Að vera besta útgáfan af sjálfum sér

Þennan frasa heyrir maður ansi oft og langaði mig aðeins að kryfja hvaða merkingu ég tek af honum. Margir tengja hann við útlit, ef þú nærð að komast niður í “kjörþyngd” eða eitthvað annað ákveðið form að þá sértu besta útgáfan af sjálfri þér og var ég sjálf meðal þeirra sem hugsuðu svona fyrir nokkrum árum. Þá hélt ég að grennri ég yrði hamingjusamari ég, sem reyndist svo að sjálfsögðu alls ekki vera raunin.

Maður hittir reglulega fólk sem maður dáist að. Það getur verið vegna þess að það er svo duglegt að mæta í ræktina, fara út að hlaupa, eða vegna þess að það hefur einhverja hæfileika eins og að syngja, dansa, mála eða spila á hljóðfæri til dæmis. Það getur verið vegna þess að manneskjan á svo auðvelt með að tala fyrir framan aðra og kemur öllu svo skýrt og vel frá sér. Það getur verið vegna þess að manneskjan er svo ótrúlega dugleg í vinnunni sinni. Það eru svo ótal margar ástæður fyrir því að maður dáist að einhverju í fari annars fólks. Eins getur það verið akkúrat öfugt, að maður upplifi eitthvað í fari fólks sem manni líkar alls ekki við og þá hugsar maður jafnvel með sér að svona vilji maður ekki vera.

Sem dæmi, þá reykti ég einu sinni, byrjaði þegar ég var mjög ung og vitlaus. Svo einhverjum árum seinna var ég komin í háskóla og langaði að vera flott og fín menntuð kona sem reykti ekki. Ég leit upp til fólks sem reykti ekki. Mér fannst það vera mikill ókostur við sjálfa mig að ég skyldi reykja. Svo ég ákvað að breyta þessu hjá mér og hætti að reykja.

Við höfum nefnilega sjálf vald yfir því hvernig við erum og hvað við gerum. Ef þú sérð eitthvað í fari annarra sem þig langar að tileinka þér, þá er um að gera að setja sér það markmið og vinna í því. Hvort sem það er ákveðin hegðun eða hæfileiki. Auðvitað getur maður ekki breytt hegðun sinni á einni nóttu eða lært að spila á hljóðfæri til dæmis, en maður getur unnið að því markvisst. Enginn er fullkominn og kannski er erfitt að tileinka sér einhverja ákveðna hegðun eða hæfileika fullkomlega, en ef maður er að gera sitt besta þá mun það skila sér.

Eitt sem ég hef mikið hugsað um er að mig langar til að hætta að slúðra og tala um annað fólk. Ég tel mig ekki gera mikið af því, en það kemur samt fyrir að ég finn mig í samræðum þar sem talað er um annað fólk og hluti sem koma mér ekkert við og þá finn ég alltaf til sektarkenndar, því mig langar ekki til að vera þessi manneskja. En þá þarf ég bara að æfa mig í því, ganga í burtu eða snúa samræðum upp í eitthvað annað þegar ég lendi í þessari stöðu, sem dæmi. Auðvitað er kannski aldrei hægt að hætta alveg að tala um annað fólk, en það er alltaf hægt að vanda sig aðeins meira.

Að vera besta útgáfan af sjálfum sér í mínum skilning er akkúrat þetta. Að reyna að skilgreina hvernig manneskju þú vilt geyma og tileinka sér svo þá hluti frá öðrum sem heilla mann. Vera þannig alltaf að gera sitt besta í að bæta sig, læra og vanda sig í að verða sú manneskja sem manni langar að vera. Að vera besta útgáfan af sjálfum sér hefur ekkert með útlit að gera.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við