Af hverju ekki að æfa á ferðalögum?

Þegar ég ferðast þá elska ég að fara út að hlaupa og/eða gera úti- eða heimaæfingar. En ég fæ alltaf spurningar frá fólki sem er að velta því fyrir sér af hverju ég sé eiginlega að gera þetta þegar ég er í fríi. Maður eigi nú ekki að vera að puða í fríinu eða eitthvað álíka. En fyrir mér er hreyfing og æfingar svo mikið meira en bara eitthvað sem ég ÞARF að gera, fyrir mér er þetta eitthvað sem ég ELSKA að gera og því sé ég enga ástæðu til að hætta því þó ég sé ekki heima hjá mér. Þegar maður er í fríi þá einmitt hefur maður svo mikinn tíma og mikið frelsi, að þá finnst mér bara geggjað að geta notað tímann til að hreyfa mig extra mikið.

Ég tek alltaf æfingaföt, hlaupaskó og pre-workout með mér í ferðatöskuna til dæmis þegar ég fer erlendis. Ég veit bara fátt betra en að vakna snemma í nýju (og hlýju) umhverfi, skella mér í æfingafötin og finna góðan garð til að hlaupa í og/eða gera útiæfingar. Ég hreyfi mig eitthvað alltaf alla daga, alveg sama hvort ég er í fríi eða ekki, af því að mér finnst það svo gaman OG það lætur mér líða svo ótrúlega vel, svo ég sé enga ástæðu til að gera það ekki, þó ég sé í öðru landi! Bestu dagarnir byrja á því að svitna aðeins, það er bara soldið þannig. Í ofanálag þá fær maður tækifæri til að skoða annað umhverfi og sjá meira en annars, sem er aldrei leiðinlegt. 

Ég ferðast oftast með fólki sem hefur ekki áhuga á að gera æfingar með mér, þannig að ég vakna alltaf aðeins á undan hinum til að geta verið búin að æfa áður en aðrir fara á fætur, og það er aldrei neitt mál. Mér finnst fólk soldið vera að missa af þegar það gerir þetta ekki, því fyrir mér er þetta oft eitt af því sem ég hlakka hvað mest til við að fara erlendis. Að geta farið út að hlaupa í fallegum garði, sjá nýtt umhverfi, svitna vel og njóta veðurblíðu sem við fáum alltof sjaldan að njóta hérna á klakanum, hvað er ekki frábært við það? 

Það sem ég tek með mér í ferðatöskuna er: æfingaföt, hlaupaskór, hlaupabelti fyrir símann og lykla, derhúfa ef er spáð mikilli sól, pre-workout, æfingateygjur, sippuband og lítill bakpoki fyrir æfingadótið. Ef ég fer bara í helgarferð þá sleppi ég yfirleitt æfinga dótinu og fer bara út að hlaupa, en ef ég er að fara í vikuferð eða lengra, þá tek ég allt með mér. Þá tek ég líka með mér þvottaduft í boxi svo ég geti þvegið æfingafötin strax eftir notkun og hengt upp til þerris, svo ég þurfi nú ekki að taka með mér heila tösku af æfingafötum! 

Ég mæli svo ótrúlega mikið með að prófa þetta næst þegar þið farið erlendis. Þetta er klárlega þess virði og gerir ferðalögin bara ennþá skemmtilegri! 

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við