Að skipuleggja ferðalagið

Ég er ótrúlega skipulögð manneskja, sérstaklega þegar kemur að ferðalögum og öllu sem tengist þeim. Þegar ég er að fara að ferðast, þá byrja ég alltaf á því að skoða vel þann stað sem ég er að fara að heimsækja. Ég skoða þá helst tripadvisor, blogg færslur og fleira sem ég finn um staðinn og skrifa hjá mér allt það helsta sem mig langar til að sjá og gera. Svo bý ég til dagskrá út frá því hvað ég hef marga daga á viðkomandi stað. Ég skrifa svo alltaf hjá mér nokkra staði til að hafa til vara, ef meiri tími mun gefast í ferðinni. Ég notast mikið við Google maps þegar ég er að útbúa dagskránna til að nýta tímann sem best og heimsækja staði sem eru nálægt hvorum öðrum saman. Þá þarf maður ekki að borga eins mikið í samgöngur á milli staða og eins ef maður er fótgangandi þá kannski þarf maður ekki að labba alveg jafn mikið. Svona skipulagði ég til dæmis alla Ítalíuferðina okkar mæðgna sem við fórum í sumar, sem var þriggja vikna ferð þar sem nákvæmlega ALLT gekk upp og við náðum að gera allt sem við ætluðum okkur að gera, og vil ég þakka skipulaginu mínu fyrir það. Núna í vikunni er ég að fara í þriggja daga ferð til Prag og er búin að skipuleggja alla þá ferð. Fyrst skrifaði ég niður allt sem mig langaði að gera og væri raunhæft að ná að gera á þremur dögum. Svo setti ég allar staðsetningar í Google maps og fann út hvaða staði væri hentugast að heimsækja saman og raðaði þannig niður á dagana þrjá. Hér er listinn sem ég setti saman yfir hvað ég vildi ná að gera í Prag þessa þrjá daga.

Mér finnst einnig mikilvægt að pakka skipulega niður fyrir ferðalög. Ég er manneskjan sem allir vilja ferðast með, því ef þú gleymdir einhverju, þá er ég með það! Ég skrifa alltaf niður lista yfir hvað ég ætla að taka með mér, og ég skipti þessum lista svo yfirleitt niður í þrennt. Fyrsti listinn er yfir allt sem ég ætla að taka með mér í handfarangur. Ég á ekki alltaf auðvelt með að sofa í flugi og þar af leiðandi vil ég hafa allt sem þarf til að mér leiðast ekki. Annar listinn er yfir fatnað og þess háttar, og þriðji listinn er yfir snyrtivörur og slíkt. Ég tek yfirleitt meira með mér heldur en minna, enda er ég yfirleitt ekkert að versla neitt rosalega mikið þegar ég fer út lengur. En ég reyni þó eftir fremsta megni að vera skynsöm og taka ekki alltof mikið með mér og það lærist með hverju ferðalaginu sem bætist í safnið. Áður fyrr tók ég til dæmis með mér næstum allt snyrti- og förðunardótið mitt, en ég hef lært af reynslunni að ég mála mig lítið sem ekkert þegar ég er erlendis, svo ég er alveg hætt að taka það allt með mér. Einnig útbý ég fjórða listann yfir hluti sem ég þarf að muna að gera áður en ég fer í ferðalagið. Hérna fyrir neðan má sjá alla listana mína fjóra fyrir Prag ferðina.

Vonandi hjálpar þetta einhverjum að skipuleggja komandi ferðalög.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við