Aftur í rútínu eftir sumarfrí

Núna er sumarfríið okkar búið, sem þýðir bara eitt – það fara allir aftur í rútínu.
Fyrstu dagarnir eru erfiðir hjá mörgum, en með nokkrum auðveldum leiðum smellur allt saman á endanum.

Þetta haustið hafa þessir fyrstu dagar verið meira öðruvísi hjá okkur heldur en síðustu ár. Segja má að það séu spennandi tímar framundan hjá okkur fjölskyldunni.
Helst er að nefna flutningana núna um mánaðarmótin í nýju íbúðina okkar, Fanndís Embla var að byrja á leikskóla í nýja hverfinu, Viktor Fannar var að byrja hjá dagmömmu og ég sjálf var að byrja að vinna aftur eftir ár í fæðingarorlofi.
Svo það er mikið að gerast og því finnst mér nauðsynlegt að skrifa allt niður, bæði í dagbókina mína og fjölskyldudagatalið sem við erum með upp á vegg, en þar eiga allir fjölskyldumeðlimir sinn eigin dálk sem auðveldar yfirsýn.

Einnig gerir það svo mikið finnst mér að kaupa skipulega inn og helst ná að sleppa með það að fara ekki oftar en 1-2x í viku í búðina. En til þess að það gangi upp þá þarf að ákveða svolítið hvað maður vill hafa til á heimilinu í morgunmat, nesti í vinnuna eða skólann og síðdegishressingu ásamt auðvitað kvöldmatnum.
Ég rakst á þessa snilld til þess að fylla inn og ákveða matseðil vikunnar í fyrra haust í søstrene grene. En ég hef þá geymt eldri matseðla til þess að fá hugmyndir þegar ég er hugmyndalaus. En einnig hef ég séð segla á ísskápin og fleiri sniðugar lausnir í þetta verkefni.
Mér finnst einfaldlega best að sjá allt skrifað niður, sumum hentar pottþétt vel að hafa þetta bara í notes í símanum.

Ef þú ert á svipuðum stað, reyndu að finna út þá leið sem hentar þér til þess að allt smelli saman og þér finnist þú hafa stjórn á öllu því sem er að gerast. – Því það er svo góð tilfinning. Hvort sem það er vinna, skóli, frístundir eða samblanda af öllu saman.

Áfram þú!

Þú finnur mig á instagram undir sandrabirna

Sjáumst næst ♡

Þér gæti einnig líkað við