Af hverju ég elska Crossfit

Ég skráði mig á grunnnámskeið í Crossfit Ægi á Akranesi í nóvember 2017. Þar sem ég hafði góðan bakgrunn í lyftingum og margra ára reynslu og menntun sem einkaþjálfari þá ákvað ég að láta duga að fara á helgar grunnnámskeið. Þá mætti ég bara á laugardegi og sunnudegi í 3-4 tíma hvorn daginn og lærði þetta skemmtilega crossfit lingo og undirstöðu atriðin í helstu crossfit æfingunum. Ég var svo spennt að loknu námskeiðinu að ég var mætt í mitt fyrsta WOD strax á mánudeginum. Eftir það var ekki aftur snúið.

Þegar ég byrjaði hafði ég aldrei framkvæmt megnið af þessum típísku Crossfit æfingum, eins og td double unders (tvöfalt sipp), Snatch, Clean, Jerk, standa á höndum og tá í slá svo eitthvað sé nefnt. Sumar hafði ég kannski reynt að prófa, en aldrei komist nálægt því að geta framkvæmt æfinguna svo ég var ekkert mikið að reyna.

Ég setti mér strax markmið um hvaða æfingar ég ætlaði að ná að framkvæma á árinu 2018. Ég mæti á allar æfingar sem ég kemst á, eina sem kemur í veg fyrir að ég mæti á æfingu er vinna eða veikindi. Strax í janúar 2018, eftir aðeins um 2 mánuði í crossfit náði ég að gera double unders. Það var svo mikil gleði og mikill sigur fyrir mig. Þar á eftir fylgdu svo kassahopp á 50 cm kassa, kipping upphífingar, handstaða við vegg, handstand pushup, tá í slá og fleira og fleira. Það skemmtilegasta við Crossfitið er að maður er aldrei búinn að læra allt. Þetta er svo mikið magn af æfingum og svo er maður alltaf að bæta tæknina og gæðin í æfingunum líka.

Upphífingar er æfing sem ég reyndi við í mörg ár, en náði aldrei neinum bætingum í. Var alltaf með þykkustu teygjuna sem til var í ræktinni minni og þannig var það bara. Núna get ég gert dauða upphífingu með léttustu teygjuna og get líka gert kipping upphífingar án þess að vera með teygju. Ég hlakka svo til að ná að gera dauða upphífingu án aðstoðar. Þá verður sko veisla!

Það sem mér finnst einkenna Crossfitið er að þetta er miklu meira en bara að mæta á æfingu. Þetta er bara svo mikil stemmning eitthvað. Svo mikill félagsskapur, stuðningur og maður er endalaust að sjá fólk ná bætingum. Ég þarf aldrei að tala mig til í að fara á æfingu. Mig langar alltaf að fara. Það er frekar að ég þurfi að tala mig af því að fara á æfingu þegar ég er búin að æfa marga daga í röð og er öll orðin lemstruð í líkamanum. Það er bara svo erfitt að sleppa því að mæta af því að þetta er svo gaman.

Ég man þegar ég byrjaði þá horfði maður á þá sem voru lengra komnir og hugsaði „vá, ég á örugglega aldrei eftir að geta þetta“. Nokkrum mánuðum seinna var maður svo farinn að gera þessar æfingar. Það er svo ótrúlega gott fyrir sjálfstraustið að upplifa þessa tilfinningu, að geta bókstaflega séð og mælt bætingarnar sínar á svart og hvítu.

Ég mæli svo mikið með að allir sem eru orðnir þreyttir á hinni hefðbundnu rækt og vilja æfa í góðum félagsskap og ná bætingum á stuttum tíma að prófa Crossfit. Ég sé allavega alls ekki eftir því.

 

Þér gæti einnig líkað við