Það að vera með ADHD getur verið krefjandi og erfitt, en einnig skemmtilegt stundum. Sumt sem ég taldi rosalega eðlilegt þegar ég ólst upp, finnst fólki skrítið eða óeðlilegt. Ástæðan fyrir því að ég fattaði ekki að þetta væri óeðlilegt er að að öll fjölskyldan mín er með ADHD, enda gengur það í ættir.
Mig langar að koma með smá lista yfir það sem ég geri, eða finnst erfitt að gera, vegna minnar greiningar. Ég tek það þó fram að þótt þú lesandi góður tengir við eitthvað þýðir það alls ekki að þú hafir ADHD, þetta er miklu flóknara en bara þessi listi.
Þá skulum við byrja:
- Ég vel mér skeiðar, gaffla og hnífa eftir þvi hvernig þau líta út. Gafflar sem eru stuttir á endunum, ekki langir, eru fyrir mér bara óþæginlegir og ljótir.
- Ég þoli ekki mjúk handklæði. Fæ oft hroll og líður illa við að nota mjúk handklæði. Vil hafa þau smá hörð.
- Ég þoli ekki/illa lykt af þvott. Því er rosalega erfitt að deila þvottavél með 3 öðrum íbúðum eins og er, en þau nota þvottaefni (og mýkingarefni) með lykt. Mér finnst það þó allt í lagi ef aðrir klæðast fötum með lykt, en get ekki klætt mig (eða barnið mitt) í föt með lykt. En ilmvötn þoli ég (flest).
- Áferðin á kiwi og tómötum gefur mér hroll þegar ég borða það. Mér finnst bragðið ekkert vont, en fæ klígju og hroll við að borða það. Ég get þó borðað eldaða tómata af bestu lyst.
- Ég fúnkera illa í óreiðu. Það þarf ekki (og er sjaldnast) allt tipp topp heima, en þegar óreiðan er orðin ákveðin mikil þá líður mér bara illa.
- Ég er oft rosa þreytt. Vissi ekki fyrr en seinna að það tengdist ADHDinu, en sama hvað ég geri er ég oft rosa þreytt. Þetta var verst þegar ég var í menntaskóla, en átti stanslaust erfitt með að halda mér vakandi í tímum, jafnvel þótt ég væri vel nærð, vel sofin, ekkert stressuð. Ég sofnaði einu sinni standandi í vinnu að vinna! Ég skildi aldrei hvað vandamálið var. Þegar ég fór í háskóla var ég byrjuð á lyfjum (og búin að fá greiningu) og það var allt annað líf!
- Ég er búin að semja og gefa út tvær bækur, orðin lista kona, leikkona, búin að gefa út sundfatalínu og gera jóladagatal, allt í hausnum á mér. Þessar hugmyndir eru samt allar enn svo sterkar að hver veit hvort ég framkvæmi þær einn daginn, amk einhverja af þeim. En er alltaf að eignast ný áhugamál!
- Ég á það til að vera rosa fljót upp í skapi, en sé svo fljótt eftir því líka. Þetta er eitthvað sem ég hef áttað mig á á seinustu árum og er enn að læra á að stjórna. Stundum er bara gott að róa sig niður og tala svo!
- Ég hef alltaf átt erfitt með allar breytingar, sérstaklega ef eitthvað er fyrirfram ákveðið. T.d. ef ég væri búin að ákveða að fara í helgarferð næstu helgi til Akureyrar og eitthvað kæmi upp á, hversu lítið sem það er, þá væri ég í alveg nokkra daga að jafna mig. Mér finnst þetta oft rosalega erfitt og leiðinlegt.
- Ég á oft erfitt með að muna nöfn á fólki, sérstaklega ef það er ekkert andlit að tengja við. T.d. ef einhver vinkona sem ég þekki eignast kærasta og hún talar oft um hann, þá næ ég varla hvað hann heitir fyrr en ég hitti hann, nema það sé eitthvað sérstakt við nafnið sem ég tengi við. Man oft mun betur eftir andlitum, en aldrei hvaðan ég þekki þau.
Það er svo margt fleira sem tengist ADHD-inu mínu. Mikill kvíði og félagsfælni hefur líka fylgt mér lengi og virðist tengjast ADHD-inu, en það birtist í svo ótalmörgum myndum. Einnig hef ég alltaf verið rosalega myrkfælin, en hef ekki rætt það við sálfræðing/geðlækni hvort það gæti tengst.
Ef þið teljið ykkur hafa ADHD, þá mæli ég eindregið með því að fólk leiti sér aðstoðar og/eða fái greiningu, því það getur hjálpað manni að vera sáttur með sjálfan sig. Besti byrjunarstaður er sálfræðingur eða ADHD teymið.
Ég vona að þið hafið haft smá gaman af þessari lesningu, og fengið að kynnast mér og mínum heila aðeins betur.
Takk fyrir lesturinn!