Akureyri

Ég skellti mér í helgarferð til Akureyrar um daginn til að mæta í brúðkaup í fjölskyldunni. Öll móðurfjölskyldan mín er frá Akureyri og dvaldi ég mikið sjálf þar sem krakki, svo mér finnst alltaf notalegt að koma þangað. Það er líka nánast alltaf gott veður fyrir norðan, án gríns. Ég keyrði úr rigningunni hér fyrir sunnan yfir í 20 stiga hita fyrir norðan um miðjan dag á föstudegi. Ég pantaði mér tvær nætur á gistiheimilinu FE accommodation í gegnum Booking.com. Ég var þar í tvær nætur í tveggja manna herbergi með sér baðherbergi. Gistiheimilið er staðsett á besta stað í bænum, það er í brekkunni mitt á milli sundlaugarinnar og Akureyrarkirkju. Þetta er alveg frekar gamalt hús, en mér fannst þetta bara nokkuð kósý. Ég var með herbergi á neðri hæðinni með geggjuðu útsýni.

Ég byrjaði á að ganga niður í miðbæ, en þar er alltaf svo skemmtileg stemmning. Ég fór svo upp kirkjutröppurnar (því má ekki sleppa þegar maður fer til Akureyrar) og fór í Lystigarðinn. Ég var bara að njóta góða veðursins og ganga um, maður á það til að vera að flýta sér of mikið, en þarna ákvað ég bara að slaka á. Um kvöldið fór ég svo út að borða með bróður mínum og konunni hans á Greifanum. Við pöntuðum okkur ostabrauðstangir í forrétt, ef þið farið á Greifann þá eru þær algjört MÖST! Bestu brauðstangir sem ég hef smakkað. Ég pantaði mér svo hálfmána og hann var einnig ótrúlega góður. Um kvöldið var svo bara rúntað um, kíkt í heimsókn og fengið sér smá hvítvín.

Laugardeginum startaði ég svo frekar snemma og fór í Kjarnaskóg að hlaupa. Hringurinn þar er um 2,2 km og fór ég þrjá hringi. En eins og flestir vita þá er skógurinn staddur í brekku, svo það voru ansi mikil viðbrigði að hlaupa í svona halla og fór ég því töluvert hægar en venjulega. En þetta var skemmtileg tilbreyting og góð áskorun að reyna að ná að hlaupa upp brekkurnar án þess að stoppa. Ég kíkti svo aðeins í Hof, Glerátorg, Hagkaup og fékk mér að borða á Lemon. Svo þurfti ég að fara að gera mig til fyrir brúðkaupið sem var haldið í sal Rauða Krossins. Þetta var ansi kósý og heimilislegt brúðkaup og það var mjög gaman að hitta mikið af fjölskyldunni, sem maður gerir alls ekki nógu oft.

Á sunnudeginum fór ég í kirkjugarðinn með blóm handa ömmu minni og kíkti svo í heimsókn til ættingja áður en ég lagði af stað heim aftur. Ég hefði alveg getað hugsað mér að vera þarna lengur, en þar sem kisan mín var kettlingafull, alveg kominn á steypirinn, þá varð ég að drífa mig heim því ég ætlaði sko ekki að missa af kettlingunum koma í heiminn.

Aðrir hlutir sem ég mæli með að gera þegar farið er að til Akureyrar er að keyra Eyjafjörðinn, borða á Bryggjunni og Bautanum, fara í Jólahúsið, fá sér Brynjuís, fara í sund og taka æfingu í Átaki með útsýni yfir sjóinn, svo eitthvað sé nefnt. Maður verður aldrei svikinn af Akureyri.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við