Allt til að verða mjó

Í mörg ár átti ég í mjög óheilbrigðu sambandi við mat og æfingar. Mig langar til að segja ykkur frá minni reynslu og vonandi get ég þannig aðstoðað einhverja við að vinna í sínum málum eða koma auga á einkenni hjá sjálfum sér eða einhverjum nákomnum. Það fyrsta sem maður þarf að gera til að ná bata er að viðurkenna að þetta sé orðið vandamál og maður þarf að VILJA gera eitthvað í því. Lengi vel vissi ég að það sem ég var að gera var óhollt og jafnvel hættulegt, en mig langaði bara alls ekki til að fitna og þar af leiðandi lét ég þetta viðgangast. Útlitið var mikilvægara en heilsan mín.

Hjá mér byrjaði þetta allt saman árið 2009 þegar ég var 28.ára gömul og var að undirbúa mig fyrir mína fyrstu fitness keppni. Þar á undan hafði ég aldrei pælt mikið í mat né æfingum. Ég stundaði Body Pump og einhverjar lyftingar bara svona þegar mér datt í hug og borðaði bara þegar ég var svöng. En ég hafði séð myndir af fitness mótum og þetta heillaði mig strax, ég vildi verða svona!

Fyrsta mótið mitt var Bikarmótið í Nóvember 2009, og leitaði ég til þjálfara þegar það voru um 2-3 vikur í mótið. Sá þjálfari benti mér á að ég þyrfti að fara í róttækar aðgerðir til að ná sviðsformi í tæka tíð. Ég man ekki nákvæmlega hvað það var sem ég átti að borða en það var mjög lítið og engin kolvetni. Tvær æfingar á dag og mikið af „brennsluæfingum“. Einnig benti hann mér á ólöglegar „brennslutöflur“ sem ég tók svo í ofanálag. Ég man að á einni viku léttist ég um hálft kíló á dag! Ég hugsaði ekkert um hvað þetta væri hættulegt, heldur fannst mér þetta bara frábært. En ég man líka eftir fyrsta átkastinu eins og það hafi gerst í gær. Á þessum síðustu 2-3 vikum fyrir mótið byrjaði ég að fá miklar cravings. Ekki endilega cravings í eitthvað sérstakt, heldur var líkaminn minn bara að kalla á EITTHVAÐ. Hann var í svelti. Ég átti náttúrulega ekki til nammi eða neitt þannig, en ég átti brauð þar sem dóttir mín borðaði brauð. Ég byrjaði á einni brauðsneið og borðaði hana á núll einni. Ekkert smjör eða álegg. Bara þurrt brauð. Svo fékk ég mér aðra. Svo aðra. Ég veit ekki hvað ég borðaði margar sneiðar. En ég man að þetta var einhver tilfinning sem ég réði ekki við. Ég bara varð að borða. Eftir átkastið upplifði ég svo þvílíkt samviskubit og fannst ég ömurleg og glötuð að geta ekki haldið þetta út, það voru nú bara nokkrir dagar í keppni. Eftir keppni fór ég svo strax að þyngjast. Ég datt samt ekkert í sukk eða neitt þannig, heldur fór ég bara að borða venjulega. Ég vann á líkamsræktarstöð svo ég hélt áfram að æfa á fullu, minnkaði kannski eitthvað við „brennsluæfingarnar“ en samt tók ég þær aldrei alveg út, því ég vildi ekki fitna. Ég var endalaust að reyna að halda mér jafn mjórri og ég var þegar ég keppti. Því mjórri sem ég varð því fleiri hrós fékk ég og þá leið mér eins og ég gæti verið stolt af sjálfri mér fyrir að geta neitað mér um hitt og þetta. Sjálfstraustið mitt stjórnaðist algjörlega af því hversu þung ég var og hversu lengi mér tókst að kötta í einu án þess að „missa það“ (detta í átkast).

Þennan lífstíl stundaði ég svo meira og minna í 6 ár. Ég faldi þetta fyrir öllum sem ég þekkti, ég sagði ekki sálu frá, þetta var bara mitt leyndarmál. Ég þoldi ekki hvað ég fitnaði mikið eftir mót svo ég fór alltaf fljótlega að hugsa um annað mót og var hjá hinum og þessum þjálfurum. Sumir vildu byggja mig upp áður en ég færi að kötta og ég reyndi alltaf að fara samviskusamlega eftir prógrömmum sem mér voru gefin. En ég endaði alltaf á því að borða minna en mér var sagt og æfa meira en mér var sagt. Og svo endaði það með átköstum, sem með árunum urðu bara stærri og tíðari. Á tímabili var ég að taka eitt til tvö átköst í hverri viku. Eitt árið tók ég átkast kvöldið fyrir keppni. Eftir átkast varð ég svo alltaf að taka extra langar brennsluæfingar til að reyna að brenna því sem ég hafði borðað. Ég lét gleypast við öllum töfraráðum, kremum, svitabeltum og þess háttar. Svo keypti ég mér brennslutæki til að hafa heima hjá mér og tók oft brennslu þar á kvöldin í sauna búning. En svo komu tímabil inná milli þar sem mér gekk ágætlega og ég náði að fara eftir prógrömmum sem mér voru gefin. En þegar ég skoða þessi prógröm í dag þá sé ég hversu sjúkt þetta var. Ég var að borða um 800-900 hitaeiningar á dag, taka 60-90 mín brennsla á morgnanna og lyftingar seinnipartinn með 20 mín brennslu eftirá. Og öll fæðubótaefnin, jesús minn góður! Ég eyddi um 15-20 þúsund hver einustu mánaðarmót í fæðubótaefni. Ímyndið ykkur hvað ég hefði getað farið í margar utanlandsferðir fyrir þennan pening! Þar að auki eyddi ég um 15-20 þúsund á mánuði í þjálfara og var með líkamræktarkort bæði hjá Reebok og World class til að geta falið fyrir fólki hversu oft og mikið ég var að æfa. Þannig að um hver einustu mánaðarmót eyddi ég um 50 þúsund krónum í þennan brenglaða lífstíl, allt til þess að reyna að verða grennri.

