Núna eru komnir 10 dagar síðan við fengum nýju íbúðina okkar afhenta og þar er hellingur búið að gerast en jafnframt hellingur eftir.
Húsið er byggt árið 1994 og var margt í íbúðinni komið á tíma enda búið að vera síðan í upphafi.
Ætla að deila með ykkur nokkrum myndum frá ferlinu, en ég mun svo skella í færslu þegar allt er tilbúið og við erum loksins flutt inn á nýja heimilið.
Fyrstu dagarnir fóru í það að rífa af gólfefni, hurðar, gardínur og innréttinguna inn á baðherberginu svo eitthvað sé nefnt, en þessu öllu ætlum við að skipta út fyrir nýtt.
Einnig eru margir milliveggir gerðir úr spónarplötum sem smellast saman svo skilin á milli voru mjög sjáanleg ásamt því að mörg hver voru orðin ljót. Þetta erum við búin að vera að spæsla upp í og pússa á fullu – get sagt ykkur að þetta er mjög tímafrekt verkefni, en vel þess virði þegar því er lokið.
Núna erum við svo að klára að mála alla veggi en þeir voru áður í öllum regnbogans litum. Þegar það er búið þá er hægt að fara að byrja á því að leggja nýja gólfefnið og í framhaldinu setja upp hurðarnar.
Ég get ekki beðið eftir að geta flutt inn á fallegt, nýuppgert og stærra heimili en við bjuggum áður.
Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna – þar sem ég mun sýna frá þessum daglegu framkvæmdum næstu vikurnar.
Þar til næst ♡
-Sandra Birna