Að hlusta á sjálfan sig

Ágústa Erla er fyrsta barnið okkar Óla. Við vorum engir sérfræðingar í foreldrahlutverkinu þegar litla fæddist, eins og flestir örugglega. Strax þegar ég varð ólétt fór maður að fá ráð hjá öðrum mömmum í kringum sig. Sem er jú alveg gott, flott að fá heyra hvað hentaði og virkaði hjá öðrum. En ráðin voru af ýmsum toga og margir halda að þó að eitthvað hafi virkað á barnið sitt að þá eigi það að virka á önnur börn. En svo er ekki. Börn eru mismunandi eins og þau eru mörg. En þegar að Ágústa Erla fæddist var alltaf eitthvað fólk í kringum okkur að gefa okkur „ráð“ við hinu og þessu sem okkur vantaði bara ekki hjálp við. Ágústa okkar var og er algjört draumabarn og litlu hlutirnir sem við vissum ekki um og sem við lærum jafnóðum lærum við sjálf. Ef við vildum fá ráð við einhverju sérstöku þá spurðum við. Mér finnst svo oft að konur sem eiga nokkur börn og jafnvel barnabörn haldi að þau viti hvað er best.

Ég og Óli þekkjum Ágústu Erlu best og vitum hvað hentar henni svo henni líði vel.

Sem dæmi fannst mér mikið vera talað um það, bæði í mömmuhópum og annarsstaðar, að börnin ættu að læra sofna sjálf sem fyrst. En á ljósmóðir.is stendur að eftir 3 mánaða aldurinn sé hægt að fara kenna börnum að sofna sjálf. Það var búið að mata mig á því að barnið mitt ætti að vera búið að læra sofna sjálft helst fyrir 5 mánaða aldurinn því að eftir 6 mánaða gæti verið erfiðara fyrir þau að læra þetta. Stelpan mín var mjög mikið brjóstabarn og var alveg brjóstasjúk fyrstu 6 mánuðina. Þegar við Óli ætluðum að reyna á það að kenna henni að sofna sjálf gekk það alls ekki vel. Ég ætla ekki að fara í smáatriðin en það endaði alltaf þannig að ég hágrét bara með henni. Þetta var ekki að ganga. Hún var alls ekki tilbúin í þetta og við fundum það bæði. Þriggja mínútna reglan er algjört rugl fyrir okkar barn til dæmis. Við prufuðum ýmislegt en ekkert virkaði á hana. En við tókum þá sameiginlega ákvörðun um það að leyfa henni bara að sofna í mömmufangi fyrst hún vildi það. Þar leið henni langbest. Þetta eru náttúrulega pínulítil börn og eru lítil í stuttan tíma. Hún hefur samt alltaf sofið í sínu rúmi. Sumar mömmur ranghvolfdu augunum þegar ég sagði þeim að dóttir mín sem er 7 mánaða sofnar ennþá í fanginu á mér. En þannig er það bara.

Þegar við Óli fluttum um daginn fannst okkur vera rétti tíminn til að láta hana sofa í eigin herbergi og fá hana til að sofna sjálf. Í dag er hún hætt að sofna í fanginu á mér, hún sofnar sjálf í rúminu sínu en ég sit við hliðiná rúminu þangað til að hún sofnar. Það er vika liðin og þessi rútína er búin að ganga vel. Ég fann á henni að hún var alveg tilbúin í þetta. Næsta skref verður svo að hún sofni alveg sjálf. Ekkert stress. Hún verður 9 mánaða í lok mánaðarins og er ég alveg viss um að hún verði farin að sofna alveg sjálf fyrir þann tíma.

Það eru fullt af svona hlutum sem við verðum bara að finna sjálf. Hvenær barnið á að fá graut fyrst, hvenær það á að sofna á kvöldin, hvernig það á að sofna, hvaða föt eru best, hvernig á að klæða þau o.s.frv.

Ég veit að margir hafa talað um þennan punkt. En ég skildi hann aldrei fyrr en ég varð móðir sjálf. Við þekkjum börnin okkar best og gerum það sem okkur þykir henta þeim best.

Þér gæti einnig líkað við