Akrafjallshringurinn – fjallganga

Ég og Svenni fórum Akrafjallshringinn í sumar. Þar sem við búum á Akranesi og erum búin að vera að fara í hinar ýmsu gönguferðir síðastliðið ár, þá fannst okkur vera kominn tími til þess að fara hringinn á okkar eigin fjalli, sem við höfum labbað upp á svo oft. Oftast höfum við farið upp á Guðfinnuþúfu, sem er vinstra megin á fjallinu, sem sagt vestan megin. Svo getur maður haldið áfram frá Guðfinnuþúfu upp á Geirmundartind, sem er hæsti tindurinn á Akrafjallinu, eða um 635 metra hár. Guðfinnuþúfan er sirka helmingurinn af Geirmundartind, eða um 350 metra há. Háihnúkur er svo tindurinn sem er hægra megin á fjallinu, eða sunnanmegin, og er hann um 550 metra hár. Á öllum þessum þremur stöðum er gestabók, og var það einmitt planið okkar þegar við fórum Akrafjallshringinn, að skrifa í allar þrjár gesta bækurnar. 

Við lögðum af stað upp úr hádegi á laugardegi í mjög góðu veðri. Við höfðum bæði klætt okkur alltof vel og vorum endalaust að tína af okkur flíkurnar í byrjun. Við fórum upp á Háahnúk og ætluðum að taka hringinn þannig að við kæmum svo niður Guðfinnu/Geirmundar megin. Til að byrja með gekk gangan mjög vel, þó það hafi verið soldið erfitt vegna hita fyrst. Eftir að við vorum komin upp á Háahnúk héldum við áfram upp á hina svokölluðu Jókubungu, og það var einhvers staðar þar sem við hættum að sjá greinilega gönguleið. Undirlagið var mjög erfitt yfirferðar, mikið um stór grjót og þess háttar. Þegar við vorum komin fram hjá Jókubungu var komin gríðarlega mikil þoka, svo mikil að við sáum ekki neitt. Allt í einu áttuðum við okkur á því að við vorum farin að ganga skuggalega mikið niður á við, sem okkur fannst ekki stemma. Þar sem við sáum ekkert, þá tókum við upp áttavita og kort og sáum þá að við vorum að labba í ranga átt. Sem er frekar fyndið því það voru tvær manneskjur búnar að vara okkur við því að týnast ekki uppi á fjallinu. Okkur fannst það hljóma svo furðulega, því þegar maður horfir á fjallið þá skilur maður ekki hvernig það ætti að vera hægt að týnast þarna uppi haha. En það er frekar algengt að það sé þoka yfir fjallinu, svo við sáum mjög vel hversu auðvelt er að týnast þarna. 

Við studdumst við áttavitann og kortið til að finna réttu leiðina í átt að Geirmundartind og héldum að við værum aldeilis búin að finna réttu leiðina, þegar við tókum allt í einu eftir því að við vorum næstum því komin niður að Guðfinnuþúfu! Einhvern veginn tókst okkur að labba framhjá Geirmundartind án þess að sjá hann. Þar sem við vorum með það markmið að skrifa í allar gesta bækurnar, þá urðum við að snúa við. Þannig að við fórum um 1,5 km upp á við aftur og sáum Geirmundartind blasa við okkur. Við skiljum ekki hvernig hann gat farið framhjá okkur. 

Gangan tók lengri tíma heldur en við áætluðum, enda stoppuðum við oft til þess að finna réttu leiðina, undirlagið var mjög erfitt yfirferðar þannig að við fórum ekki hratt yfir og svo þurftum við auðvitað að snúa við smá spotta. Þannig að þessi ferð var á margan hátt alveg frekar krefjandi, en ég held nú samt að á góðum degi, þá væri þessi ganga ekkert stórmál. Ég er að minnsta kosti alveg meira en til í að fara í þessa göngu aftur, og vona þá að það komi engin þoka. 

Ef þú ætlar í þessa göngu þá mæli ég með að hafa meðferðis áttavita, kort af gönguleiðinni í símanum þínum, nóg batterí á símanum þínum og nóg af nesti og vatni. Guð má vita hvað gerist! 

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við