En svo kynntist ég þjálfara fyrir síðasta mótið mitt árið 2015 sem hjálpaði mér alveg helling. Hann byrjaði að koma hugmyndunum inní hausinn á mér að ég mætti ekki borða of lítið og ég mætti ekki æfa of mikið, það kæmi alltaf í hausinn á mér. Ég fór nánast alveg eftir prógrömmunum hans því hann náði að telja mér trú um að ég þyrfti að gera þetta svona ef ég vildi komast á verðlaunapall í fitness, alveg sama þótt það tæki mig lengri tíma og ég yrði ekki „mjó“ á núll einni. Átköstin voru samt enn til staðar og refsingin sem fylgdi í kjölfar þeirra. En inná milli var ég mjög samviskusöm að fara eftir hans ráðleggingum og þarna vil ég meina að minn bati hafi byrjað af því að ég var farin að viðurkenna að það sem ég var að gera væri ekki eðlilegt, þó ég hafi ekki verið tilbúin til að hætta því strax. Ég var ennþá í þessum vítahring þar sem allt snerist um að líta út á ákveðinn hátt og ég var ekki ánægð nema vigtin væri á leiðinni niður.

Ég hafði aldrei orðið eins grönn eins og fyrir síðasta mótið mitt árið 2015. Þegar ég vigtaði mig á mótsdag var ég 50,9 kr. Ég hafði ekki verið svona létt síðan ég var 18 ára. En vá, hvað ég var ánægð og stolt af sjálfri mér. Þó ég hafi ekki náð neinu verðlauna sæti á mótinu þá fannst mér eins og ég hafði sigrað heiminn. Ég var staðráðin í að keppa strax aftur og ætlaði þá að ná að gera enn betur. Jafnvel verða 40 og eitthvað kíló eins og ég heyrði að sumar stelpurnar voru á keppnisdag. En það var svo í byrjun 2016 þegar ég var að undirbúa mig fyrir mótið að ég gafst upp. Í hreinskilni sagt þá man ég ekki hvað gerðist, ég bara allt í einu nennti þessi ekki lengur. Ég var orðin rosalega þreytt, var nýbúin að upplifa mikla ástarsorg, orðin þunglynd og farin að skera sjálfa mig. Þarna vissi ég að ég þyrfti að leggja fitnessið á hilluna í einhvern smá tíma til að hugsa um sjálfa mig. Ég var orðin hrædd um að ég myndi deyja og var farin að upplifa að öllum væri alveg sama um mig og allskonar vitleysu.

Þetta var mitt leyndarmál í mörg ár. Enginn vissi neitt því ég var svo góð að fela þetta. Ég talaði við fólk um hvað fitness væri æðislegt, hvað mér liði vel og hvað ég væri að borða mikið af hollum og fjölbreyttum mat, þegar í raun og veru var þessi lífstíll hægt og rólega að drepa mig. Kannski ekki í bókstaflegri merkingu, en þetta var ekkert líf sem ég var að lifa. Eintómur feluleikur, niðurrif og refsingar.

Ég vill meina að það hafi verið árið 2017 sem ég virkilega náði bata. Þó þetta sé að sjálfsögðu endalaus vinna sem hættir aldrei, þá hef ég ekki tekið átkast í um tvö ár, ég er hætt að rífa mig niður fyrir vigtina og refsa mér fyrir að borða óhollt. Ég á það til að líta í spegilinn og finnast ég of feit. En vitiði hvað? Ég gerði það líka þegar ég var 55 kíló. Það er alveg sama hvað maður verður mjór, ef hausinn á manni er ekki í lagi, þá lagast hann ekki við að grennast. Eins og í mínu tilviku, þá versnaði hann bara. Mér hefur aldrei liðið eins illa eins og þegar ég var sem grennst. Í dag er ég laus við þunglyndið, þreytuna og sjálfskaða hugsanirnar. Ég stunda hreyfingu sem mér finnst skemmtileg og hef ekki farið á „brennsluæfingu“ í eitt og hálft ár. Ég er ekki jafn grönn og ég var, en ég er heilbrigð, bæði líkamlega og andlega. Lífið snýst um svo mikið meira heldur en útlitið og ég neita að láta vigt eða fitumagn stjórna því hvernig mér líður eða hvernig ég lifi mínu lífi. Ég vil sanna það fyrir sjálfri mér að ég sé sterkari en það, það er ég sem ræð hér en ekki vigtin!

Þetta er bara mín saga, mín reynsla og hún endurspeglar að sjálfögðu ekki alla sem hafa keppt í fitness eða farið í einhverskonar megrun. Hver og einn hefur fullkomlegan rétt á sinni reynslu og sínum áhugamálum. Þessi grein er alls ekki ætluð til að dissa fitness á neinn hátt og ef einhver ætlar að endurbirta þessa grein þá vona ég að orðið fitness komi ekki fram í fyrirsögninni. Þessi grein er ætluð til þess að vekja athygli á því hversu mikið ósk um grennri líkama eða smá megrun getur farið út í rugl og öfgar. Förum bara varlega og hugsum vel um okkur, við eigum það skilið, algjörlega óháð vigt eða fituprósentu.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við