Æfingarútína í heimsfaraldri

Það voru nú ekki miklar gleðifréttir sem okkur bárust í síðustu viku þegar ákveðið var að loka öllum líkamsræktarstöðvum aftur, í lágmark þrjár vikur. Maður var loksins að ná upp þolinu og styrknum aftur eftir síðustu lokun. Svo þetta kom svolítið eins og blaut tuska í andlitið. Líkamsræktarstöðvar hafa staðið sig svo ótrúlega vel í að fara eftir öllum fjöldatakmörkunum og sóttvarnarreglum til þess að geta haldið opnu. Jafnvel þegar hafa komið upp tilfelli þar sem smitaður einstaklingur fór í ræktina, þá leiddi það ekki til fleiri smita. Það eitt og sér segir okkur hversu vel staðið var að sóttvörnum. En við verðum náttúrulega að fylgja þeim reglum sem eru settar, þannig að maður neyddist til að setja sig aftur í heimaæfinga gírinn. 

Ég fékk 12 kg ketilbjöllu lánaða frá líkamsræktarstöðinni minni. Heima átti ég fyrir æfingadýnu, tvö 5 kg handlóð, æfingateygjur, rúllu, ökklalóð, sippuband og fleira smádót. Ég ákvað að fara með allt heila klabbið heim til foreldra mína, þar sem þau búa í mikið stærra húsi en ég. Ég bjó mér til litla aðstöðu í horninu á stofunni þeirra við hliðiná stórum glugga og svalahurðinni, þannig að þegar það er gott veður þá get ég fært dótið út á pall og tekið æfinguna þar. 

1.apríl var svo skírdagur þannig að ég var í fríi í vinnunni. Ég ákvað því að hlaupa heim til mömmu og pabba, taka æfingu þar og hlaupa svo heim aftur. Hvor leið er ekki nema 1,5 kílómetri. Þar var ég komin með góða upphitun og einnig góða leið til að klára mig alveg eftir æfinguna. Daginn eftir 2.apríl ákvað ég að hlaupa lengri leiðina heim til þeirra og tók þá 2,5 km hvora leið. Þá reyndar tók ég styttri æfingu, tók bara teygjur og smá core æfingar. Laugardaginn 3.apríl fór ég svo bara í göngutúr. Á páskadag var leiðinlegt veður svo ég ákvað að keyra bara heim til foreldra minna til að taka æfingu, en tók þá lengri og strangari æfingu en hina dagana. Svo mánudaginn 5.apríl fór ég út að hlaupa. Ástæðan fyrir því að ég er að lista þetta upp svona hér er til að sýna ykkur hversu fjölbreytt ég reyni að hafa æfingarnar mínar til að halda mér við efnið. Mér finnst það svo mikilvægt til þess að ég hreyfi mig. Ég hefði aldrei nennt að æfa alla þessa daga á stofugólfinu heima hjá mér eingöngu. Og ég vissi það bara. Þess vegna ákvað ég að fara með æfingaaðstöðuna mína annað og hrista aðeins upp í þessu. Manni líður svo vel þegar maður hreyfir sig, svo að mínu mati er það einn mikilvægasti hlekkurinn til að halda góðri andlegri heilsu á þessum fordæmalausu tímum sem við erum að upplifa. 

Mig langar til að koma með nokkrar hugmyndir fyrir ykkur hvernig þið getið hrist aðeins uppí æfingarútínunni ykkar. Fyrst langar mig að benda ykkur á ÞESSA færslu hér sem ég skrifaði í síðustu lokun líkamsræktarstöðva með allskonar aðferðum sem ég nota til að peppa mig í gang fyrir æfingu. 

Hér eru nokkrar hugmyndir: 

  • Finna jógaæfingar á youtube til að fara eftir, getið leitað til dæmis eftir “yoga workouts for beginners”.
  • Finna dans æfingar á youtube til að fara eftir, getið leitað til dæmis eftir “dance workouts for beginners”.
  • Skoða pinterest til að finna allskonar æfingar. Ég leita oft þar sjálf og nota þá til dæmis “home crossfit wod” eða “resistance band workouts” eða hvað það er sem ég er að leitast eftir hverju sinni.
  • Fara í göngutúra. Ekki vanmeta það að fara út að ganga. Það er svo gott fyrir alhliða heilsu. Skrifaði færslu HÉR um kosti þess að ganga.
  • Fara út að hlaupa. Það þarf ekkert að hlaupa hratt eða eftir neinu prógrammi. Það er alveg hægt að fara bara út að hlaupa og gera sitt besta. Ganga svo inn á milli þegar þreytan segir til sín. Eins er líka mjög sniðugt að nota Couch to 5K (C25K) prógrammið fyrir þá sem eru að byrja að hlaupa. Skrifaði einmitt færslu um ÚTIHLAUP um daginn. 
  • Fara í fjallgöngu. Það þarf ekkert að klára fjallið í hvert skipti. Það er ekkert mál að fara bara áleiðis og reyna svo kannski bara næst að fara aðeins lengra. Það þarf ekki alltaf að vera Esjan. Úlfarsfellið í Mosfellsbæ er til að mynda rosalega gott byrjenda fjall. 

Þá gæti æfingarútína fyrir vikuna kannski verið svona: 

Mánudagur = 10 mín jógaæfing og 30 mín heima crossfit æfing

Þriðjudagur = Hlaupa 30 mín og 10 mín teygjur og rúll

Miðvikudagur = 30 mín dansæfing og 10 mín core æfing

Fimmtudagur = 45 mín göngutúr

Föstudagur = 40 mín heima crossfit æfing

Laugardagur = Hlaupa 40 mín og 10 mín teygjur og rúll

Sunnudagur = 45 mín göngutúr

Svo er alltaf hægt að bæta við eða fækka mínútum eftir hentisemi. Þetta er náttúrulega bara hugmynd sem hver og einn getur svo útfært eins og hentar þeim. Við erum hér að eiga við tímabundið ástand, en þar sem líkamleg og andleg heilsa helst í hendur, þá er svo mikilvægt að halda áfram að hreyfa sig í að minnsta kosti 30 mín á dag. 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við