Núna þegar flest skíðasvæði landsins eru farin að hafa opið eins og veður leyfir, finnst mér tilvalið að deila með ykkur nokkrum ráðum fyrir litla skíðafólkið sem mörg eru að stíga sín fyrstu skref í sportinu, sem gæti eflaust orðið eitt af skemmtilegri fjölskyldu sportum ef það er það ekki nú þegar.
Mörg þessara ráða virka eflaust ef barnið er að byrja á snjóbretti en ég þekki það ekki af eigin raun.
Fanndís Embla fékk fyrstu skíðin sín í jólagjöf í desember 2015, þá tæplega 18 mánaða gömul. Fyrsta veturinn mætti segja að þetta hafi verið nokkrar ferðir í hvert skipti, enda úthaldið á börnum á þessum aldri ekki mikið. En mikilvægustu ráðin sem við fengum frá fólkinu í kringum okkur var að þetta yrði að vera gaman og að passa að barninu yrði ekki kalt.
Ég las mig líka helling til um þetta á erlendum síðum og þar kom fram að sniðugt væri að hafa klemmu framan á skíðunum svo þau yrðu föst í plóg, svo barnið væri ekki að skauta fram og til baka á skíðunum. Þetta hentaði okkur vel fyrstu tvö árin þar sem Fanndís Embla var aldrei með þor til þess að skíða ein af stað né vera í svokölluðu skíðabeisli, sem sett var um mittið á henni. Heldur varð að skíða með hana fyrir framan sig og halda undir hendurnar á barninu eða láta hana halda í einn skíðastaf, en þá urðum við bara að passa að hún hafði þyngdina sjálf á skíðunum frekar en að hanga algjörlega á okkur.
Síðasti vetur var sá mest krefjandi að skíða með henni, þar sem hún var orðin það stór að segja bara „Nei, ég vil ekki“ við öllu sem hentaði henni. Hvort sem það var að skíða aðra ferð, fara heim, fara inn að borða eða bara hvað sem er. En þá þurfti oft að stoppa, tala saman og búa til plan. Planið innihélt þá kannski að fara í barnalyftuna 5 sinnum og þá væri hægt að fara inn og fá kakó eða jafnvel fá skíðanammi.
Skíðanammi er eitthvað sem hefur þróast hjá okkur eftir sem hún varð eldri í skitless en það var í upphafi rúsínur. Þetta var ég eða pabbi hennar með í vasanum og það mátti fá eitt ef maður vildi á meðan beðið var í röðinni eftir lyftunni upp.
Á flestum skíðasvæðum er leiksvæði fyrir börnin sem er um að gera að nýta þegar taka á pásu. Sniðugt er þá að leyfa börnunum að vera áfram í skíðaskónum svo þau nái að venjast að vera í þessum plastskóm sem gefa lítið sem ekkert eftir. Einnig er um að gera að leyfa börnunum að prófa sig áfram að labba með skíðin á fótunum án þess að nota stafi. En þegar þau verða sjálfbjarga, þá verður skíðaferðin skemmtilegri fyrir alla – bæði börn og foreldrana.
Fanndís Embla er að byrja núna fimmta skíðaveturinn sinn og það var í mars í fyrra sem hún varð sjálfbjarga, eftir að hafa farið í einkakennslu og skíðaskóla í Hlíðarfjalli þegar við vorum þar í skíðaferð. Það þurfti alls ekki mikið til, í raun bara það að fá einhvern annan en mömmu eða pabba til þess að segja henni til. Hún var alls ekki sátt með að fara í fyrstu, en svo gaman að sjá hvað hún var orðin dugleg sjálf restina af vetrinum.
Við erum ekki búin að komast sjálf á skíði þennan veturinn sökum anna, en við þurfum að fara að kippa þessu í lag. Fanndís Embla var að fá stærri skíði, þar sem hennar voru orðin allt of lítil, svo það hefur komið upp sú umræða hjá okkur foreldrunum að fara með hana hérna í höfuðborginni í einhverja af diskalyftunum, til þess að rifja upp og kynnast nýjum, lengri skíðum á næstu dögum. Það sem ég væri stundum til í að búa út á landi þar sem skíðasvæðið er inn í bænum því það þarf ekki alltaf að vera dagsferð upp í fjöllin.
Góða skemmtun á skíðum!
Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna
Þar til næst ♡
-Sandra Birna