt. En það lítur einhvernveginn svona út:
Lendum í Mílanó 3. júní og förum strax til Verona. Svo förum við á þessa staði (í þessari röð): Feneyjar, Rimini, San Marino, Róm, Amalfi Coast, Pisa, Flórens, Cinque Terre og Mílanó. Við erum núna búnar að panta okkur gistingu í Verona og á Amalfi Coast.
Hótelið sem við verðum á í Verona heitir Arena Hotel og er mjög miðsvæðis. Þetta er bara mjög plain hótel, þarna vorum við aðallega að spá í staðsetningunni og hagstæðu verði. Þarna gistum við í 3 nætur frá 3.-6.júní og er þetta því okkar fyrsti áfangastaður í ferðinni.
Við ákváðum að leyfa okkur smá lúxus á Amalfi Coast og völdum okkur því soldið flott hótel þar. Við pöntuðum okkur herbergi með sjávar útsýni og miðað við myndirnar þá er þetta útsýni ekkert grín. Við ákváðum að drífa okkur að panta þetta þar sem það voru einungis 2 herbergi eftir á þessum dagsetningum sem við þurftum. Hótelið heitir Hotel Torre Saracena og er í Praiano og þar gistum við í 3 nætur frá 10.-13.júní.
Svo erum við bara á fullu núna að skoða gistingar þar sem hagstætt verð og góð staðsetning er aðaláherslan hjá okkur. Við verðum náttúrulega að ferðast um allt með lest þá er gott að vera sem mest miðsvæðis og þurfa ekki að taka leigubíla eða lestar alla daga til að komast leiðar sinnar.
Ég mun svo halda áfram að leyfa ykkur að fylgjast með.
Takk fyrir að lesa